04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Stefánsson:

Jeg vil segja nokkur orð út af brtt. um byggingarstyrk til Jónmundar prests Halldórssonar að Stað í Grunnavík. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) þótti þessi styrkur vera of hár, og get jeg ekki láð honum eða þdm., sem ekki þekkja tildrögin, þótt þeim vaxi þetta í augum, því þetta er sá hæsti byggingarstyrkur, sem veittur hefir verið nokkrum presti. Býst jeg við, að deildinni þyki ótrúleg saga þessa máls, en ef þeir rengja hana, get jeg fært orðum mínum stað. Prestinum er veitt kallið í fardögum 1918. Aðkoman var þannig, að ekkert hús stóð uppi, nema kirkjan. Túnið, sem áður var gott, er nú komið í mestu órækt, og má heita, að það sje óræktaður melur. Þangað kemur nú presturinn. Þar er ekkert hús inn í að skríða, og verður hann að hýrast með fjölskyldu sinni á hesthúslofti á einni hjáleigu staðarins, og hafðist hann þar við yfir sumarið, á meðan hann var að koma upp húsi heima á staðnum. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að hann hefði átt að fá prestakallalán. En þessu er því að svara, að til þess að fá þesskonar lán þarf töluverðan undirbúning, sem oft kostar ærinn tíma og stundum vafning; það þarf uppdrátt af hinu fyrirhugaða húsi, sem svo landsstjórnin verður að samþykkja, og fleira og fleira. Ef presturinn hefði farið þessa leið, gat hann ekki lokið byggingunni fyrir haustið. Hann varð að hefjast handa þegar í stað, og honum tókst að byggja yfir sumarið íbúðarhús. sem kostaði 15,000 kr., eftir mati virðingarmanna. En hann vantaði fleiri hús; hann vantaði öll peningshús, og hann vantaði hlöður. Hann varð því að ráðast í að reisa þessi hús þegar um sumarið, og honum tókst að koma upp fjósi, er kostaði 1000 kr., og hlöðu, sem kostaði 2000 kr. Sömuleiðis girti hann túnið, og kostaði það 2000 kr. Einhver skýtur því að mjer, að áður hefði verið girt, en svo var ekki. Að vísu fjekk presturinn, sem fyr var á staðnum girðingalán, en fyrir það lán hafði hann ekkert girt. Það geta nú allir sjeð hina miklu örðugleika, sem presturinn hefir orðið að glíma við, og þar við bættist, að áður en hann fór úr Reykjavík varð hann að taka 10,000 kr. lán, til þess að geta byrjað þegar í stað.

Deildarmenn hljóta allir að dást að dugnaði þessa prests, enda mun hann eins dæmi. Jeg ætla að staðfesta orð mín með útdrætti úr úttekt staðarins, dags. 14. júní 1917, staðfestri af hjeraðsprófasti. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa það upp:

,,Hús staðarins hefir presturinn fyrir nokkrum árum rifið niður, svo á staðnum heima er nú ekkert hús uppistandandi.“

(P. O.: Hvaða prestur var þetta?) Jeg vil ekki tilgreina nafn hans hjer, enda skiftir það ekki máli. Þetta er heiðursmaður að öllu leyti, þó að eigi hafi honum lánast búskapur. Hús þau, er prestur hafði rifið niður, voru virt á 2000 kr. Það mætti ætla, að sjera Jónmundur hefði fengið andvirðið, en þó vantaði 338 kr. upp á, og af fráfarandi presti var ekkert að hafa.

Aðkoman var því ekki glæsileg, og segir prófastur um ástæður prests og byggingar hans, í brjefi dags. 7. maí þ. á., þar sem hann mælir með, að presturinn fái prestakallalán:

„Presturinn hefir lagt svo ótrúlega mikið á sig, til að koma upp byggingum þeim, sem þegar eru að mestu eða öllu leyti fullgerðar, að jeg get ekki annað en lagt mín allra bestu meðmæli til þess, að svo vel verði greitt úr fyrir honum, sem mögulegt er, með lánveitingu upp á prestakallið. Staðurinn var, er hann tók við, algerlega húsalaus, og í þessari vandræðadýrtíð hefir presturinn brotist í að byggja hann upp, að sögn mjög myndarlega og sómasamlega. Með því að maðurinn mun bláfátækur, getur mig ekki annað en furðað á, að hann skyldi færast þetta í fang, og þó enn meira á því, að honum skyldi takast að framkvæma það. Tel jeg hann svo góðs maklegan fyrir dugnaðinn, að skylt sje að styðja hann, svo sem framast er auðið. Og þykist jeg vita, að kirkjustjórnin muni mjer samdóma um þetta, og greiða úr, svo sem hún sjer sjer fært.“

Þetta hlýtur að nægja til að sanna sögu mína um framkvæmdir prests; þær eru fram yfir allar vonir, og aðstaðan verri en tíðkast hjá prestum, er þeir taka við brauði. Maðurinn er með afbrigðum duglegur, og má telja hann þriggja til fjögra manna maka. Mikið hefir hann bygt sjálfur; hann hefir að vísu haft smíði sjer til aðstoðar, en þó hefir hann sjálfur gengið að verki og haft forsögn á því.

