05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Matthías Ólafsson:

Út af orðum háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), um bátana til landhelgisgæslu, vildi jeg segja örfá orð, af því að jeg var við það mál riðinn.

Jeg var beðinn að fara til manna, til að vita, hvort bátar væru fáanlegir, og það er satt, að lægri tilboð komu en þau, sem tekin voru. En það var auðvitað alveg rjett að binda sig ekki við að taka lægsta tilboðinu: á því gátu verið ýmsir annmarkar, bátarnir ljelegir o. s. frv. Það gat því verið og var rjett að taka hærri tilboðunum.

Jeg vísaði öllum þeim sem með tilboð komu, til hæstv. stjórnar, en sagði þeim strax að hún skuldbyndi sig ekki til að taka tilboðum þeirra að svo stöddu.

En eitt af þeim skilyrðum, sem sjávarútvegsnefndin og Fiskifjelagið settu var það að fengnir yrðu sæmilegir menn til að rannsaka tilboðin, og var þá ekki völ betri manns en skólastjóra sjómannaskólans.

Það er að vísu rjett, að báturinn stóð í nokkru sambandi við útflutningsnefndina, því einn maður úr henni átti hlut í honum. En jeg get upplýst það, af því að mjer er það persónulega kunnugt, að hann kom alls ekki nærri því, að þessi bátur var valinn. Það, sem rjeð miklu um, að þessi bátur var valinn, en ekki aðrir, sem að vísu höfðu gert lægri tilboð, var það, að þegar var hægt að útvega ábyggilegan mann til þess að vera skipstjóri á honum, mann, sem var fullkomlega hægt að treysta, og sjá allir, að ekki var svo lítið undir því komið. Viðvíkjandi því sem sagt hefir verið um útboðið, er það að vísu rjett að tilboð kom, sem var lægra en það sem tekið var. Var hægt að fá bát fyrir 8,000 kr., en sá, sem tekinn var, kostaði 10,000 kr. En það vita líka allir menn, sem vit hafa á viðskiftum, að ekki er altaf rjett að taka það tilboðið, sem lægst er heldur verður að líta á, hvernig menn búast við að verkið verði af höndum leyst. Þessi bátur var sá besti, sem völ var á, og var því ekki nema sjálfsagt að taka hann.