05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki miklu að svara fyrir nefndarinnar hönd, því að enginn hefir haft neitt til brunns að bera, sem mótmæli geti kallast.

Þær athugasemdir, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) kom fram með voru, eftir sjálfs hans sögn, ekki sprotnar af því að hann væri mótfallinn till. nefndarinnar, heldur að eins af því, að hann fann hjá sjer þörf til þess að tala um þessa liði.

Viðvíkjandi 1. brtt. á þgskj. 245 skal jeg geta þess um samninga þá, sem háttv. þm. (S. S.) mintist á, að fjárveitinganefndinni er næsta lítið um þá kunnugt. Það er ekki hennar hlutverk að gera slíka samninga, heldur er það hlutverk hæstv. stjórnar, enda mun hún hafa öll tök á því að leysa þá best af hendi.

En mjer er kunnugt um, að háttv. sjávarútvegsnefnd var falið af hæstv. stjórn að tilnefna fróða menn til þessa, og hún svarar fyrir sig, ef hún tekur til sín orð háttv. þm. (S. S.). Sömuleiðis mun hæstv. stjórn svara fyrir sínar gerðir í þessu máli.

Þá vildi jeg svara þeirri spurningu háttv. sama þm. (S. S.), hvort menn þeir, sem lofað höfðu fje til hússins yfir listaverkasafn Einars Jónssonar, hefðu nokkurn tíma greitt það fje.

Sú spurning er reyndar naumast svaraverð. Og mig furðar á því, að háttv. þm. (S. S.), sem setið hefir á þingi í mörg ár, skuli spyrja þessarar spurningar á hverju einasta þingi. Honum ætti þó að vera kunnugt um það, að á fjárlagaþinginu 1917 var rætt um, hvort endurgreiða skyldi þessum mönnum fje þetta eða ekki, og var samþykt þá að endurgreiða fjeð ekki. En auðvitað var ekki hægt að tala um neina endurgreiðslu hefði fjeð ekki verið borgað. Það er líka flestum kunnugt um það, að þetta var fyrsta fjeð, sem lagt var til húsgerðarinnar.

Því, sem háttv. þm. (S. S.) sagði um brimbrjótinn í Bolungavík, ætla jeg að vísa til háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þar sem hann er því máli kunnugri en jeg.

Jeg þarf ekki að svara sjerstaklega orðum hans um undirtektir okkar nefndarmanna undir brtt. hans., þar sem hann virtist fella sig heldur vel við þær. ( S. S.: Jeg bjóst aldrei við góðu).

En viðvíkjandi þeirri fyrirspurn, sem skotið var fram um þingmannasíldina, skal jeg geta þess, að sjálfsagt hefir engum komið til hugar að flytja slíka beiðni sem þessa úr þeirri átt, því að þeir, sem þingmannasíld keyptu, munu hafa sætt betri kjörum og gert betri kaup.

Eftir því, sem einn háttv. þm. hefir sagt mjer, kostaði landssjóðssíldin sumstaðar, komin á land, 27–29 kr. tunnan, og þá vil jeg spyrja háttv. 1. þm. Árn. (S. S.): Getur hann boðið betur?

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) sagði að hæstv. stjórn mundi ef til vill geta gert einhverja málamiðlun í þessum sökum, þar sem engin líkindi væru til, að þessum málaleitunum mundi fjölga hjeðan af. En það tel jeg mjög vafasamt.

Mjer þætti það ekki ósennilegt, ef hæstv. stjórn gæfi nú þær yfirlýsingar, að slík uppbót yrði veitt og samþ. af háttv. deild, að þá yrði mannkvæmt hjá henni næstu daga af þeim, er flyttu slíkar beiðnir.