30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg skal ekki tefja hv. deild með langri framsögu um frv. og brtt., því að fyrir flestum brtt. nefndarinnar er gerð grein í nál., og þarf nefndin því litlu við að bæta. Að minsta kosti mun jeg láta hjá líða að bæta miklu við, nema jeg heyri andmæli frá hv. þgdm. eða þeir óski sjerstaklega skýringar á einhverju atriði.

Skal jeg fyrst geta þess, að verði þessar brtt. nefndarinnar samþyktar, valda þær um 70 þús. kr. útgjaldaauka. Aftur hefir nefndin borið fram eina brtt., sem minkar útgjöldin um 30 þús. kr., svo að það er að eins 40 þús. króna útgjaldaauki, sem brtt. nefndarinnar valda, verði þær samþyktar. En þess er að gæta, að þó að þessi brtt. lækki um 30 þús. kr. útgjöld fjáraukalaganna, þá er ekki svo að skilja, að ríkissjóður losist við að greiða þessa upphæð. Það er brúin á Norðurá, sem ekki er hægt að gera á yfirstandandi ári, en nefndin ætlast til að verði tekin upp í fjárlög 1920–21.

Aftur er þess að geta, að þótt brtt. þessar sýnist valda útgjaldaauka, þá er fæst af þessu nýjar upphæðir. Flestar eru bygðar á samþyktum undanfarandi þinga annaðhvort beinar endurveitingar eða eftirábreytingar um verk, sem þingið hefir samþykt að framkvæma t. d. vitarnir, sem ákveðnir voru í fjárlögum 1916–17. Það eru því í raun og veru að eins ca. 10 þús. kr., sem getur talist nýtt.

Skal jeg þá snúa mjer að þeim brtt. nefndarinnar, sem þörf er að tala frekar um. Er þá fyrst 3. brtt., af því að þar er verið að gera það, sem er alveg nýtt, að veita fje til að kaupa malarflutningabifreið. Vegamálastjóri hefir skýrt frá því, að hann hafi lengi langað til að reyna önnur flutningatæki til að flytja slitlag (ofaníburð) en tvíhjóla kerrur. Vill hann sjerstaklega reyna það nú, þegar alt er dýrara en áður, hestleiga t. d. fimmfaldast og kaup verkamanna þrefaldast. Víða hagar þannig til, að erfitt er að ná í slitlag, nema með löngu millibili, og þarf að flytja langar leiðir. Það eru ekki tilgreind dæmi í nál., en vegamálastjóri hefir nefnt sem dæmi kafla á Flóaveginum, þar sem flytja þarf slitlag 18 km. leið. Upphaflega var talað um, að landssjóður gæti, án þess að kaupa bifreið, fengið lánaða bifreið til reynslu frá umboðsmönnum „Overland“ eða „Ford“. en þegar til kom, var það ekki hægt. Önnur verksmiðjan flutti þá ekkert hingað, en hin var við búin að selja, er til hennar var komið. Var því annaðhvort að hrökkva eða stökkva, kaupa þetta flutningatæki eða ekkert yrði úr tilrauninni. Jeg skal líka geta þess viðvíkjandi þessu flutningatæki, að á því er sjerstakur útbúnaður, svo að vjelin sjálf hvolfi úr vagninum. Vegamálastjóri átti líka tal við vegamálastjórnina í New-York, og höfðu þessi tæki reynst þar vel. Nefndinni finst, að athuguðum öllum málavöxtum, sjálfsagt að gera þessa tilraun, ekki síst þar sem nú eru þeir tímar, að það er um að gera að finna önnur tæki eða öfl, til þess að spara hið dýra og torfengna mannsafl. Enn fremur gerir vegamálastjóri ráð fyrir því, að hvort sem nú verði ráðist í miklar nýjar vegagerðir eða ekki þá sje fyrir því sjeð, að þetta flutningatæki hafi nóg að gera, svo sem að flytja olíu til skurðgröfunnar í Skeiðaáveitunni, brúarefni og yfirleitt allskonar flutninga. Býst jeg því við, að hv. deild taki þessari brtt. tveim höndum og telji þetta hinn mesta búhnykk, ef svo fer, sem ráð er fyrir gert. Er sjálfsagt ef þetta reynist vel og sparar bæði vinnukraft og fje, að þetta verði fyrsta áhaldið, en ekki síðasta, af slíku tægi.

