23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Hákon Kristófersson:

Við 1. umr. þessa máls fór jeg nokkrum orðum um ýms ákvæði þessa frv., sem jeg kunni illa við. Síðan hefi jeg leitað mjer upplýsinga hjá hv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem átt hefir mikinn þátt í tilbúningi frv., um þessi atriði og eftir viðtal mitt við hann get jeg betur felt mig við ákvæði frv., að því er til míns kjördæmis kemur, sjerstaklega er hann gat þess, að með undanþáguákvæðum, eins og þeim í 9. gr., væri hugsað til þeirra landshluta, sem ættu við líka staðhætti að búa og mín sýsla. Einnig fjekk jeg þar upplýsingar um flokkun kjötsins, og get jeg fallist á ákvæði frv. þar að lútandi eftir þær upplýsingar.

Að öðru leyti hefir hv. þm. Stranda. (M. P.) tekið af mjer ómakið. En þó vil jeg árjetta ummæli hans í sambandi við brtt. hv. landbúnaðarnefndar. á þgskj. 143. Hún fer alveg í þá átt, að gera þeim, sem ekki geta náð í lækni, með öllu ómögulegt að flytja út kjöt. Ef jeg þættist ekki vita, hvers vegna hún er fram komin, myndi mig stórfurða á henni. En jeg hefi sterkan grun um, að hún sje runnu undan rifjum dýralæknis, og sá grunur nálgast fulla vissu. Má vel vera, að það sje varhugavert að taka kjöt aftur upp úr tunnum til stimplunar; jeg hefi ekki gott vit á því atriði; en hafi dýralæknir bent landbúnaðarnefnd á, að þetta væri ómögulegt, hví benti hann þá ekki líka á það, að ómögulegt væri, að aðrir en dýralæknar framkvæmdu stimplunina? Jeg heyri, að formaður landbúnaðarnefndar segir, að svo hafi ekki verið. En hann sagði þó við mig í morgun, á leið sinni á nefndarfund, að það væri beint að fara í kring um lögin að láta aðra en dýralækna stimpla kjöt til útflutnings. Á því byggi jeg, að brtt. sje runnin frá dýralækni.

Þar sem jeg ber fult traust til hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að hann hafi ekki flanað að þessu máli, og að hann hafi tekið til rækilegrar yfirvegunar, hvort ekki mætti taka kjötið upp úr tunnunum aftur, þar sem ekki næst til læknis til stimplunar, þá vænti jeg þess, að hv. deild felli brtt. nefndarinnar, á þgskj. 143.

Háttv. frsm. (P. Þ.) benti á, að ívilnanir til þessara staða væri að finna í 9. gr. frv. Jeg vona, að háttv. frsm. taki ekki illa upp fyrir mjer, þótt jeg segi honum, að ef brtt. nefndarinnar verður samþ., þá er ívilnunin í 9. gr. minna en einskis verð, því að við höfum ekki leyfi til að sækja um undanþágu til slátrunar, þar sem engin leið er að fá kjötið flutt út úr landinu vegna ákvæða 2. gr., ef brtt. verður samþ. Verði því brtt. samþ., þá sjá allir heilvita menn, að það er sama sem að eyðileggja áhrif undanþágunnar í 9. gr.

Mjer þætti vænt um að heyra álit hv. þm. S-Þ. (P. J.) um það, hvort hann af sinni margra ára reynslu telur ekki fulla vissu fengna um það, að óhætt sje að taka kjöt upp úr tunnum til stimplunar síðar, ef svo stendur á.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til fleiri orða að þessu sinni, en verð að leggja áherslu á að háttv. deild samþ. ekki brtt. á þgskj. 143. Væri mjer það mikil ánægja, ef háttv. landbúnaðarnefnd tæki nú upp sama ráð, því að hún hlýtur að sjá, að 9. gr. getur ekki samrýmst við brtt.