03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Mjer heyrðist hv. frsm. fjárveitinganefndar (B. J.) skýra frá því í upphafi ræðu sinnar, að útgjaldaaukinn, sem nefndin gerði ráð fyrir á þessum köflum, væri 666 þús. kr. Þetta væri góð og mikilsverð upplýsing, ef þá væru öll kurlin til grafar komin; en svo mun ekki vera. Hjer er ekkert tillit tekið til þeirra auknu embættislauna, sem nú eru á döfinni, og geri jeg ráð fyrir, að tvöfalda megi margar upphæðirnar í 14. gr. fjárlaganna, áður en lýkur. Þess vegna er þessi mynd fjárlaganna, sem hv. frsm. lýsti, í raun og veru að ein spjemynd.

Jeg hefi nú samt sem áður hvorki komið með breytingartill., sem auka eða minka tekjur eða gjöld; veit sem er, að torvelt er hjer um að þoka nokkru. En jeg hefi leyft mjer að flytja nokkrar brtt., sem þoka svolítið til ýmsum liðum, þar sem mjer finst nefndin hafa horft sjer nokkuð nærri.

Fyrst vil jeg leyfa mjer að geta brtt. við 14. gr. á þgskj. 618, um unglingaskólana. Fjárveitinganefnd hefir fært upphæðina til þeirra úr 15 upp í 25 þús. kr., án þess þó, að með þessu sje öllu betur sjeð fyrir unglingaskólunum flestum en gert var eftir stjórnarfrv., því að þessari 10 þús. kr. hækkun er skift milli örfárra skóla þannig, að 6 þeirra eiga að fá 16,500 kr., en allir hinir til samans eiga að lifa á því, sem þá er eftir — eða 8,500 kr. Mín till. fer því fram á það, að lækka styrkinn nokkuð til þessara nefndu forgangsrjettarskóla nefndarinnar, en jafna að öðru leyti fjenu á skólana. Ýmsir unglingaskólar, sem nefndin nefnir ekki, eiga við þröngan kost að búa, og eru engu síðri skólar en þeir, sem hún tiltekur. Skólarnir á Núpi, Hvammstanga og Hvítárbakka hafa ekki þá yfirburði yfir aðra unglingaskóla, að þeir verðskuldi þrefaldan eða fjórfaldan styrk á við samskonar skóla í öðrum hjeruðum, sem þó eru sumstaðar alt eins fjölmennir. Má vera, að hjer fari sem fyr, að hjeraðametingur ráði og nefndin hafi sitt fram. Hún er fjölmenn í deildinni og á óeðlilega mörg ítök. En fari svo, að brtt. mín um þessa tilfærslu frá Núpsskóla, Hvammstanga- og Hvítárbakkaskóla verði feldar, þá mun jeg greiða atkv. með stjórnarfrv. og móti allri hækkun nefndarinnar á þessum lið.

Önnur brtt., sem jeg hefi leyft mjer að flytja, er við 15. gr. Fjárveitinganefnd hefir lagt til að hækka styrk Bókmentafjelagsins úr 2000 kr. upp í 3500 kr., og tel jeg ekkert að því. En jeg legg til, að þessi styrkauki sje þeim skilyrðum bundinn, að honum verði varið til þess að flýta útgáfu Íslandslýsingar próf. Þorst. Thoroddsens. Það er bók, sem mörgum manni, ekki síst uppi um sveitir, er ant um og kærkomið að fá. Höfundurinn er nú við aldur og hefir unnið að þessu ágæta riti mikinn hluta æfinnar. Honum er mikið áhugamál, að ritið komi sem fyrst út og áður en hann flytur yfir landamæri ókunna landsins, enda á bókin brýnt erindi til alþýðu manna. Jeg hef átt kost á að sjá handritið og býst við, að mörgum mundi þykja girnilegt til fróðleiks að fá nokkuð yfirlit yfir efni kaflanna í því, sem óprentað er. Jeg skal því geta um nokkra liði í því efnisyfirliti. Þar er t. d. kafli um hesta, hestarækt og notkun hesta á ýmsum tímum, og annar um önnur alidýr. Fjölþættur kafli er þar um garðyrkju. Þá er rækilega skýrt frá akuryrkju fyr og nú og kornræktartilraunum að fornu og nýju. (B. J.: Er það nokkuð nákvæmara en það, sem Olsen skrifaði?) Þar er skýrt frá byggnotkun, byggbrauði, malti, mungát, öli og bjór, melkorni, hör og hampi. Þá er kafli um grasnytjar, svo sem fjallagrös, hvannir, söl og þara. Þá er enn einn kafli um landbúnaðarvinnu, yfirlit yfir sveitavinnu á ýmsum árstímum, um verkamenn og lausafólk á ýmsum öldum og loks um tilraunir til búnaðarframfara á 19. og 20. öld. Jeg vona nú, að af þessu örstutta yfirliti geti menn sjeð, hver fengur íslenskri búnaðarsögu er að þessu riti, og sjeu því fúsir að stuðla að útkomu þess.

