05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Pjetur Ottesen:

Mig langaði til að gera nokkrar athugasemdir við þetta frv. stjórnarinnar, og enn fremur við brtt. þær, sem samvinnunefnd launamála hefir gert við það. Áður en jeg geri það vildi jeg þó láta í ljós undrun mína yfir því, að þetta mál skuli ekki hafa verið borið undir mentamálanefnd. Ef þetta mál, að minsta kosti að því leyti sem það snertir prófskilyrðin og skipun kennaranna, heyrir ekki undir starfssvið hennar, þá veit jeg ekki til hvers hún er skipuð. Þó má enginn skilja orð mín svo, að jeg sje að lýsa vantrausti á háttv. launamálanefnd, sem um málið hefir fjallað. En mjer finst þetta næstum brot á þeirri reglu, sem á að gilda í þessu hjer á þingi.

Skal jeg þá fyrst minnast á það, að í frv. er það gert að skilyrði, að til þess, að nokkur geti fengið kennarastöðu, skuli hann hafa lokið kennaraprófi. Jeg vil benda á, að með þessu ákvæði eru fyrst og fremst útilokaðir allir sjálfmentaðir alþýðumenn, hversu vel sem þeir eru að sjer og hvað miklum kensluhæfileikum sem þeir eru gæddir. Auk þess eru menn frá öllum öðrum skólastofnunum á landinu, öðrum en kennaraskólanum, alveg útilokaðir. Með öðrum orðum eru menn frá gagnfræðaskólum, lýðskólum, verslunarskólum, mentaskólanum og sjálfum háskólanum gersamlega útilokaðir frá því, að geta orðið barnakennarar, hversu mikla köllun sem þeir kynnu að finna hjá sjer til að sinna því starfi. Þetta finst mjer talsvert varhugavert. Fyrst er það, að margir af okkar sjálfmentuðu mönnum hafa sýnt það, að þeir eru gæddir afbragðskennarahæfileikum, samfara staðgóðri mentun, enda margir hverjir reynst fyr og síðar hinir bestu leiðtogar og fræðarar æskulýðsins, og hefði verið ómetanlegt tjón að útiloka þá menn frá þessu starfi. Auk þess finst mjer altaf varhugavert að útiloka menn, sem hafa lokið þeim prófum, er jeg áðan nefndi, frá þessum starfa, ef ske kynni, að þeir vildu snúa sjer að barnafræðslu í landinu, sem við vitum að oft hefir átt sjer stað. Þeir eru mjög margir, eins og kunnugt er, sem sækja þessa skóla er jeg nefndi, og mundu einhverjir af þeim sennilega einmitt snúa sjer að þessu starfi.

Þá er sú undantekning, sem nefndin vill gera með þá, sem hafa stundað barnakenslu í 5 ár. Um hana er það að segja, að hún nær ekki yfir nema nokkurra ára bil, en fellur svo brátt úr sögunni. Þótt þetta bæti í bili nokkuð úr hvað þá snertir, sem undir þetta ákvæði komast þá eru þeir sem hafa stundað kenslu í færri ár en 5, t. d. 2, 3 eða 4 ár, og reynst hafa dugandi kennarar, sem hafa verið með lífi og sál í sínu starfi og unnið hug og hjörtu barnanna, þessa menn á að útiloka með öllu frá starfi sínu. Jeg er sannfærður um, að þetta ákvæði mun vekja megna óánægju úti um landið og mælast mjög illa fyrir. Auk þess vildi háttv. frsm. (Þorst. J.) slá því föstu í framsöguræðu sinni, þótt það sje ekki tekið fram í brtt., að þessi undantekning næði að eins til þeirra, sem hefðu haft á hendi kenslu samfleytt í 5 síðastliðin ár áður en þetta verður að lögum. Af því mundi leiða, að ef einhver kennari hefði t. d. verið heilsubilaður í 1 ár af þessum 5 árum, þá væri hann þar með útilokaður frá því starfi frekar, enda þótt hann hefði verið kennari mestan hluta æfi sinnar. Mjer finst, að síst ætti að kenna svo mikillar harðneskju, að útiloka einmitt þá menn, sem hafa gegnt þessu starfi nú síðustu ár með mjög litlum launum, einmitt nú, þegar farið er fram á, að launakjörin sjeu bætt.

