30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M ):

Jeg vil taka það fram, að jeg skildi háttv. frsm. (M. P.) þannig, að hálfan styrk, eða 750 kr., ætti ungmennaskólinn á Núpi að fá þetta ár, þó að hann væri ekki starfræktur í vetur. Mjer finst þetta líka sanngjarnt og rjett, en vildi að það kæmi skýrt fram í frv.

Annað atriði vildi jeg minnast á út af 13. gr. Yfirfiskimatsmaðurinn í Reykjavík talaði um það við mig á sínum tíma, að hann vildi fá borgun hjá fiskkaupmönnum fyrir aukið starf, vegna mats á óverkuðum fiski er kaupmenn eða útgerðarmenn kaupa. Tók jeg það þá fram við hann, að jeg teldi ekki rjett að yfirfiskimatsmaður tæki nokkra borgun hjá útgerðarmönnum, því að hann eigi að vera alveg óháður þeim, er fiskinn flytja út, auk þess sem slíkt gæti orðið til að draga úr því trausti sem nauðsynlegt er að hann njóti, sjerstaklega erlendis. Sagðist jeg eindregið vilja vara hann við því að taka nokkra slíka aukaborgun heldur snúa sjer þá til stjórnarinnar, og mundi hún þá leggja það til við þingið, að honum verði veitt uppbót. eins og jeg tel sjálfsagt, því það er víst ómælt, hvað landið hefir grætt bæði beinlínis og óbeinlínis á þessum manni.