04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla að minnast ofurlítið á 115. lið í brtt. fjárveitinganefndar, um utanfararstyrk til fjögurra kennara. Einn af þessum fjórum mönnum er Guðmundur Ólafsson frá Sörlastöðum í Fnjóskadal. Af því að jeg er kunnugur þessum manni, líklega fremur flestum öðrum hv. þdm., þá ætla jeg að minnast sjerstaklega á hann. Hann hefir verið 15 ár við barnakenslu og unglinga, þar af tvo vetur við Hvítárbakkaskólann, og hefir hlotið lof fyrir og vinsældir. Hann kendi um stund í minni sveit og gat sjer af því góðan orðstír, þar sem annarsstaðar.

Nú er Guðmundur bóndi í Fnjóskadalnum; en hann hefir jafnan haft svo mikinn hug á kenslu, að hann hefir aldrei getað slitið sig frá henni, þótt hann mundi hafa haft meiri hag af að gefa sig einvörðungu við búskap; og enn er áhugi hans á kenslumálum svo sterkur, að hann kýs að hverfa frá búi sínu og frama sig enn meir, og hefir síðan í hug að taka að sjer kenslu eða forstöðu unglingaskóla. Styrkurinn, sem nefndin leggur til að veittur sje, er í minna lagi, ef ætlast er til, að hann hrökkvi fyrir öllum kostnaði; og má gera ráð fyrir, að hann og aðrir þessir umsækjendur verði að leggja fram allmikið fje úr eigin vasa, ef þeir haga utanför sinni eins og þeir gera ráð fyrir. En ekki get jeg verið því samþykkur, að einn umsækjandinn sje tekinn út úr og honum veittur hálfu hærri styrkur en hinum, eins og brtt. á þgskj. 600 fer fram á. Sú hækkun mundi draga þann dilk á eftir sjer, að hækka yrði styrkinn til hinna þriggja og aðra samkynja styrki. Jeg álít, að hinir umsækjendurnir eigi að sæta sömu kjörum sem Freysteinn Gunnarsson; þeir eru allir slíkir menn, að honum er enginn vansi að því, að vera skipað á bekk með þeim. Nefndin gerði öllum fjórum umsækjendum jafnt undir höfði, að því undanteknu, að hún leggur til, að Guðmundi Jónssyni sje veittur ofurlítið hærri styrkur en hinum. Má skilja það svo, að nefndin telji velta einna mest á þessum manni, að hann frami sig erlendis í sínum námsgreinum, þar sem svo tilfinnanlega vantar kennara hjer í Reykjavík, og reyndar í landinu öllu, til að kenna námsgreinar þær, sem hann ætlar að frama sig í, skólateikning og „slöjd“. Þetta eitt mælti með því, að nefndin vildi veita honum 500 kr. hærri styrk en hinum.

Eins og gengur, eru nokkrar af tillögum fjárveitinganefndar, sem öll nefndin hefir ekki getað orðið sammála um. Nefndin hefir yfir höfuð tekið upp þær brtt., sem fullkominn meiri hluti fjekst fyrir. Jeg segi þetta ekki til þess að draga úr þeirri ábyrgð, sem nefndin öll á að bera fyrir gerðum sínum, nje til þess að skjóta mjer undan nokkru af þeim dómi, sem hún fær. heldur get jeg þess til þess að láta hv. deild vita, að það eru nokkrar tillögur nefndarinnar, sem jeg get ekki greitt atkvæði með; en fáar eru þær þó.

Jeg skal geta þess, að fyrir mitt leyti er jeg samþykkur brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), um að athugasemd sje sett við styrkinn til bókmentafjelagsins; en jeg man ekki, hvort nefndin gerði nokkra ályktun um hana.