Viðvíkjandi 2. gr. vildi jeg geta þess, að þar er gert ráð fyrir að taka veitingavaldið af fræðslu- og skólanefndum, en í þess stað skuli stjórnarráðið veita stöðurnar. Þó er ætlast til, að skóla- og fræðslunefndir hafi tillögurjett um það, hverjum sjeu veittar stöðurnar. Hins vegar er það tekið skýrt fram í nál., og árjettaði frsm. (Þorst. J.) það rækilega, að fyrst og fremst bæri að taka tillit til skoðana fræðslumálastjóra í þessum málum, svo að ef til þess kæmi, að hann væri á annari skoðun en fræðslunefnd um það, hverjum veita skuli, þá ræður vafalaust úrskurður hans úrslitum. Það er því æði lítið leggjandi upp úr áhrifum skóla- og fræðslunefnda. Auk þess er mjög vafningasamt, hvernig þetta alt á að ganga fyrir sig, samkvæmt frv. stjórnarinnar. Fyrst eiga skóla- og fræðslunefndir að auglýsa kennarastöðuna. Skulu umsækjendur senda þeim umsóknir sínar, sem þær svo aftur senda stjórnarráðinu til úrskurðar, og á það svo að auglýsa hverjum staðan er veitt. Þessu er dálítið snúið við hjá nefndinni, þannig, að þegar skóla- eða fræðslunefnd vantar kennara, eiga þær að láta stjórnarráðið vita um þetta, en það auglýsir svo stöðuna. Síðan, þegar einhverjir hafa sótt, leitar stjórnarráðið álits viðkomandi skóla- eða fræðslunefndar um manninn eða mennina, og að því fengnu álits þess, sem mestu á um þetta að ráða, fræðslumálastjóra, og að þessu öllu afloknu veitir það loks stöðuna. Eins og allir sjá, hlýtur þetta að vera svo mikil skriffinska og vafningar, að það hvorttveggja nær hjer hámarki sínu. Jeg get ekki fallist á, að það sje á rökum bygt, að fræðslunefndir yfirleitt hafi misbeitt svo þessu valdi sínu í þessu efni, að rjett sje að taka veitingavaldið af þeim; þó einhver einstök fræðslu- eða skólanefnd kunni að hafa sóst eftir því, sem jeg skal ekkert segja um hvort satt er, að fá ódýra kennara, áður fyr, eða lagt meira upp úr því en góðu hófi gegndi, þá hverfur það úr sögunni nú, þegar launin eru hækkuð. En yfir höfuð virðist mjer gert alt of mikið úr skilningsleysi og kæruleysi fræðslunefnda í þessu máli, barnafræðslunni, en rjett er og sanngjarnt. Alþýða þessa lands hefir verndað drýgst og best haldið við hinni þjóðlegu menningu landsins, og á heimafræðslan ef til vill ekki hvað minstan þáttinn í því. Og svona mun þetta verða hjer eftir.

Þetta var það, sem jeg aðallega hafði við frv. og brtt. að athuga. Enn fremur hafði jeg ætlað mjer að gera athugasemd við brtt. við 8. gr, En hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir tekið það rækilega fram, að þessi brtt. er ekki til bóta, heldur miklu fremur til hins gagnstæða, svo jeg þarf ekki að fara frekar út í það.

Þá er annar liður þessa máls. laun barnakennara. Lítur þar út fyrir, að hv nefnd hafi að mestu fylgt stjórnarfrv., þótt hún hafi lagt til nokkrar breytingar. En jeg vildi að eins minna á það hjer, að eftir því, sem mjer virðist, er í frv. gert ráð fyrir, að farskólakennarar hafi talsvert hærri laun, þegar alt kemur til alls, en barnaskólakennarar utan kaupstaða. Forstöðumenn utan kaupstaðaskóla hafa eftir frv. 1500 kr., og kennarar við þá 1200 kr. En eftir því, sem mjer reiknast til, er jeg legg til peninga þau hlunnindi, sem farkennarar hafa auk 300 kr. launa, fæði, húsnæði, ljós, hiti og þjónusta í 6 mánuði, verða þeirra laun töluvert hærri. Það er talað um, að farskólakennarar kenni 6 mánuði ársins. Jeg veit nú ekki, hvort nokkuð er ákveðið um það í fræðslulögunum, að farskólar skuli starfa 6 mánuði ársins. En jeg efast um, að þeim sje það skylt; jeg held, að það sje ekki neitt ákvæði um það annarsstaðar en í fræðslusamþyktum. En þá vil jeg spyrja, hví þeirra laun eru höfð jöfn, ef þeir kenna skemri tíma.

Skal jeg svo ekki teygja tímann með því að fara frekar út í þetta, en að eins víkja að því, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði í niðurlagi ræðu sinnar, er hann mintist á undanþáguna um þá, er yrðu kennarar næsta vetur, og sagði, að ekki væri ástæða til að greiða þeim dýrtíðaruppbót, sem ekki uppfyltu skilyrði þessa frv. eða gætu talist hæfir kennarar. Jeg veit ekki, hvað hann metur hæfa menn, og hygg, að örðugt verði að gera þar upp á milli hafra og sauða.