23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Einar Árnason:

Það hafa komið fram ýmsar athugasemdir út af brtt. landbúnaðarnefndar, sjerstaklega frá hv. þm. Stranda. (M. P.) og hv. þm. Barð. (H. K.).

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) skaut því til nefndarinnar, hvort hún vildi ekki taka málið út af dagskrá og leita álits dýralæknis um brtt. Jeg held ekki, að þess sje þörf, því að landbúnaðarnefndin bar brtt. undir hann áður en hún fór í prentsmiðjuna. Hann taldi hana alveg bráðnauðsynlega, því að það væri með öllu ómögulegt fyrir nokkurn lækni að stimpla kjöt, sem búið væri að salta. Bæði hefði það oft mikinn kostnað í för með sjer, og auk þess væri engin trygging fyrir, að kjötið skemdist ekki við það. Mótbárurnar eru bygðar á því, að ákvæðið yrði mikið notað til þess að taka kjöt upp úr tunnum eftir á, til stimplunar. En það er hið versta neyðarúrræði, þó að vitanlega sje svo, að á ýmsum stöðum sjeu dálitlir örðugleikar á að fá lækni til að stimpla. En út af því, er hv. þm. Barð. (H. K.) spurði hvort nefndin hefði ekki spurt dýralækni, hvort byggja mætti á stimplun annara en dýralækna, skal jeg geta þess, að ekki var hægt að skilja annað en hann teldi það fullkomlega fullgilt. Hann benti á, að fá mætti læknanema frá Reykjavík, um slátrunartímann, til að stimpla kjöt, þar sem örðugt væri að ná í lækni. Jeg býst við, að hv. þm. Barð. (H. K.) hafi misskilið eitthvað dýralækni um þetta atriði.

Það kom hjer fram í umr. um daginn, að það gæti orðið mjög bagalegt, ef hjeraðslæknir væri sóttur frá stimplun, eða forfallaðist á einhvern hátt. Þetta getur vel komið fyrir, að læknir forfallist einn og einn dag, og hefir meira að segja komið fyrir. En reynslan er búin að sýna, að þetta þarf ekki að valda neinum vandræðum. Það er venjulegt, og ætti jafnan að vera svo, þar sem sláturhús eru, að sami maður hjálpi til við stimplunina ár eftir ár. Þótt nú læknirinn þyrfti að skreppa frá um stundarsakir, getur þessi maður stimplað fyrir hann. (H. K.: Hvað sagði dýralæknir um það?). Hann sagði, að það gæti vel gengið. Aðalatriðið væri, að vottorðið væri gefið af lækni, en ekki einhverjum og einhverjum.

Þessi brtt. er fram komin eftir tilmælum dýralæknis. Jeg býst ekki við, að hv. þm. vilji kveða upp þann dóm, að till. hans í þessu máli sjeu einskis nýtar. (M. P.: En málið?) Það getur vel verið, að orðalagsins vegna sje ástæða til að taka málið út af dagskrá.