Þá vil jeg og fara nokkrum orðum um brtt. hv. 1. þm. Árn. (S. S.), á þgskj. 614. sem nefndin ætlaðist til að gengi til búnaðarsambanda, en háttv. þm. (S. S.) vill að borgist til Búnaðarfjelags Íslands. Fyrir nefndinni vakti, að best væri, að búnaðarsamböndin tækju við styrk þessum og sæju um, að honum yrði varið til sameiginlegra fjelagsnota í búnaðarfjelögunum innan hvers sambands, en að hann væri eigi bútaður niður til einstakra fjelagsmanna, sem svokölluð verðlaun, miðuð við þá dagsverkatölu, sem hver um sig hefði unnið að jarðabótum. Í sjálfu sjer er ekki hægt að segja, að tillaga hv. þm. (S. S.) sje andstæð þeirri hugsun. því að jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (S. S.) ætlist til, að Búnaðarfjelag Íslands verji styrk þessum á líkan hátt og fjárveitinganefnd hugsaði sjer að búnaðarsamböndin gerðu; en hann trúir Búnaðarfjelaginu betur fyrir úthlutun styrksins en búnaðarsamböndunum.

Þá kem jeg að öðrum lið brtt. á þgskj. (614. um 25,000 kr. styrkveiting á ári til vatnsveitinga. Það var föst skoðun nefndarinnar, að eigi skyldi styrkur þessi veittur til óákveðinna vatnsveitingafyrirtækja, heldur til ákveðinna. Að sjálfsögðu getur verið víðar jafnmikil ástæða til að veita áveitustyrk eins og í Óslandshlíðinni; en ekki lágu fyrir nefndinni umsóknir um það. Að því er snertir undirbúninginn undir vatnsveituna í Óslandshlíð, skal jeg geta þess, að jeg hefi nýlega, í síma, átt tal við forstöðumann búnaðarskólans á Hólum, Sigurð skólastjóra, um málið. Sagði hann, að undirbúningur undir vatnsveituna væri kominn vel á veg — mælingar og teikningar lágu fyrir nefndinni — , en hann sagði, að hlutaðeigendur mundu fúsir á að gera samþykt um samáveitu. Væri það ef til vill rjettast að sett væri sem skilyrði fyrir styrkveitingu til samáveitu, að fyrir lægi reglugerð um hana, er trygði það, að áveitunni yrði haldið við.

Hæstv. fjármálaráðherra var í gærkvöldi að telja upp nokkra liði í þessum kafla fjárlaganna, sem honum þótti settir helst til háir hjá fjárveitinganefnd; var það eins konar syndaregistur nefndarinnar, sem hann þuldi upp. Eitt af því, sem hann nefndi, var styrkurinn til háskólans. Út af þessu leyfi jeg mjer að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, hvernig stjórnin hafi hugsað sjer, að háskólinn gæti int af hendi hlutverk það sem honum er ætlað að vinna. með því fje, sem honum er ætlað í stjórnarfrv. Frá mínu bóndasjónarmiði jafnvel finst mjer nefndin ekki hafa haft góðan grundvöll til að byggja á, þar sem stjórnarfrv. var. Að öðru leyti mun hv. frsm. (B. J.) svara athugasemd hæstv. fjármálaráðherra um háskólann.

Það var þó annað atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. sem mjer fanst einkum athugavert; það voru ummæli hans um tillögur nefndarinnar um styrk til heimilisiðnaðar. Mjer virtist brydda á því hjá hæstv. ráðherra, að hann efaðist um, að sá styrkur væri að miklu gagni. Enda kemur það í ljós í frv. stjórnarinnar, að sú muni vera skoðun hennar; því að þetta er einn af þeim örfáu liðum í núgildandi fjárlögum, sem stjórnin hefir felt úr fjárlagafrv. sínu. Þetta stafar auðsjáanlega af ókunnugleik, því að jeg er viss um að ef hæstv. ráðherrar þektu málið eins vel og jeg t. d., þá mundi þeim ekki detta í hug að stuðla að því, að út af lognaðist hin litla hreyfing í heimilisiðnaði, sem nú er að lifna hjer á landi. Heimilisiðnaðurinn hefir á undanförnum öldum haft ekki litla þýðingu fyrir þjóðerni vort og þjóðmenning.

