03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki vera margorður, enda mun verða fundarhlje kl. 7.

Eftir því, sem nú er fram komið, þá mun hækkun hv. fjárveitinganefndar á fjárlagafrv. nema alt að 1 milj. og 300 þús. kr. Að því leyti, sem hækkun þessi miðar til verklegra framkvæmda í landinu, er ekkert við því að segja. Það er ekki nema eðlilegt, að fjárveitingar til allra framkvæmda aukist og hækki í samræmi við annað. Með þeirri hækkun sem hjer er farið fram á til framkvæmda í landinu er þó ekki meira en haldið í horfinu við það, sem var fyrir stríðið. En undanfarin ár hefir verið stór afturför í þessu efni. Alt aðflutt efni hefir margfaldast í verði og vinnulaun fullkomlega þrefaldast, Þó að fjárhagur landssjóðs sje þröngur nú. Þá verður að halda í horfinu með framkvæmdir, og það því fremur sem það hefir sýnt sig að einstök sveitar- og sýslufjelög hafa lagt mjög mikið fje fram þessi árin og sýnt mikinn áhuga í því, að hrinda nauðsynlegum framkvæmdum áfram.

Aðalhækkunin í fjárlögunum er nú að vísu fólgin í því, sem jeg hefi nú nefnt — því hækkunin samkv. launafrv. er ekki enn komin til skjalanna — en auk þessa eru ýmsar aðrar fjárveitingar, sem deildar skoðanir munu vera um. Sumar af þessum till. eiga að sjálfsögðu nokkurn rjett á sjer. en margt er það, sem vafalaust hefði mátt spara, og ekki einasta það heldur sem sjálfsagt hefði verið að spara eins og nú stendur. Skal jeg t. d. nefna fjárveitinguna til Olympíuleikanna. Jeg vil endurtaka það, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði um þetta, er hann gerði grein fyrir fjárhagnum, að það væri að leika sjer með peningana, að ætla að henda 20 þús. kr. út í slíkt. Skal jeg svo ekki fara frekar út í það, en mun sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þetta, heldur víkja nokkrum orðum að brtt. mínum. Þó get jeg ekki leitt hjá mjer að minnast fyrst lauslega á einn lið; það er 70. liður í brtt. nefndarinnar. við 14. gr. B. 1. d., um styrkinn til háskólans.

Eins og kunnugt er þá fjekk háskólinn 1 milj. kr. til umráða þegar sambandslögin gengu í gildi. Á hann svo að njóta vaxta af þessari upphæð og verða það 50 þús. kr. á ári. Það kom berlega fram í frv. stjórnarinnar, að hún ætlaðist til, að fyrir þessa sök ljetti talsvert af útgjöldum til háskólans í fjárlögunum. Stjórnin hafði ekki ætlað nema 18 þús. kr. til þess liðar, en nú hefir niðurstaðan orðið sú, að fjárveitinganefndin hefir hækkað hann upp í 51 þús. kr. Jeg hefi nú hjer fyrir framan mig skipulagsskrá um það, hvernig háskólaráðið hugsar sjer að verja þessum vöxtum og kemur það í ljós, að þar er ætlast til, að að eins 5,600 kr. sje ljett af fjárlögunum, af tillagi til háskólans; það er til bókakaupa og eitthvað annað. Annars eru það alveg nýir útgjaldaliðir. sem hjer er stofnað til. Mjer hefði þó fundist sanngjarnt og rjett, að einhverju af vöxtum af þessari miljón yrði varið í námsstyrk og húsaleigustyrk til stúdenta. Jeg veit nú ekki hvort þessi skipulagsskrá sem jeg nefndi, er staðfest af stjórninni eða hvort hæstv. stjórn hefir verið kunnugt um hana, þegar hún samdi frv. sitt. Að minsta kosti sýnir fjárlagafrv. stjórnarinnar, hvernig hún hefir litið á þetta mál. Jeg minnist á þetta hjer af því, að það fjellu þannig orð um það hjer á þingi í fyrra, bæði hjá hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) að vextirnir af þessari miljón mundu ljetta af fjárlögunum miklu af styrknum til háskólans

Þá vil jeg minnast á brtt. mína á þgskj. 612. við 14. gr. um athugasemdina við styrkinn til lýðskólanna. Jeg sje, að fjárveitingarnar til þeirra hafa verið hækkaðar talsvert mikið, og er jeg þar sammála nefndinni, að eigi verði hjá því komist. Það ber mikil nauðsyn til að styrkja þá skóla, svo að þeir, sem að þeim standa, geti haldið uppi kenslu áfram. Jeg sje, að skólinn á Núpi í Dýrafirði á að njóta 500 kr. hærri styrks heldur en Hvítárbakkaskólinn. Þetta get jeg ekki felt mig við. Jeg hefði að minsta kosti talið æskilegt að nefndin hefði ekki gert upp á milli þessara skóla, heldur gert þeim jafnt undir höfði, þó að Hvítárbakkaskólinn hafi til þessa notið hærri styrks, og það með fylstu sanngirni, sökum þess, hve fjölsóttur hann er og miklu til hans kostað. Það er öllum vitanlegt, sem til þekkja að skólastjórinn við Hvítárbakkaskólann hefir verið brautryðjandi á þessu sviði hjer. Hann hefir bygt stórhýsi handa skólanum og haldið honum uppi í mörg ár með miklum dugnaði, enda er hann orðinn þjóðkunnur fyrir áhuga sinn á alþýðumentun og hefir unnið stórgagn á því sviði. Núpsskólinn er auðvitað alls góðs maklegur, en jeg verð að telja það miður sanngjarnt að taka Núpsskólann fram yfir hinn. Þess vegna hefi jeg flutt hjer brtt. um að gera báða skólana jafna, en jafnframt sett hjer varatill., um að lækka styrkinn til Núpsskólans niður í 3.500, ef svo skyldi fara að aðaltill. yrði ekki samþ.

Þá á jeg hjer aðra brtt., á þgskj. 610. við 15. gr., um að styrkurinn til Bræðrasjóðs falli niður. Eins og menn sjálfsagt muna eftir þá var reipdráttur um það hjer á þingi 1917. hvort styrkja ætti Stórstúku Íslands áfram. Mæltu margir móti því að svo yrði gert, og varð það að niðurstöðu að styrknum var komið á Bræðrasjóðinn. Nú er svo ástatt, að aldrei hefir verið sótt um þennan styrk; finst mjer því langrjettast, að hann falli nú niður.

Þá hefi jeg enn fremur flutt brtt. á þgskj. 611. við 18. gr., þar sem taldir eru upp styrkir, veittir í viðurkenningarskyni. Þar vil jeg, að bætt sje við 1 lið, til Sigurðar Jónssonar, smáskamtalæknis frá Litla- Lambhaga í viðurkenningarskyni fyrir læknisstörf hans, 500 fyrra árið. Jeg fór fram á það á þingi 1917, að honum væri sýnd viðurkenning. en það náði þá ekki fram að ganga. Jeg skýrði þá frá starfi þessa manns, að hann hefði lengst af æfi sinnar stundað smáskamtalækningar og reynst sjerstaklega heppinn og hjálpsamur á því sviði. Enda hefir hans verið leitað víðs vegar að og er hann nú orðinn útslitinn af ferðaögum.

Enn þá fæst hann nokkuð við læknisstörf, en lítt fær er hann nú orðinn til ferðalaga, enda hniginn hátt á efri aldur. Hann er þess vel maklegur, að Alþingi viðurkenni starfsemi hans og fórnfýsi.

Jeg vona því að þessari málaleitun verði vel tekið, og læt að svo mæltu staðar numið.