05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það eru að eins örfá orð út af brtt. á þgskj. 207. Það var ekki að eins úr Árnessýslu, sem farið var fram á slíka uppbót, sem hjer um ræðir, heldur líka úr Borgarfirði og víðar að. Þessar málaleitanir voru studdar með heimild þingsins til að veita slíka uppbót. Mín afstaða til málsins var sú, að jeg sagðist ekki taka neina ákvörðun í hverju einstöku tilfelli fyrir sig, fyr en allar málaleitanirnar væru fram komnar.

En hvort sem þetta eru formleg endalok málsins, eða stjórnin getur enn tekið málið fyrir, þá eru nú líkindi fyrir því, að slíkum málaleitunum fjölgi ekki hjer eftir, þótt það sje að vísu ekki óhugsandi, eins og hv. frsm. (M. P.) tók fram, að fleiri veki máls á þessu, ef þessari beiðni væri sint.

Jeg skal kannast við það, að jeg hefi tekið vel í málið, en dregið það á langinn, þar til nú, að hv. fjárveitinganefnd hefir kveðið upp þann dóm, að slík uppbót sem þessi muni ekki verða veitt, og mun við það verða að sitja. En hvort hv. nefnd hefði ekki kunnað að veita eitthvað á þessum eina stað, skal jeg ekki um segja, hefði ekki verið um svona mikið að ræða.