05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

0860Pjetur Jónsson:

Það er einungis 10. brtt. nefndarinnar, sem jeg ætlaði að gera athugasemd við, en hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir nú mælt á móti þeirri brtt. af alveg sömu ástæðu og jeg hafði hugsað mjer að færa móti henni.

Jeg geri sem sje ráð fyrir, að þessi brtt. hafi mikla peningalega þýðingu fyrir ríkissjóð. Er þess vegna rjett að taka nú til verulegrar íhugunar, hvort rjett sje eða sanngjarnt að láta alla þessa fúlgu lenda á landssjóði er dýrtíðaruppbót kennara nemur.

Jeg vil taka undir það með hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að gjaldþol sveitar- og bæjarfjelaga mun ekki vera neitt lakara en landsins sjálfs, heldur þvert á móti. Þess vegna er ekki rjett að ljetta af sveitar- og bæjarfjelögum og leggja á landssjóð það, sem þar á ekki beinlínis heima. Ástæður nefndarinnar fyrir því, að dýrtíðaruppbótin skuli greidd úr ríkissjóði, eru mjög bágbornar. Hún segir: „enda er það samkvæmt venju þeirri, sem orðið hefir þessi ár, sem dýrtíðaruppbót hefir verið veitt.“

Jeg held að menn ættu að muna, hvernig ákvæðið um dýrtíðaruppbót til barnakennara o. fl. kennara komst inn í þingsályktunartill. 1916–’17 og síðan inn í dýrtíðarlögin. Það er síður en svo til eftirbreytni og hefir hvorki verið lengi nje vandlega hugað.

Mjer finst yfir höfuð þessi tilhneiging háttv. þm. til að ýta sem mestum gjöldum af hjeruðum og sveitum yfir á landssjóð, í alla staði lítilfjörleg og leiðinleg. Þegar farið er að koma á landssjóð miklu af framfæri barnanna af höndum foreldrunum, þá þykir mjer skörin tekin að færast upp í bekkinn. Með því er stofnað til þess fyrirkomulags á mannfjelaginu, sem varla miðar til farsællar menningar. En jeg tel fræðslukostnaðinn til framfæris barnanna rjett eins og matinn og annað, sem börnin þurfa til að ná fullum þroska. Hitt er miklu nær, og væri vel að kæmist á, að landssjóður eða opinberar landsstofnanir taki að sjer að annast þá, er fyrir aldurs sakir eða einhverra slysa verða öryrkjar og fara á sveitina. Það væri rjett, að komið væri upp einhverri landsstofnun, svo að landið alt tæki að sjer að annast framfæri þessara manna, sem eytt hafa kröftum sínum að öllum jafnaði til þjóðþrifa. Sú hugsun er eins göfug og hin er ógöfug. Í þessa átt miða t. d. alþýðustyrktarsjóðir. En jeg held, að það væri rjett, að þetta spor væri sem fyrst stigið til fulls; þá er því ljett af sveitarfjelögunum, sem rjett er að ljetta af þeim, og þá er ljett þeirri smáu af mönnum, sem búnir eru að slíta sjer út, að þeir þurfi að fara á sveitina að starfslokum. Vil jeg beina því að þeim mönnum, sem ýta nú þessum tota hjer, að snúa sjer heldur að hinu.

Það væri líka nær, að ríkissjóður styrkti meir byggingu góðra skólahúsa heldur en sjálft skólahaldið. Það er ekki ljett í litlum fræðsluhjeruðum að koma upp húsum, hæfum til skólahalds og heimavista. En það er nauðsynlegt, að þau hús sjeu í alla staði góð. Hefi jeg stutt það á þingi að landssjóður legði þar til fje, einkum þó í sveitum. Aftur er engin ástæða til að leggja sveitum að öðru leyti meira til barnafræðslu en bæjum. Að því leyti er jeg samþykkur frv.

Þetta var aðalatriðið fyrir mjer. Um eftirlitskensluna skal jeg geta þess, að jeg tel ilt að sleppa henni úr frv. Þess vegna mun jeg styðja tillögu, sem fram kann að koma við 3. umr., um að bæta henni inn í frv. Þegar eftirlitskenslustörfin eru stunduð af góðum mönnum, hygg jeg, að þau standi næst okkar gömlu heimilisfræðslu og styðji hana og viðhaldi betur en skólarnir.