23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg ætlaði að svara hv. þm. Stranda. (M. P.), en nú hefir hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) að mestu leyti tekið af mjer ómakið um fyrri brtt. á þgskj. 143. Sú brtt. er beinlínis gerð að ráði dýralæknis, þótt jeg tæki það ekki fram við framsögu málsins. Og það virðist líka auðsætt, að það gæti varla komið til mála, að læknisskoðun á kjöti hafi nokkra þýðingu, úr því búið er að salta það, auk þess sem stöðugt er hætta á, að kjötið skemmist við það. Útflytjendur gætu þannig átt miklu meira á hættu af því, að láta stimpla kjöt eftir söltun, en sem svarar örðugleikunum á því, að fá það skoðað og stimplað áður.

En svo var það síðari liður brtt., sem hv. þm. Stranda. (M. P.) áleit að væri til lítilla bóta, eða óþarfur. Sú breyting er og gerð að ráði dýralæknis. Hann útskýrði orðið „eðlisgalli“ þannig, að sá galli er fylgir einhverjum hlut — t. d. að hestakjöt þykir alment ekki eins bragðgott og kindakjöt — er galli á eðli hans. Geti það því ekki átt við um sjúkdóma eða meinsemd. Jeg ætti ekki að þurfa að útskýra þetta fyrir hv. þm. Stranda. (M. P.) Hann ætti sem læknir að vita það. Virðist mjög eðlilegt að setja hjer orðið „sjúkdóma“ í stað „eðlisgalla“, þar sem það er ólíkt skýrara.

Annars veit jeg ekki, hvað hv. þm. Barð. (H. K.) ætlast fyrir með mótmælum sínum móti þessu frv. með brtt. nefndarinnar. Jeg sje ekki, hverju hann þykist bættari með því ákvæði, sem nefndin vill fella úr 2. gr., nema hann vilji eiga það á hættu, að kjötið sje rifið aftur upp úr tunnunum, með öllum þeim annmörkum, sem því fylgja. Get jeg því ekki sjeð neina aðra meiningu í því, að hafa móti brtt., en að ónýta aðaltilgang frv., sem er sá, að kjötið sje skoðað af lækni samkvæmt lögum, og að öðru leyti með það farið eftir vissum reglum, sem frv. setur.

Jeg sje ekki ástæðu til, að málið sje tekið út af dagskrá, þótt orða megi brtt. öðruvísi. Finst ekki sýnt fram á, að það sje svo mikilvægt atriði.