Eins og menn vita er nú svo komið, fyrir rás viðburðanna að heimilisiðnaðurinn hefir að undanförnu verið að kulna út og hverfa. Áður sátu konur mestan hluta vetrar við rokk sinn og spunnu, og vefstóll var á fjölda bæja, þar sem ofnar voru í voðir handa heimilinu, og jafnvel til sölu, eða fyrir heimilin, þar sem enginn vefstóll var til; gengu menn þá því nær eingöngu í fatnaði úr íslenskum dúkum. En nú er öldin önnur og engum, sem þekkir ástandið, dettur í hug, að heimilisiðnaður muni aftur komast í sama horf sem áður, eða á heimilunum muni verða spunnir og ofnir dúkar sem fyr. En það er margt annað í heimilisiðnaði, sem kept getur við vjelaiðnað, útlendan og innlendan, svo sem útvefnaður ýmiskonar til heimilisprýði og nota, prjónaskapur og þesskonar. Þá má og nefna margskonar smíðaföndur sem bæði getur orðið til dægrastyttingar og nytsemdar, því að það liggur í augum uppi, að mikils er um vert, að sem flestir geti orðið búhagir. Í stuttu máli á heimilisiðnaðurinn eins og nú er til hans stofnað, að geta orðið bæði til gagns og gamans. Enn er ónefnt það, sem einna mestu máli skiftir. Gæti heimilisiðnaður fengið almenna útbreiðslu, þá ætti hann flestu öðru fremur, að stuðla að því, að gera fólk í kaupstöðum og kauptúnum heimasætnara og iðnara og fá því vinnu í skammdeginu. Þegar útivinnutími er stuttur. Gæti heimilisiðnaðurinn náð tökum á æskulýðnum, mundi það gera hann staðfastari, reglusamari og hugsunarsamari en nú þykir víða brenna við. Auk þessa á kappsamlega stundaður heimilisiðnaður að geta gefið þjóðinni mikinn peningahagnað.

Þetta mál er þess vert, að því sje mikill gaumur gefinn. Því að það hefir svo mikla uppeldis- og menningarþýðingu fyrir þjóðina.

Hv. frsm. (B. J.) hefir skýrt frá því, hvernig nefndin hugsi sjer að styrknum skuli varið. Það heyrðist á hæstv. fjármálaráðherra að hann væri hræddur um, að framkvæmdarstjórinn mundi verða hátt launaður, og að styrkurinn mundi mestur ganga til að launa honum. Jeg get fullvissað hæstv. ráðherra um, að svo muni eigi verða. Það er gert ráð fyrir, að kona hafi forstöðuna á hendi og munu laun hennar ekki fara fram úr 1–2 þús. krónum.

Þá ætla jeg að minnast á Stykkishólmsbryggjuna því að óvíst er, að það nægi sem í nál. stendur til að skýra fyrir hv. þdm., hvað fyrir nefndinni vakti með fjárveiting til hennar. Stykkishólmsbryggjan mun hafa verið fyrsta bryggjan. sem styrkur var veittur til úr landssjóði. Var það áskilið að styrkurinn mætti ekki fara fram úr kostnaðar. Nú kostaði bryggjugerðin svo mikið, að landsstyrkurinn nam miklu minna en fjórða parti kostnaðarins. Þegar fjárveitinganefndin fór nú að athuga málið, sá hún, að þessar 8.800 kr., sem lagt er til að eftir sjeu gefnar af láni landssjóðs til bryggjubyggingarinnar að viðbættum hinum upphaflega styrk, er eigi meira samanlagt en 1/3 af kostnaðinum við bryggjubygginguna.

Nú hefir það verið venja hin síðari ár að veita 1/3 kostnaðar til fyrirtækja slíkra sem þessa. Þegar til þessa er litið, þótti nefndinni sanngjarnt, að gefnar væru eftir þær 8,800 kr., sem eftir standa af láninu og það því heldur, sem nú þarf að endurbæta bryggjuna stórum og taka nýtt lán til þess. Þótt þessi eftirgjöf sje veitt, er ekki farið eftir annari reglu en með aðrar bryggjur. Hins vegar þótti nefndinni fara betur á því að taka þetta upp sem beina fjárveitingu. en sem eftirgjöf á láni.

Hefi jeg svo ekki meira við að bæta það, sem hv. frsm. (B. J.) sagði til skýringar starfi fjárveitinganefndar.