Auk þess, sem prestur hefir gert á staðnum, hefir hann bygt á hjáleigunni, sem áður er nefnd, yfir steinhústóft til geymslu, og er það 4 þúsund króna virði. En það kemur ekki hjer til greina, en þó má geta þess.

Eins og heyrðist á hæstv. forsætisráðherra (J. M.), hefði sú rjetta boðleið verið að fara eftir lögunum frá 13. nóv. 1907. En því var ómögulegt að hlíta. Stjórnarráðsleiðin er oft seinsótt, en presti var lífsnauðsyn að byrja þegar í stað. Til sönnunar því, hvað slíkt gengur fljótt, get jeg nefnt, að þessi prestur sótti um prestakallalán seinni hluta síðasta vetrar, en jeg veit ekki til, að svar sje komið enn, og óvíst, hvort hann fær það. (Forsætisráðherra: Það er ómögulegt, að veita það.) Fyrst svo er, þá verður prestur að bera sínar byrðar, án prestakallaláns, og ætti það heldur að mæla með þessu máli en móti.

Íbúðarhúsið hefir verið metið á 15 þús. kr., með virðingargerð 19. maí 1919. Það má segja, að það sje fullstórt, en þó er það fyllilega við hæfi jarðarinnar. Þó að jörðin sje heldur í niðurníðslu nú, þá er hún þó einhver besta jörð á Vesturlandi að eðliskostum. Á engjum má þar heyja um 2 þús. hesta, og gras bregst aldrei, því að snjór liggur þar allan vetur, og kennir jörðin græn undan honum á vorin. Það er haft eftir Torfa í Ólafsdal, að fáar jarðir á Vesturlandi hefði honum litist betur á. Þegar tekið er tillit til þess, hvílíkur dugnaðarmaður sjera Jónmundur er, þá er hægt að ganga að því vísu, að hann kemur þarna upp stórbúi. Þegar hann kom, hafði hann enga skepnu, en þó setti hann á 150 fjár síðastliðinn vetur, sem hann aflaði sjer yfir sumarið. Hann fór þannig að því, að hann ferðaðist í kringum Djúpið og keypti eina og eina kind af bændum, og rak þær sjálfur heim til sín.

Frestur hefir gert ótrúlega mikið á stuttum tíma og í erfiðum kringumstæðum og hefir þetta kostað hann 23,500 kr., og þar í er ekki talið annað en það, sem hann hefir gert á prestsetrinu sjálfu. Þegar við þetta bætist, að maðurinn er bláfátækur og fær ekkert prestakallalán, þá er þess að vænta, að háttv. deild taki málinu með sanngirni og greiði atkv. með þessum styrk, sem þó er ekki helmingur af þeirri upphæð, sem prestur hefir látið í fyrirtækin.

Landssjóður á þessa jörð, og er skylt að húsa hana sæmilega. Hjer er að ræða um aðstöðu landsdrottins til leiguliða, og er þá rangt að láta prest gjalda þess, að fyrirrennari hans hefir skilið við jörðina húsalausa.

Það má líka geta þess að bygðarlaginu er stór gróði að þessum manni. Hjeraðið er kostasveit af náttúrunnar hendi, en óhöpp hafa elt það, og það hefir mist í sjóinn sína bestu bændur og mestu framtaksmenn, hvern af öðrum. Nú er lítið eftir nema fátækir og framtakslitlir menn og væri þeim ómetanlegur hagnaður að fá annan eins dugnaðar- og kjarkmann og sjera Jónmund. Enda veit jeg til þess að sóknarbörn hans líta alment upp til hans, því að auk dugnaðarins er hann líka góður og skyldurækinn prestur. Jeg veit að misjafnar sögur hafa gengið um þennan mann og þó að eitthvað kunni að vera hæft í þeim, þá má þó ganga að því vísu að meira eða minna af því sje logið, eins og altaf er, þegar einstakur maður er lagður í einelti með óhróðurssögum. Jeg veit það, og get borið um það af kynningu og samtali við prestinn, að hann hefir breytt um lífsstefnu og er hættur allri áfengisnautn. Hann er búinn að fá reynslu fyrir því, að hans fyrri stefna leiðir hvorki til álits nje hamingju í lífinu, enda hefir maðurinn margt misjafnt orðið að reyna. Jeg vona, að sjera Jónmundi takist þetta og heiti þar að dugnaði sínum og einbeitni, sem hann hefir í svo ríkum mæli. Jeg vil ekki þreyta hv. deild á lengri ræðu, en vona að eins, að hún líti á málið með sanngirni. Hjer er ekki um það að tala að skapa fordæmi; að minsta kosti vona jeg, að það verði sjaldgæft, að eins illa verði skilið við jarðir eins og átti sjer stað í þessu tilfelli.

Jeg gæti sagt fleira um þetta mál, en jeg hygg, að nægi það, sem komið er, og vona, að hv. þm. sjái, að öll sanngirni mælir með þessu, og meira en sanngirni; þetta er rjettmæt og sjálfsögð krafa á hendur landsdrotni, og er langt frá, að eins mikið sje farið fram á og rjettmæti væri. Það er heldur ekki svo að skilja, að þessir peningar fari úr eign landsins; þeir halda verðmæti sínu í byggingunum.

Það hefir verið samþykt hjer á þingi endurborgun á byggingum presta, og með því er viðurkendur rjettur sá grundvöllur, sem þessi beiðni byggist á.