Þá vil jeg víkja að fáum brtt. annara. Till. hefir komið fram um það, að fella niður 33. liðinn í 15. gr., eða 1000 kr. styrk til Bræðrasjóðs. Hann komst inn fyrir slysni 1917, og vil jeg veita mitt lið til þess að koma honum á braut.

Frá hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir komið till. um það að veita ostagerðarmanni einum utanfararstyrk. 3000 kr. Hv. þm. sagði reyndar, að hann væri eini maður hjerlendis, sem þessa íþrótt kynni, og væri fullnuma í henni, en þyrfti utan til þess að fá sjer nýjan þrótt og loft í lungun. Nú getur sá, sem er fullnuma í einhverri list, aldrei orðið meira, og er því ekki hjer að ræða um frekara nám, enda sagði hv. þm. (S. S.), að gráðaostur þessa manns væri ágætur. (S. S.: Svo lengi lærir, sem lifir.) En ef það er að eins til þess að fá loft í lungun, sem maðurinn ætlar utan, þá held jeg langt um hyggilegra að senda hann norður á Kjalveg eða Kaldadal, jafnvel þótt landssjóður þyrfti að kosta reiðskjótann. Loftið þar nyrðra er vissulega heilsusamlegt hverjum þeim, sem lengi hefir fengist við gráðaostagerð. (S. S.: Svona hjelt jeg ekki að Sveinn í Firði væri; það veit sá, sem alt veit!) En nú skal jeg bæta hv. 1. þm. Árn. (S. S.) vonbrigðin um þetta, með því að láta hann vita, að jeg styð brtt. hans við 15. gr. fjárl. (B. J.: Er það Gvendur Faust? (S. S.: O — hann er nú ekki alveg dauður, heldur sefur hann.) Já, ef jeg kæmist að fyrir hnippingum þessara hv. þingmanna, þá ætlaði jeg að lýsa því yfir, að jeg tel sjálfsagt að greiða atkvæði með till. hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um afnám þessa óþarfa bitlings í 15. gr., 19. lið, fyrir þýðinguna á Faust. (S. S.: Já, nú þekki jeg Svein minn aftur. B. J.: Sækjast sjer um líkir — saman níðingar skríða.)

En fyrst hv. þm. Dala. (B. J. er altaf að grípa fram í, er best að jeg kvitti fyrir með nokkrum orðum. Honum virðist hafa orðið nokkuð bumbult af breytingartillögum hv. 1. þm. Árn. (S. S.), og má marka það af ókyrð hans og harmatölum um lítinn skáldastyrk og listamanna. Sjálfur ríður hann þessari Faustþýðingu sinni þing eftir þing, en lætur vanþakkir dynja á þingmönnunum fyrir fastheldni þeirra á fje við skáldin.

Nú er það kunnugt, hvert afhroð vjer höfum beðið á skáldum undanfarið. Ekki færri en þrjú þeirra hafa horfið af sjónarsviði lífsins á síðustu mánuðum og þarfnast þeir eigi lengur skáldastyrks. En hv. þm. Dala. (B. J.) hefir í mín eyru talað þau orð að skáld þessi hafi sennilega dáið af styrk þeim, sem Alþingi hefir veitt þeim, og fer þá að orka tvímælis um velgerning þann, að veita fjeð. En hvernig sem þessu kann að vera farið, þá vil jeg ekki eiga það á hættu, að styrkurinn til Faustþýðingarinnar verði banabiti hv. þm. Dala. (B. J.), ef eitthvað skyldi hæft vera í tilgátu hans um banvæni skáldastyrksins. Vjer megum vissulega ekki við að missa þennan hv. þm. svo voveiflega. (B. J.: Þing-Sveinn hefir lengi höfðingi verið).