29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Gísli Sveinsson:

Jeg vildi að eins leyfa mjer að gera litla fyrirspurn til hv. nefndar. Það var heppilegt, að nefndin tók þann upp, að bæta við 11. gr. frv. því ákvæði, að lögin öðlist gildi þegar í stað. Því að öðrum kosti hefði orðið að skilja þetta svo, að næsta haust hefði ekkert mat getað farið fram, því að jeg býst ekki við, að stjórnin hefði sjeð sjer fært að fyrirskipa mat, sem ekki væri lögákveðið, nema mjög knýjandi ástæður lægju til. Hins vildi jeg líka geta, að jeg tel það mjög áríðandi, að stjórnin hraði staðfestingu laganna sem mest að hægt er, eða að hún að minsta kosti skipi yfirmatsmenn, svo að þeir geti gert þær ráðstafanir, sem þarf. Því eins og nú er ákveðið, þá verða ekki skipaðir matsmenn nema samkvæmt tillögum þeirra, í samráði við forstöðumenn sláturhúsa o. s. frv. Þessu síðasta ákvæði hefir verið bætt í frv. nú í hv. Ed. Og vildi jeg spyrja út af því, um forstöðumenn sláturhúsa eða fjelaga, hvort þar sje ekki líka átt við allar þær verslanir eða fjelög, sem slátra í húsi, sem samkvæmt áliti yfirmatsmanna er talið hæfilegt. Það stendur hjer að eins: „forstöðumenn sláturhúsa“. Nú er, eins og menn vita, eitt allsherjarsláturfjelag hjer á Suðurlandi, sem svo hefir ýmsar undirdeildir. Út af því vil jeg líka spyrja, hvort það sje meiningin, að lögreglustjóri leiti tillagna forstjóra sláturfjelagsins hjer í Reykjavík, eða hvort nægi sem sje, að hann leiti til deildarstjóranna, hverjir sem þeir eru.

En hinu fyrra má víst slá föstu, nema önnur svör komi fram, er bægi þeim skilningi frá, að hjer með sjeu taldar allar verslanir og einstakir menn, sem láta slátrun fram fara í húsi, sem tekið er gilt af yfirmatsmanni.

En nú er nokkur hængur á fyrir því, og vildi jeg því enn spyrja hv. nefnd, hvað gera á, ef þessa aðilja greinir á um tölu og val kjötmatsmannanna.

Það er einmitt þessi breyting, sem valdið getur talsverðum vandkvæðum, að lögreglustjóri verður nú, eftir ákvæðum frv., að fara eftir áliti margra aðilja um val á matsmönnum.

Vildi jeg vita, hvernig hv. nefnd ætlast til að hann greiði fram úr því, ef þeim aðiljum kemur ekki saman og sitt vill hver, eins og oft getur við borið.