05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari stafar af því, að aðalatriðin í breytingum þeim, sem nefndin leggur til að gera á frv. fara beint í bága við þá tilhögun fræðslumála, sem jeg tel æskilega, að fræðslunefndir og skólanefndir hafi veg og vanda af framkvæmdum.

Það er í raun og veru tvent, sem einkanlega er lagt til að breyta, en það eru skilyrðin fyrir að geta fengið kennarastarfa, sem sje kennarapróf, og svo sú aðalbreyting frá ástandi því, sem nú er, að stjórnarráðinu er ætlað að hafa veitingavaldið óskorað, en fræðslunefndum og skólanefndum skotið út úr þeim verkahring, sem þeim er markaður með fræðslulögunum frá 1907.

Að því er snertir breytinguna á 1. gr., um prófskyldu kennara, vil jeg segja, að þótt yfirleitt sje rjett, að kennarapróf sje gert að skilyrði fyrir veitingu kennarastarfs, þá geta þó verið undantekningar, og þær fleiri og frekari en nefndin leggur til. Jeg verð að líta svo á, að sú undantekning nefndarinnar, að sá geti einnig orðið skipaður kennari, er kent hefir í 5 ár, sje of þröng, þar sem hún nær þá að eins til þeirra, sem nú hafa kent þennan tíma, og engra síðar. Þetta ákvæði verður enn óeðlilegra er athuguð er 4. gr. frv., sem nefndin að vísu leggur til að breytt verði að ýmsu leyti. En þar er, eins og menn sjá, gert ráð fyrir, að þegar ekki er fáanlegur kennari, sem uppfyllir skilyrðin í 1. gr., þá verði fræðslunefnd að ráðstafa starfinu og taka hvern þann, sem hún telur hæfan. Það virðist harðleikið, að sá maður, sem þannig rækti kenslustarfa, ef til vill árum saman, með góðum árangri og nyti trausts skólanefndar, ætti hiklaust að víkja fyrir prófuðum umsækjanda, en ef til vill lítt reyndum og ljelegum. En eftir kenningu háttv. frsm. (Þorst. J.) ætti svo að vera.

Við það verður að kannast, að náttúran er náminu ríkari, eins í þessu efni sem öðru, og getur próflaus maður, að jeg eigi nefni menn t. d. með guðfræðisprófi eða annari akademiskri þekkingu, að sjálfsögðu verið jafnsnjallir venjulegum skólakennurum, ef þeir eru hneigðir fyrir starfið. Nokkur æfing við kenslustarf ásamt kunnáttuvottorði dómhæfra, skilríkra manna og meðmælum fræðslunefndar, finst mjer því eiga að veita rjett til kennarastarfa, þótt prófaðir, æfðir kennarar gangi fyrir. Það er, eins og háttv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram, óviðfeldið, að menn, sem reynst hafa vel við starfið, geti eigi komið til greina, hvernig sem á stendur, ef þá vantar kennarapróf. Verður ef til vill tækifæri til að koma að til 3. umr. breytingum um þetta.

Að því er kemur til hins atriðisins, um meðferð stjórnarráðsins á þessum fræðslumálum, þá er það, eins og jeg hefi tekið fram, aðalbreytingin, og af henni stafa flestar aðrar breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði. Er jeg á móti þeim því nær öllum. Jeg lít svo á, að verði þetta starf tekið af fræðslunefndum og skólanefndum, þá fari ekki að eins svo, eins og háttv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram, að þetta verði í framkvæmd þunglamalegra og erfiðara, heldur muni og aðrar og verri afleiðingar verða af því. Skólanefndir verða miklu tómlátari en áður var, og fræðslustörfin þeim minna áhugamál, enda þær þá lítils ráðandi, og kennarar ef til vill skipaðir í trássi við þær, en ábyrgðin öll hjá stjórninni. Auðvitað eiga þær eftir brtt. nefndarinnar að hafa eftirlitið á hendi og hlaupa undir baggann þegar stjórnin getur eigi annast framkvæmdir, sbr. 4. gr., en það er eigi nægilegt. Þær verða að vera aðal-„faktorinn“ í þessu starfi, og með fullri ábyrgð; ella má gera ráð fyrir, að starfið verði afrækt og áhuginn rjeni.