Þá skal jeg minnast á athugasemdina við 6. lið, um Hvanneyrarskólann. Eins og háttv. þingdm. hafa sjeð, er í fjáraukalagafrv. stjórnarinnar till. um 60 þús. kr. fjárveitingu til þess að byggja nýtt íbúðarhús á Hvanneyri, í stað þess er brann. Nú lágu fyrir nefndinni ýms skjöl viðvíkjandi kostnaðinum og áætlun um hann og auk þess átti nefndin tal við skólastjórann. Eftir þessari áætlun að dæma er kostnaðurinn við fyrirhugaða byggingu rúm 185 þús. kr. Auk þess er þar svo gert ráð fyrir rafstöð, og bætast þá við 17 þús. kr. Verður þá alt saman rúm 200 þús. kr. Nú þótti nefndinni það ekki koma nógu glögt fram í frv. stjórnarinnar, hvort tilætlun hennar hefði verið sú, að 60 þús. kr. væri nóg til íbúðarhússins. Og er þessar upphæðir voru svo sundurleitar, sá nefndin sjer ekki fært að afgreiða málið frá sjer, en afgreiddi það til stjórnarinnar aftur, til þess að fá frá henni upplýsingar og rökstuddar tillögur um málið. Þess vegna lætur nefndin upphæðina standa í frv., en þar með er ekki sagt af nefndinni, hvort hún gerir frekari athugasemdir eða tillögur til næstu umr. Jeg geri annars ráð fyrir, að stjórnin gefi einhverjar skýringar nú, því mjög langt er síðan þetta fór til stjórnarinnar frá fjárveitinganefndinni.

Jeg vil að eins geta þess um brtt. 7 b, að til þess er ekki ætlast, þótt í brtt. standi 750 kr. til skólans á Núpi í Dýrafirði, að það sje ný fjárveiting, heldur ætlast nefndin til, að skólinn fái fullan ársstyrk þann, sem í fjárlögunum stendur, þótt hann hafi ekki getað starfað nema síðari hluta vetrar. Nefndinni þótti rjettara að setja þetta þarna í tölum en að taka það að eins fram í athugasemdum sínum, enda þótt það hafi oft við gengist og stjórnin látið sjer það nægja.

Þá skal jeg geta einnar brtt., sem ekki er gerð grein fyrir í nál., en það er styrkaukinn til Stefáns Eiríkssonar trjeskera. Hann sendi þinginu erindi, þar sem hann fór fram á aukinn styrk þann, sem honum er veittur til kenslu í trjeskurði. Eins og kunnugt er, hefir hann haft 1000 kr. árlega í mörg ár. Geta allir skilið, að kostnaður við kenslu þessa hafi mjög vaxið í dýrtíðinni, bæði til ljósa, hita og húsnæðis, svo að eðlilegt sje, að hann fari fram á uppbót. Nefndin verður að telja manninn alls góðs maklegan, og leggur til, að honum sje veitt 500 króna viðbót, og verður það að teljast sanngjörn og hógvær krafa. Hann hefir kent 24 eða 25 mönnum trjeskurð síðustu árin, og hlýtur það að valda allmiklum tilkostnaði fyrir hann í þeim greinum er jeg nefndi.

