29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Hákon Kristófersson:

Háttv. þm. V-Sk. (G. Sv.) hefir nú þegar tekið fram sumt af því, sem jeg vildi sagt hafa.

En jeg vildi þó beina einni spurningu til hv. nefndar og hæstv. stjórnar.

Mjer skildist, að brtt. á þgskj. 515 væri flutt eftir óskum hæstv. stjórnar og í samráði við hana. En í sambandi við það vildi jeg spyrja, hvort hún teldi það hugsanlegt, að lög þessi verði framkvæmanleg nú þegar í haust.

Í 9. gr. frv. er það ákvæði, að yfirmatsmenn skuli ferðast um umdæmi sitt á hverju hausti, frá 1. sept. til 31. okt. Nú eru yfirmatsmenn þessir ekki enn þá skipaðir, og mundu þeir því ekki komast til sumra hjeraða fyr en seint í október, að þessu sinni. En þá nær þetta ekki tilgangi sínum, þar sem víðast er búið að slátra að mestu leyti um þann tíma.

En eftir þeirri vöndun, sem undanfarin ár hefir verið á þessari vöru, þá virðist það ekki nauðsyn að hraða svo framgangi þessara laga, frekar en annara.

Það ætti að nægja, að þau kæmu til framkvæmda á komandi hausti, einkanlega þegar þess er gætt, að þau geta ekki náð tilgangi sínum í haust.

Jeg skil því ekki, hvers vegna þessi brtt. er fram komin, og sýnist mjer skaðlaust, að hún fjelli.

Frv. sjálft, eins og það nú liggur fyrir, get jeg fallist á, og held jeg, að fyrir næsta haust mætti undirbúa málið svo, að lögin næðu tilgangi sínum út í ystu æsar.

Það var einhver hv. þm. að minnast hjer á fjórðungsmerki, og skal jeg taka það fram, að þau ættu ekki síður við hjer en þegar um ull er að ræða, því að ekki mun síður munur á kjöti en ullargæðum, eftir því hvaðan það er af landinu.