03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Matthías Ólafsson:

Út af brtt. á þgskj. 612 og 618 vildi jeg segja nokkur orð.

Það er vorkunn, þótt hv. þm. Borgf. (P. O.) sárni það, að Hvítárbakkaskólinn hefir ekki verið settur með sama styrk og Núpsskólinn. Ef jeg hefði mátt ráða, hefði þeim báðum verið ætluð sama upphæð, en hv. nefnd sýndist annað. Var það sjerstaklega af þeim ástæðum, að forstöðumaður Núpsskólans er talinn mjög merkur maður; hann eigi skólahúsið, og hafi komið því upp ásamt góðri gróðrarstöð. En jeg vil gera þá jafna og færi þar til þá ástæðu að Hvítárbakkaskólinn er eldri og stærri og vinnur með því upp það sem hinn þykir fullkomnari, það sem hann nær. Jeg hefi óbundið atkvæði í nefndinni og mun greiða atkv. með aðaltill. hv. þm. Borgf.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði um, að allir unglingaskólar væru þess maklegir, að fá styrk, og jafnmaklegir og þessi. Hann talaði líka um hve mikið fje búið væri að taka handa þessum skóla, en hve lítið hinir hefðu fengið. En þetta eru nokkrir skólar, sem hvergi eru nefndir, og erfitt er að segja hvernig eru, því að þeir gefa enga skýrslu. Það eru unglingaskólar sem starfa part úr vetri, og skýrsla um starfsemi þeirra kemur aldrei opinberlega fram.

En hvað snertir þann skóla, sem er þyrnir í augum hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þá hefir hann alstaðar getið sjer gott orð. Nemendur hans eru taldir mjög vel að sjer. er þeir koma þaðan, og líklegir til framhaldsnáms, vel mannaðir og siðprúðir menn, hvar sem þeir koma fram. (Sv. Ó.: Hreppapólitík!) Ef hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fylgir ekki fram meiri hreppapólitík en jeg, getur hann haft glaða samvisku. Togi hann ekki sinn skækil meira en jeg hjer á þingi, getur hann verið rólegur. En hans vegna sjálfs vil jeg ráða honum til að bregða mjer ekki saklausum, um hreppapólitík, því að ella kynni samviskan að stinga hann í næsta skammdegi, og þá líður honum ekki vel. En að öðru leyti vil jeg ráða honum, jafngömlum manni, til að leyfa mönnum að tala í friði, án þess að gjamma fram í. Hann er of gamall maður til þess að kunna ekki mannasiði.

Jeg verð að taka það fram um Núpsskólann að fái hann ekki þennan styrk eru allar líkur til þess, að hann geti ekki starfað næsta vetur. Hann gat ekki starfað í fyrravetur. Fór þá frá honum kennari vegna þess að honum buðust góð kjör annarsstaðar. Er mjer kunnugt um að sá maður er mjög nauðsynlegur skólanum. Enn fremur veit jeg, að hv. þm. Borgf. (P. O) er kunnugt um, að hann er afbragðskennari. Því að honum voru einmitt í hans kjördæmi boðin mjög góð kjör. En forstöðumanni skólans virðist skólinn einmitt ekki geta komist af án hans. Hann var lífið og sálin í skólanum. Auk þess hefir alt vaxið í verði og hins vegar hugsar forstöðumaðurinn sjer, að alt verði fullkomnara en áður, einkum aðbúð öll og aðhlynning nemenda. Forstöðumaðurinn hefir því sjálfur farið fram á þessa fjárhæð. Enn fremur hefir fjárveitinganefnd borist umsögn úr öllu kjördæmi mínu. Óska þeir alstaðar sjerstaklega, að styrkur verði veittur til þess arna. Þeim er þessi stofnun sjerstaklega kær og myndi þykja það mjög leitt, ef þessari fjárbeiðni yrði ekki fullnægt. Og ef menn athuga vel, sjá þeir að það er t. d. ekki veitt fje til einnar einustu brúar í kjördæmi mínu og hv. sessunauts míns, þm. N.-Ísf. (S. St.), ekkert fje til vega. Yfirleitt ekkert nema 200 kr. til læknisvitjunar og 1000 kr. til styrktarsjóðs sjúklinga. Er þá upp talið alt, sem mitt kjördæmi fær. En þetta er ekki svo að skilja, að við sjeum öfundsjúkir. Nei! Það stendur svo á, að við erum svo hepnir, að þurfa þessa ekki, og unnum öðrum þess vel að fá fje til vega, brúa og annars. Og jeg tel mig alls ekki þrælbundinn við mitt kjördæmi, heldur verð jeg að líta á mig sem fulltrúa alls landsins, eftir því sem jeg hefi vit og krafta til. Tel jeg mig því eiga að líta eftir þörfum annara líka, jafnframt því, sem jeg vinn það, sem kjósendur mínir fela mjer, eftir bestu samvisku og sannfæringu.