Jeg ætla nú ekki að svo komnu að fara fleiri orðum um brtt. nefndarinnar, en vil taka það fram, að svo framarlega sem einhverjum háttv. þingdm. nægja ekki skýringar mínar á einstökum atriðum, þá vona jeg, að þeir láti til sín heyra. Jeg skal geta þess, að það voru fleiri erindi, sem lágu fyrir nefndinni, þar á meðal eitt, sem hún hefir leyft sjer að vísa til stjórnarinnar. Gerði hún ráð fyrir brtt. frá stjórninni um það atriði og hefir þess vegna ekki gert hana. Það er uppbót á samningsvinnu við skurðgröft í Miklavatnsmýri. Jeg get þess þeim þingmönnum til athugunar, sem áhuga hafa á því máli, svo að þeir viti, að nefndin hefir athugað það, en stjórnin lofað framkvæmdunum.

Þá skal jeg með nokkrum orðum minnast strax á brtt. frá ýmsum háttv. þm., þótt þeir hafi ekki gert grein fyrir þeim.

Er þá fyrst brtt. á þgskj. 200, frá háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), sem fer fram á 12,000 kr. til sjúkrahússbyggingar á Hvammstanga. Nefndin vill mæla með þessari brtt., það er að segja ef þessar 12,000 kr. eru allur styrkurinn, sem veittur verður til þessa. Samkvæmt venju hefir styrkurinn verið miðaður við íbúatölu, þannig, að styrkurinn sje ekki hærri en 3000 kr. á hverja 1000 íbúa. Nú eru hjeraðsbúar að eins 2000, og gætu því ekki samkvæmt fjárlögunum fengið nema 6000 kr. En nefndin telur rjett að veita nú 6000 kr. viðbótarstyrk, þar sem þetta hús er svo dýrt, og auk þess hafa þeir bygt læknisbústað í sambandi við sjúkrahúsið.

Þá er brtt. á þgskj. 208, frá háttv. þm. Borgf. (P. O.). Nefndin telur hana í samræmi við 1. brtt. sína og er henni því meðmælt.

Um brtt. á þgskj. 209 er það að segja, að óskum um fjárveitingar til samgangna á sjó hefir nefndin altaf vísað til háttv. samgöngumálanefndar. Hefir svo samgöngumálanefndin gert sínar till. og borið þær síðan undir fjárveitinganefndina. Nú hefir að eins fyrri brtt. á þgskj. 209 verið borin undir nefndina, en ekki hin síðari. Get jeg því ekki sagt um afstöðu nefndarinnar til hennar, en hún er hinni fyrri meðmælt.

Þá er brtt. um styrk til læknisvitjunar handa Grímseyingum, frá háttv. þm. Eyf. (St. St. og E. Árna.). Nefndin getur fallist á, að þessi málaleitun Grímseyinga sje sanngjörn, miðuð við aðrar sveitir. En henni þykir tillaga háttv. þm. of há, sjerstaklega borið saman við kostnað þann, sem erindi það er fyrir nefndinni lá, bar með sjer að þeir hefðu haft.

Hallast nefndin að því, að veittar sjeu 300 kr. hvort ár eða 600 kr. á fjárhagstímabilinu. Vona jeg, að háttv. þm. uni við þessa brtt. nefndarinnar sem hún hefir flutt á þgskj. 210.

Brtt. á þgskj. 207 kemur nefndinni alveg að óvörum. Er hún alls ekki búin að athuga þetta mál, vegna þess, að ekkert plagg eða nokkuð þess háttar hefir komið fram um þetta eða verið lagt fyrir nefndina. Nefndin furðar sig á, að þetta skuli vera komið fram. Ekkert hefir heldur komið frá stjórninni.

Skal jeg að svo komnu ekki tefja hv. deild með frekari málalengingum. Jeg vil að eins skjóta því til hæstv. stjórnar viðvíkjandi einni athugasemd hennar, er ekki kemur brtt. við, og er um borgun til yfirfiskimatsmannsins, að nefndin árjettar enn það, sem í nál. stendur, að þessa upphæð beri að innheimta aftur hjá fiskikaupmönnunum. Jeg vildi að eins taka þetta fram til frekari árjettingar, svo að stjórnin geri nauðsynlegar ráðstafanir í því efni.