04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Það eru að eins örfá orð, í tilefni af því sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði. Mjer kom það á óvart, að hann skyldi viðhafa þau orð, er hann gerði um þennan persónustyrk. Jeg hefi ekki ætlað hann svo sýtingssaman eða gjarnan á að fara út í hreppapólitík,ef hann tekur á sjálfum sjer heilum.

En hjer förlast honum, þar sem hann segir, að af því að hann beri sjerstaklega einn af þessum mönnum fyrir brjóstinu, þá geti hann ekki verið með því, að annar fái hærri styrk.

Það er nú síður en svo að jeg vilji bera á móti því, að þessi maður. sem háttv. þm. ber fyrir brjósti, sem mun vera Guðmundur Ólafsson frá Sörlastöðum, sje mjög efnilegur maður og þess fyllilega maklegur að fá styrkinn, sem honum er ánafnaður.

En þótt það sje viðurkent, þá er þar með ekki sagt, að rjettmætt sje, að enginn fái hærri styrk. (P. J.: Jeg var ekkert að bera saman þessa tvo menn.) Segjum þá, að þessum manni, Guðm. Ólafssyni nægi að fá 2000 kr., sem jeg hygg að muni rjett vera, þar sem ekki liggur fyrir neitt um það, að hann hafi þannig lagað sjerstakt markmið að veita þurfi honum þess vegna ríflegri styrk. En jeg sýndi fram á það í gær, að þessi maður sem jeg flyt brtt. um. hefir það markmið með utanför sinni, að okkur hlýtur að teljast það skylt að styðja að því, að því verði náð.

En það er sitt hvort að ætla sjer að þroskast eða mentast í kenslumálum að einhverju vissu leyti eða hitt að frama sig til fullnustu til víðtækra og vandasamra starfa.

Þetta þóttist jeg hafa bent á í gær.

En nú hefir háttv. þm. ef til vill ekki ætlað sjer að bera saman þessa tvo menn, heldur hina tvo sem sambærilegri eru, þá kandidatana Ásgeir Ásgeirsson og Freystein Gunnarsson. En það sem þar munar, er það að Ásgeir Ásgeirsson er þegar orðinn fastur kennari við kennaraskólann og ætlar hann, býst jeg við, að eins að bregða sjer utan í nokkra mánuði. Í sumarleyfi sínu til þess að kynnast æfingakenslu og sjá hvernig sú ákveðna grein er kend annarsstaðar.

En það er nokkuð annað en að ætla sjer að hafa tveggja ára útivist, til að ná yfirsýn og kynnast alþýðuskólafyrirkomulagi í öðrum löndum.

Enda er það fullvíst, að þótt manni þessum verði veittar 4000 kr.. þá mun hann þurfa ærinn styrk annarsstaðar að, til þess að geta klofið fram úr þessu.

En ef það er skoðun hv. þm. (P. J.), að ekki megi gera mun á mönnum, þegar um lík mál er að ræða, þá verð jeg að vera því algerlega mótfallinn. Sú stefna að leggja alla að líku, mun hvorki dæmast rjett hjer nje annarsstaðar. Svo langt er þó ekki enn komið.

Og þess ber hjer enn fremur að gæta að sjerstaklega stendur á með mann þennan, sem jeg flyt brtt. um, þar sem hann hefir klifið þrítugan hamarinn með þetta ákveðna mark fyrir augum, og hefir í því skyni gengið hjer í gegnum allar mentastofnanir frá hinni lægstu til hinnar æðstu.

Jeg býst nú ekki við því, að hv. þm. (P. J.) hafi ætlað sjer að blanda „hreppapólitík“ hjer inn í þetta mál, þótt hann hefði þessi ummæli, en hins vegar vænti jeg þess, að hv. þingdm. líti ekki á það sömu augum og hann þó gerir, heldur sjái það, að hjer er um undantekning að ræða með mann þennan.