05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Bjarni Jónsson:

Jeg skal reyna að fara öfugt við það, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) gerir. Hann finnur alt að öllum, en jeg ætla mjer að hrósa honum.

Hann virðist fylgja þeirri fornu reglu, að halda áfram að prjedika, bæði í tíma og ótíma, því að síðan fyrst var minst á það hjer, að koma upp húsi yfir listaverk Einars Jónssonar, hefir hann á hverju þingi minst á áætlun, sem jeg gerði um kostnað við að koma upp bárujárnskofa yfir listaverkin. Jeg áætlaði þá, að það mundi kosta nálægt 600 kr., og þykist jeg viss um, að sú áætlun hafi verið rjett.

En jeg skal játa, að það var smátt hugsað af mjer og skammarlegt að gera öðrum eins áhugamanni um mentamál, listir og vísindi, eins og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), er þær getsakir, að hann teldi það sama að geyma þessi listaverk í bárujárnskofa.

En hitt þykir mjer undarlegt, hve sáran hann kvartar nú undan því, hve dýrt er orðið húsið.

En þær kvartanir eru ekkert annað en eintal sálarinnar hjá honum, þar sem það er fyrir hans eigin till. og annara stórhugaðra manna, að byrjað var á þessu verki.

Frá mjer voru þær till. að minsta kosti ekki. Hann sýnir því að eins vanþakklæti við sjálfan sig með þessum kvörtunum sínum.