Jeg hefi sjálfur haft talsverð kynni af þessum málum heima í mínu hjeraði og þar nærlendis, og hafa mjer virst fræðslunefndir yfirleitt leggja mikla rækt við þetta starf, og því meir, sem þeim hefir lærst betur að hagnýta sjer fræðslulögin frá 1907 og laga framkvæmd þeirra í hendi sjer. Auðvitað verður að kannast við, að lögin mættu mótspyrnu sumstaðar í fyrstu, en hún fer minkandi og hjeruðunum lærast aðferðir til að framkvæma þau, sem geta verið breytilegar, eftir staðháttum, frá einum stað til annars.

Aðalatriðið er að draga ekki úr þeim áhuga, sem vaknaður er um fræðslumálin úti um bygðir landsins, með smámunalegum eða naglalegum ákvæðum um form og fyrirkomulag á framkvæmdinni.

Jeg skal ekki rekja einstaka liði í þeim brtt. nefndarinnar, er stafa af aðalbreytingunni; jeg er mótfallinn þeim öllum.

Að því er snertir 7. tölulið í brtt. nefndarinnar, þá felli jeg mig betur við hann en frv., eins og það liggur fyrir.

Að því er snertir 8. lið, við 8. gr., þá leiðir það af því, sem jeg hefi sagt áður, að jeg felli mig ekki við hana, en tel rjett að samþykkja 8. gr. óbreytta.

Háttv. frsm. (Þorst. J.) tók það fram, að um síðari hluta brtt. við 2. kafla frumvarpsins væri jeg nefndinni sammál. Þetta er ekki fullkomlega rjett. Jeg hefi aldrei lýst fullkomnu samþykki mínu á seinni hluta brtt. Þar hafa á tveim stöðum fallið undan hjá ritara nefndarinnar breytingar, sem samþyktar voru í nefndinni og jeg tel ómissandi. (Þorst. J.: Til dæmis?) Þar átti að standa í 9. og 12. gr., á eftir „Farskólakennarar“: og eftirlitskennarar við heimilafræðslu. Þessu er á báðum stöðum slept, fyrir vangá eða hirðuleysi ritara. Því er nú svo komið í sveitum sumstaðar, að farskólakenslan, sem hafin var eftir þeim fræðslulögum, sem nú eru í gildi, hefir tekið þeim stakkaskiftum, að tekin hefir verið upp eftirlitskensla í stað farskólakenslunnar, eða þá jafnhliða henni. Þetta er aðferð, sem fræðslunefndir hafa fundið upp hin síðustu árin, af því að þeim hefir virst farskólakenslan ófullnægjandi og verða til þess að draga úr áhuga sjálfra heimilanna á að uppfræða börnin. Aðferðin er að láta hæfan mann ferðast um og húsvitja tiltölulega oft, og aðstoða á þann veg við kensluna á heimilunum. Þess vegna lagði jeg til, að skotið væri inn á þessum tveim stöðum eftirlitskennurunum, svo að þeir mættu njóta sömu vilkjara, ef vilkjör skyldi kalla, sem ætluð eru farskólakennurum. Af því að svona slysalega hefir til tekist fyrir ritara nefndarinnar, að þetta hefir fallið burt, verður því ekki við bjargað nema með brtt. við 3. umr.

Jeg get lýst yfir því, að jeg er að öðru leyti samþykkur brtt. nefndarinnar við 9. gr., en aftur er jeg ekki með öllu samþykkur brtt. hennar um dýrtíðaruppbótina. Jeg get tekið þar í sama streng og hæstv. forsætisráðherra, að jeg álít nokkuð langt gengið með því, að velta allri þessari byrði yfir á landssjóð.

11. lið brtt., um að bæta inn nýrri grein, er jeg fullkomlega samþykkur.

Um ákvæðið um stundarsakir ætla jeg ekki að tala. Það var bent á það af hæstv. forsætisráðherra, að framkvæmd þess geti orðið nokkuð örðug. Kannast jeg við það. En það var af sanngirnisástæðum, að jeg fjelst á þetta atriði í nefndinni.

Í fám orðum sagt er afstaða mín sú, að jeg aðhyllist stjórnarfrv. með þeim breytingum, sem jeg hefi tekið fram að jeg gæti aðhylst. En yfirborðið af brtt. falla mjer ekki í geð, og mun jeg greiða atkv. á móti þeim.