01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Pjetur Ottesen:

Brtt. mín hefir mætt allmiklum andblæstri hjá háttv. frsm. (M. P.), og má gera ráð fyrir, að hann tali þar fyrir hönd fjárveitinganefndarinnar. Hann bar mann þennan og styrkinn til hans saman við utanfararstyrk til lækna og háskólakennara. Má vera, að þar svipi nokkuð saman, en jafnt er þó eigi á komið með þeim. Það er hreinasti misskilningur hjá háttv. frsm. (M. P.).

Seinasta vopnið, sem háttv. frsm. (M. P.) beitti, var að hann las upp úr nál. hv. Ed. dóm nefndarinnar þar um manninn. En í sambandi við það tek jeg fram, að háttv. þm. (M. P.) tók það jafnframt fram, að hvorugur okkar væri fær til að dæma um mann þennan. En honum finst þó sjálfsagt, eftir því sem orð hans fjellu, að háttv. Ed. sje fær til þess. En jeg vil nú samt gera ráð fyrir, að hún standi svipað að vígi og við með að fella dóm sinn, og þá ætti ekki að vera byggjandi mjög mikið á honum. Ef við verðum svo örlátir, að veita styrk þennan, þá megum við eiga von á, að Magnús söngfræðingur Einarsson og fleiri muni á eftir koma með samskonar, og jeg efast ekki um, að þeir mundu geta fengið meðmæli sjerfræðinga í þessari grein. Þeir gætu t. d. myndað nokkurskonar samábyrgð með sjer og mælt hver með öðrum. Ættum við þá erfitt með að synja þeim um samskonar styrk, ef þetta er á undan gengið.