29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Hv. Ed. hefir gert fáeinar breytingar á frv. því, sem hjer liggur fyrir.

Fyrst eru tvær breytingar við 6. gr. Hin fyrri er að eins fólgin í því, að í stað þess, að yfirmatsmenn geri tillögur um, hverjir skulu vera matsmenn og hve margir, þá sje forstöðumönnum sláturfjelaga ætlað að gera það, ásamt yfirmatsmönnum. Jeg skal leyfa mjer að geta þess, að þar sem hjer er talað um sláturfjelagsskap, þá nær það auðvitað til allra þeirra fjelaga, sem hafa sláturhús og slátra þar, þó sá fjelagsskapur kunni að ná til einhvers fleira. Þessa breytingu verð jeg að telja hagkvæma og heldur til bóta.

Síðari breytingin við 6. gr. er fólgin í, að í stað þess, að stjórnarráðið ákveði laun kjötmatsmanna í samráði við yfirmatsmenn, þá er samkvæmt frv. yfirmatsmönnum ætlað að gera það í samráði við forstöðumenn sláturfjelaga. Þessi breyting er í samræmi við þá fyrri. Það kann að vísu að verða dálítið mismunandi í einstöku hjeruðum landsins. En það virðist ekki ósanngjarnt, að forstöðumenn sláturhúsa hafi íhlutunarrjett um þetta.

Þá er lítil breyting gerð á 7. gr., þess efnis, að felt er burtu, að standa skuli í erindisbrjefi matsmanna, hvaða kaupgjald þeir hafi.

Enn fremur er breyting við 9. gr. Að gefnu tilefni vil jeg leyfa mjer að vekja athygli hv. deildar á því, að þessi grein frv. ákveður sjerstaklega mikilvægt og áríðandi atriði í starfi yfirmatsmanna, t. d. það, að hús þau sem slátra á í, sjeu svo úr garði gerð, að þau teljist hæf til þess. Breytingin á þessari grein er ekki önnur en sú, að ef hús er einhversstaðar, sem að áliti yfirmatsmanns ekki er hæfilegt til slátrunar, þá er felt burtu, að veita megi undanþágu. Hins vegar ef svo er ástatt á einhverjum stað, að ekki þykir kleift að reka fjeð til sláturhúss, þá getur stjórnarráðið veitt undanþágu fyrir eitt ár, að slátra megi á góðum blóðvelli. Vitanlega er með orðunum, að ekki þyki kleift að reka til sláturhúss, átt við, að um sjerstaka örðugleika sje að ræða. Jeg skal taka til dæmis, að það verður að teljast ókleift að reka fje frá Barðaströnd að Króksfjarðarnesi. Þetta ákvæði er til þess, að gera undantekningu, eins og menn sjá, þegar sjerstaklega stendur á. Jeg hefi haft sjerstakar ástæður til að dvelja dálítið við þetta atriði vegna þess, að má ske mætti beita því nokkuð harkalega, með því t. d. að knýja menn til að reka fje til næsta sláturhúss. Standi svo á, að ekki sje neitt hæfilegt hús til, þar sem einn eða fleiri hlutaðeigendur slátri, þá mundi þetta hvetja þá til þess að koma sjer upp sláturhúsi hið allra fyrsta. Enda gat nefndin ekki sjeð, að þessi breyting væri til neinna óþæginda fyrir þá, sem hlut eiga að máli.

Loks er breyting á 10. gr., sem ákveður sektirnar við brotum gegn þessum lögum nokkru hærri en upphaflega var í frv. Nefndinni fanst sú breyting rjettmæt. Hjer er um mjög áríðandi ákvæði að ræða, sem skylt er að fyrirbyggja að verði brotin. Og sektarupphæðin er ekki hærri en sem svarar 5 tunnum af kjöti, eftir núverandi verðlagi.

Eins og jeg nú hefi drepið á, hefir nefndin fallist á allar þessar breytingar og telur, að þær sjeu til bóta á frv.

Loks liggur hjer fyrir ein breyting enn, á þgskj. 515, frá nefndinni. Fer hún fram á, að lögin öðlist gildi þegar í stað.

Þegar þetta frv. fyrst kom fram og var til meðferðar hjá nefndinni, þá var hún þeirrar skoðunar, að til væri nú þegar heimild fyrir því, að lög þessi gætu komið til framkvæmda á næsta hausti, án þess að beint þyrfti að taka það fram í sjálfum lögunum. En síðan hefir hæstv. stjórn komist að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki, heldur þyrfti að skipa svo fyrir með sjerstakri lagagrein, og er því þessi breyting fram komin.