04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er að eins stutt athugasemd út af ræðu hv. þm. S.-Þ. (P. J.).

Jeg skildi hann svo, að hann teldi mig líta svo á, að allar upphæðir sem jeg nefndi sjerstaklega, væru óþarfar.

Það er alls ekki rjettur skilningur á orðum mínum. En jeg sagði, að atkvgr. um kaflana hjer á undan hefði sýnt það, að deildin mundi ekki vilja draga úr útgjöldunum. Taldi jeg upp nokkrar upphæðir í þessum kafla, svo sem styrkinn til Búnaðarfjelagsins o. fl., sem jeg taldi nauðsynlegri en vegastyrkina í hinum kaflanum.

Þótti mjer því ekki líklegt, að dregið yrði úr þessum upphæðum.

Þá taldi jeg enn upp nokkra liði, sem jeg setti á bekk með vegastyrknum.

Að öllu þessu athuguðu þóttist jeg mega ganga út frá því, að hv. deild mundi ekki ætla sjer að draga úr útgjöldunum og minka þannig hallann. Vona jeg, að hv. þm. kannist við þetta.

Þá var till. um að hækka við háskólann, frá því, sem gert er í stjórnarfrv.

Í sambandi við það skal jeg taka það fram, að það, sem vakti fyrir stjórninni, var það, að verja mætti nokkru af vöxtum miljónarinnar til að ljetta undir með landssjóði.

Var það í þeirri trú, að háskólinn sæi sjer fært að verja nokkru af þessu fje til styrks handa stúdentum.

Það var því ekkert illa gert til háskólans með þessu.

Það var að eins til að ljetta gjöldin á landssjóði, sem fara vaxandi með ári hverju, því að vitanlega er það skylt að hlúa að háskólanum sem best.

Þá skal jeg minnast á styrkinn til heimilisiðnaðar. Jeg var því ekki fyllilega samþykkur að stryka hann algerlega út. En hins vegar býst jeg ekki við, að hægt sje að sýna mikinn árangur af styrk þeim, sem veittur hefir verið í þessu skyni.

Og þegar nú á að fara að veita 10,000 kr. til þessa, og þar af á að taka laun framkvæmdarstjóra, þá býst jeg við, að lítið verði eftir til framkvæmdanna sjálfra.

Jeg lít líka svo á, að margt gott megi þróast í landinu án fjárframlaga úr landssjóði og það væri miður holt, ef alt og allir í öllu vörpuðu sjer og áhyggjum sínum á hann.

Auk þess hafa hjer heyrst ámæli til stjórnarinnar fyrir stofnun nýrra embætta. en jeg hygg, að slíkt megi nú ekki síður segja um þingið sjálft. Hjer er til dæmis gert ráð fyrir að mynda garðyrkjustjóraembætti, með 5000 kr. launum og má það blátt áfram hlægilegt heita, þar sem ekkert er veitt til sjálfrar garðyrkjunnar.

Væri ekki meira vit í að veita þessar þúsundir til hennar. og láta svo t. d. Búnaðarfjelagið sjá um notkun þeirra.

Jeg verð því að segja það, að það er ekki vottur um mikla ráðdeild, ef till. þessi verður samþ., því að hún er vægast sagt ekki viturleg.

Jeg býst því við að þótt mönnum hjer finnist ekki mikið til um þennan tveggja miljóna halla, þá geti svo farið, að mönnum finnist talsvert um hann utan þings.

Jeg skal líka benda á það, að hjer er von á nýjum útgjöldum, sem ekki eru enn fram komin. Það eru t. d. útgjöldin til hafnargerða, sem nema munu 900 þús. kr. Um það eru frv., sem líkur eru til að verði samþykt. Auðvitað mun jeg ekki leggja á móti þessu. Það eru hafnargerðirnar í Vestmannaeyjum, Ísafirði og Ólafsvík, sem jeg á við.

Jeg skal ekki segja um, hve nær byrjað verður á framkvæmdum þessum, en þar sem þær hafa þegar verið „planlagðar“, munu vextir og afborganir brátt verða fastir liðir í fjárlögunum.

Jeg vil að eins minna á þetta til þess að sýna, að þetta þing er mesta framkvæmdaþing, sem hjer hefir komið saman.

Það er því dæmalaust að heyra ræður um það, að hjer sje ekkert gert, þar sem stjórninni er gefinn rjettur til að láta framkvæma það, sem hún sjer sjer fært meðan vinnukrafturinn leyfir.

Jeg vona því, að háttv. deild sje mjer sammála um það, að hjer sje um svo miklar framkvæmdaráðstafanir að ræða, að engin hætta sje á þeim ákúrum, að afturhaldsstefna hafi verið ráðandi á þessu þingi.