03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg gæti má ske sparað mjer að standa upp við þennan kafla fjárlaganna. Jeg hefi lítið að athuga við álit nefndarinnar. Þó finst mjer, að háttv. nefnd hafi í sumum greinum verið helst til ör.

Jeg ætla að leyfa mjer að minnast á brtt. við B. 1. lið, sem háttv. framsm. (B. J.) talaði um. Það er rjett, að stjórnin hafði þá fjárveitingu í einu lagi. Meining mín var, að hún yrði 18 þús. kr., og er mjer eigi kunnugt um, af hverju hún varð lægri. Stjórnin bjóst við, að það yrði tekið meira af vöxtum Háskólasjóðsins til styrktar fátækum stúdentum en orðið hefir. Er mjer vitanlega, hvergi neitt til fyrirstöðu, að sjóðurinn sje brúkaður í þarfir Háskólans. Á hinn bóginn skal jeg játa, að það hefir mikið til síns máls, að Alþingi veiti rífara fje til Háskólans en stjórnin ætlaðist til. Jeg get þessa eingöngu til skýringar á mismuninum, sem er á frumv. stjórnarinnar og áliti nefndarinnar.

Þá ætla jeg að minnast á viðbótarstyrkinn til byggingar á Bergsstöðum. Geng jeg út frá því, að háttv. nefnd hafi góða og gilda ástæðu fyrir þeirri veitingu og að kostnaðurinn hafi orðið meiri en búist var við, er prestinum var veitt fje til húsabóta. Sömuleiðis hygg jeg, að full ástæða hafi verið til að veita síra Jónmundi Halldórssyni 10 þús. kr. til að byggja hús á staðnum. Það mun vera rjett hjá háttv. framsögumanni (B. J.), að síra Jónmundur kom að jörðinni niðurníddri og föllnum húsum, svo hann varð að byggja. En við þetta er að athuga, að það kemur ekki vel heim við reglurnar um byggingar á prestssetrum. Eru til nákvæmar reglur fyrir því, hvernig fara skuli með styrk til slíkra bygginga. Býst jeg við, að sumir prestar þykist afskiftir. Að vísu munu ekki dæmi til, að prestar hafi komið að svo niðurníddri jörð, en áreiðanlegt er, að svo hár styrkur hefir aldrei áður verið veittur.

Jeg heyrði eigi háttv. frsm. (B. J.) færa fram neinar ástæður fyrir því, að nefndin vill fella burt fjárveitinguna til þess að laga lóð Mentaskólans. Jeg býst við, að ástæðan sje sú, að ekki er sementað kring um hann. En jeg held, að ekki væri hættulegt, þó fje væri veitt til þessa.

Um aðrar tillögur sje jeg ekki ástæðu til að tala. Býst jeg við, að þær sjeu allar á rökum bygðar. Spurningin er að eins, hvort sumar fjárveitingarnar eru ekki fremur sprottnar af viljanum til að gera góðverk, og gerðar í gustukaskyni, en því, að nægilega ríkar ástæður sjeu fyrir hendi til að veita fjeð úr ríkissjóði. Það er sjerstaklega ein, sem jeg vildi minnast á, ekki af því, að jeg sje á móti henni, heldur af því, að það er vafamál, hvort brautin er heppileg. Það er styrkurinn til Pjeturs Guðmundssonar barnakennara. Jeg er sannfærður um, að hjer er gert góðverk, en mjer finst, að það standi næst þeirri sveit, sem hann hefir unnið fyrir, að veita honum laun. Mjer finst vafasamt, hvort það sje rjett að taka af sveitunum skylduna til að veita mönnum styrk, þegar þeir eru ekki lengur færir um að vinna fyrir sjer. Vona jeg þó, í þessu tilfelli, að ummæli mín verði eigi til þess, að honum verði neitað um styrkinn. En jeg vil að eins benda á að hjer er verið að komast inn á hættulega braut. — Reglan á að vera, að ef maður ekki getur lengur unnið fyrir sjer og ekki er í neinum tryggingarsjóði, skuli vinnuveitandi hans sjá fyrir honum. Og í þessu tilfelli er hreppurinn, sem hann hefir unnið fyrir, vinnuveitandi. Skal jeg svo eigi tala frekar um þessa tillögu nefndarinnar.

