01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Hv. þm. Borgf. (P. O.) færði það sem ástæðu fyrir till. sinni, að styrkþegi sá, sem hjer ræðir um, sje orðinn of gamall til þess að geta haft not af styrknum. Þetta finst mjer undarleg röksemdaleiðsla. Eftir því ætti ekki að veita t. d. háskólakennurum neinn styrk til utanfarar, til þess að framast í greinum sínum, ef þeir væru komnir á fimtugsaldur. Þó er það talið sjálfsagt bæði hjer og annarstaðar, að þeir fari slíkar ferðir, og jafnsjálfsagt að þeir geti haft gagn af ferðunum, þótt rosknir sjeu orðnir. Sama er að segja um lækna. Ættu þeir þó eftir kenningu háttv. þm. (P. O.) að vera orðnir fullnuma í list sinni þegar þeir hefðu lokið embættisprófi. En sannleikurinn er sá, og við það veit jeg að hv. þm. (P. O.) muni kannast, að á hverju sviði sem er geta menn sí og æ bætt við mentun sína og þekkingu; þeir verða aldrei fullnuma.

Háttv. þm. (P. O.) gerði ráð fyrir, að maður þessi ætlaði sjer að fá styrkinn til að lyfta sjer upp fyrir hann. Þetta er út í bláinn sagt af háttv. þm. (P. O.), því að í umsókninni um styrkinn er gerð grein fyrir, til hvers honum skuli varið. Kveðst umsækjandi æfla að verja styrknum til að kynna sjer kirkjusöng í Þýskalandi, afla sjer frekari þekkingar í orgelspili, og til þess að búa sig undir að gefa út íslensk úrvalslög.

Það er satt og rjett, að hvorki jeg nje háttv. þm. (P. O.) munum hafa vit á að dæma um hæfileika mannsins. En þar hefir nefndin farið eftir meðmælum þeirra, er skyn bera á. Umsókninni fylgja meðmæli frá söngfræðingi Páli Ísólfssyni, sem kendi umsækjanda um þriggja mánaða tíma. Segir hann umsækjanda hafa sjerstaka gáfu á sínum sviðum, sem ekki hæfi að leggja á hilluna eða geyma á kistubotni. Þá er og þess að gæta, að maður þessi á að kenna orgelspil hjer á landi og undirbúa orgelleikara landsins undir starf þeirra. Hann er að þessu leyti sambærilegur við háskólakennarana.

Til þess að fjölyrða ekki um málið skal jeg leyfa mjer að lesa upp síðustu setninguna úr nál. háttv. Ed.:

„Og því fremur ætti Alþingi að vera ljúft að snúast vel við þessari styrkbeiðni, sem fortíð þessa manns gefur tryggingu fyrir því, að honum muni auðnast, ef líf og heilsa endist, að gera þær krónur, sem til þessara útgjalda ganga, fullkomlega arðberandi fyrir þjóðfjelagið.“

Þá kem jeg að till. um uppbót á aukatekjum dýralæknanna. Þetta er vandræðamál, og erfitt að gera samanburð á dýralæknum og mannalæknum. Ef háttv. flm. till. (Þorst. J.) hefði viljað gera dýralæknunum jafnhátt undir höfði og mannalæknunum, þá hefði hann átt að fara fram á, að dýralæknarnir fengju 60% uppbót af lögbundnum aukatekjum þeirra, en ekki öllum aukatekjunum; í því væri samræmi.

Háttv. þm. (Þorst. J.) mintist á kjötskoðun læknanna og virtist ætlast til, að dýralæknarnir fengju dýrtíðaruppbót úr landssjóði á tekjunum af henni. Þessu er jeg alveg mótfallinn. Það eru fleiri kjötskoðunarmenn í landinu en dýralæknarnir; mannalæknarnir sumir eru líka kjötskoðunarmenn, og jeg veit, að stjórnin hefir verið því alveg mótfallin, að þeir fengju uppbót á borguninni fyrir kjötskoðun þeirra, því að hún kæmi ekki landssjóði við. Auk þess veit jeg, að sumir kjötskoðunarmennirnir hafa fengið uppbót á kjötskoðuninni hjá þeim, sem hafa látið framkvæma hana, þannig, að þeir hafa fengið hærri borgun fyrir skoðunina en áður, og það er líka dýrtíðaruppbót.

Mjer finst rjett, að háttv. flm. (Þorst. J.) taki samkvæmt þessu aftur till. sína, en reyni að koma því inn í fjárlögin, að dýralæknunum verði greidd 60% uppbót á lögákveðnum aukatekjum þeirra.

Háttv. flm. (Þorst. J.) sagði, að það væri sama sem að gefa dýralæknunum undir fótinn með að hækka taxta þeirra, að neita þeim um alla dýrtíðaruppbót. En það er ekki í samræmi við það, sem hv. þm. (Þorst. J.) sagði áður, að þeir mundu ekki geta hækkað taxtann, því að þá mundi þeirra lítið verða vitjað. (Þorst. J.: Jeg taldi þeim það erfitt).