01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að tefja háttv. deild lengi. Fjárveitinganefnd hefir komið sjer saman um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og háttv. Ed. hefir gengið frá því. Gjöldin hafa aukist í háttv. Ed. um ca. 54 þús. Samt er engin sú breyting, sem hv. Ed. hefir gert á frv., þannig, að nefndin vilji hennar vegna leggja til, að gerðar sjeu brtt. við það. Við viljum ekki skapa ágreining milli deilda um smávægileg atriði, því að lítill spámaður væri í því, að þvæla málið svo á milli deilda, að aukning þingkostnaðarins næmi meiru en upphæðirnar, sem þráttað væri um.

Viðvíkjandi þeim 2 brtt., sem fram hafa komið, skal jeg taka það fram, að nefndin leggur á móti þeim. Það segir sig sjálft, því hún vill samþ. frv. óbreytt.

Viðvíkjandi utanfararstyrk til Sigfúsar Einarssonar mætti virðast, sem nefndin hefði ekki viljað fallast á hann, vegna þess, að hún tók það ekki upp þegar hún hafði málið til meðferðar. En nefndin athugaði þetta atriði, og það var ekki af því, að hún væri á móti því í sjálfu sjer, að hún mælti ekki fram með því þá, heldur vegna þess, að hún ætlaðist til, að málið biði til fjárlaganna. En háttv. Ed. hefir viljað hraða því meir, og væri þýðingarlaust að gera það að ágreiningi, þegar upphæðin yrði hvort sem er tekin upp í fjárlögin nú.

Þá er brtt. á þgskj. 427, um uppbót á aukatekjum dýralækna. Nefndin hefir ekki getað fallist á hana, enda væri það að hlaupa í kapp við háttv. Ed., því að samskonar till. hefir verið feld þar.

Jeg skal geta þess, að það, sem fyrst og fremst mælir á móti brtt. háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.). er að eigi er unt fyrir landsstjórnina að ákveða dýralæknunum dýrtíðaruppbót á aukatekjum þeirra, þar sem þeir hafa engan lögákveðinn taxta til að fara eftir.