Þá ætla jeg lítillega að minnast á nokkrar brtt. frá einstökum þingmönnum. Skal jeg þá fyrst minnast á brtt. 615. Hygg jeg, að ekki sje ástæða til að fella burt ákvæðið um listamannastyrkinn. Er ekki víst, að mönnum finnist stjórninni farast það mál betur úr hendi. (S. S.: Hún þorir ekki að taka á sig ábyrgðina). Ábyrgðin er ekki svo mikil.

Þá verð jeg að geta þess um þriðja liðinn á brtt. á þgskj. 615, að ekki getur komið til mála að samþykkja hann, og það þó ekki væri af neinni annari ástæðu en þeirri, að þegar hefir manni, sem tekinn var úr öðru embætti, verið veittur styrkur til að starfa að orðabókinni, og hann væri þess vegna gabbaður, ef hætt yrði nú við verkið. Sami hv. þm. hefir einnig lagt til að fella niður styrkinn til ísl. guðsþjónustu í Khöfn. Þetta er reyndar svo lítill styrkur, að jeg skil ekki, að hv. þm. skuli vera að leggja sig í fram- króka til þess að berjast á móti honum. Málið er þannig vaxið, að einn íslenskur prestur hefir um allmörg undanfarin ár verið að berjast við það, að halda uppi ísl. guðsþjónustu í Khöfn, af litlum efnum, og virðist ekki nema sanngjarnt að sýna því starfi einhverja viðurkenningu.

Þá vil jeg einnig þakka hv. nefnd fyrir það, að tekinn hefir verið upp styrkur til Dansk-Islandsk Samfund. Að minsta kosti allir þeir, sem til Hafnar hafa komið, munu kannast við starfsemi fjelagsins og góðvilja í garð Íslands, auk þess sem alkunnugt er, að það hefir unnið mikið að því að útbreiða þekkingu Dana á Íslandi.

Loks vil jeg, að endingu, bæta hjer við nokkrum orðum um einn lið í till. hv. nefndar. Hún hefir sem sje gert ráð fyrir því, að nokkru af listastyrknum yrði árlega varið til verðlauna afburðalistaverka. En jeg teldi rjettara, að þetta yrði geymt, og efast enda um, að auðvelt yrði að veita þessi verðlaun, svo að gagni kæmi. Listaverkin mundu sjálfsagt verða mörg, en ekki að sama skapi efalaust, hvort þau væru ávalt verðlaunaverð. Hv. frsm. (B. J). gat þess að vísu, að mörg ár mundu sennilega koma svo, að verðlaunin yrðu ekki veitt. En jeg er hræddur um, að svo yrði ekki, ef fjeð væri á annað borð fyrir hendi. Jeg efast líka um, að við sjeum komnir svo langt í þessum efnum, að ástæða sje til þess að fara að veita hjer nokkurskonar grand prix, eins og venja er t. d. í París, þó að jeg vilji með þessu auðvitað ekki varpa skugga á ísl. list, eða leggja stein í götu hennar. Jeg álít samt, að öllu athuguðu, heppilegra að bæta þessari upphæð t. d. við þá fjárveitingu, sem ætluð er til þess að kaupa fyrir listaverk handa landinu, eða þá til þess að láta listamennina keppa um eitthvert ákveðið verk. En hvað sem þessu líður álít jeg, að eins og nefndin ætlast til að þessi upphæð verði notuð, muni hún koma að fremur litlu haldi.

Önnur atriði þykist jeg ekki þurfa að tala um og býst heldur ekki við að taka aftur til máls.