05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hafði það meðal annars að athuga við brtt. launanefndarinnar, að það gæti orðið erfitt, ef óhæfir menn kæmust að skóla, að semja um það skýrslu til stjórnarráðsins og senda hana. Yrði því seinlegt og vafningasamt að koma slíkum mönnum aftur frá starfinu. Ef um það væri að ræða, að svo mikil brögð væru að vanrækslu og illu framferði einhvers kennara, sem líklega kæmi þó sjaldan fyrir, þá liggur þó sími um alt land. Gæti þá skólanefnd látið stjórnarráðinu í tje nauðsynlegar upplýsingar í símskeyti.

Ef um sjúkdómshættu er að ræða, má kennarinn ekki halda áfram að kenna við skólann. En ef hann gerði það, ætti hann á hættu, að mál væri höfðað gegn honum og að hann kæmist undir hegningarlögin.

Þá fanst hæstv. forsætisráðh. (J. M.) ekki rjett, að dýrtíðaruppbótin væri goldin úr ríkissjóði. Um það má lengi deila, en ekki gátu rök hans sannfært mig.

Hvað það snertir, að ríkissjóður sje síður fær um að greiða þessa dýrtíðaruppbót en sveitarsjóðirnir, þá má deila um það fram og aftur. En gjaldendum landsins virðist mega á sama standa, hvort þeir greiða gjöld í ríkis- eða sveitarsjóð.

Viðvíkjandi athugasemd hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um launaákvæðið um stundarsakir skal jeg taka það fram, að jeg get fallist á, að sú breyting sje á því gerð, að það næði að eins til þeirra kennara, er fullnægja kröfum l. gr., um þá kennara, er fengið geta störf við fastaskóla og farskóla. Skal jeg bera þessa breytingu undir nefndina.

Næst skal jeg þá snúa mjer að háttv. þm. Borgf. (P. O.) Hann fann það fyrst máli þessu til foráttu, að þessi nefnd hefði fjallað um það. En það er auðvitað deildarinnar sök að hafa vísað málinu þangað, því ekki hefir nefndin tekið það neinu valdstaki. Um hitt skal jeg ekki deila, hvort mentamálanefnd hefði farið betur með málið eða ekki.

Það, sem háttv. þm. (P. O.) hafði þó einkum út á till. að setja, var það, að bæði stj.frv. og nefndin ætlaðist til þess, að veitingarvaldið verði dregið úr höndum skólanefndanna og fengið fræðslumálastjórninni, og hann talaði um það í þessu sambandi, að veitingarskilyrðin væru óhæfileg Honum fanst það óhæfa ef góðir menn, sem kæmu úr verslunar- eða mentaskóla, gætu ekki fengið starf við barnakenslu. En jeg vil benda honum á, að tæpast er við því að búast, að menn frá þessum skólum sæki um barnakenslu nema þá því aðeins að þeir hafi ekki getað fengið störf við það, sem þeir hafa lært til — og eru þetta sjaldnast þeir úrvalsmenn að eftirsókn sje eftir þeim. Annars er um veiting þessara starfa ekki ósvipað að segja og t. d. um veitingu presta- eða læknaembætta. Jeg get vel ímyndað mjer, að til sjeu ýmsir menn, sem ekki hafa lært guðfræði, en væru fullvel færir um það, að gegna flestum prestsverkum svo, að menn fyndu ekki ýkjamikinn mun á þeim og lærðum prestum. Sama er um lækna. Það er vitanlegt, að margir próflausir menn fást við lækningar og það svo, að fjöldi manna hefir meiri trú á þeim en lærðum læknum. Jeg segi ekki þar með, að jeg trúi svo á þessa lækna, en jeg segi það til samanburðar fyrir háttv. þm. Borgf. (P. O.). Jeg þykist vita, að hvorki hann nje aðrir vilji ganga inn á þá braut að fara alment að veita ólærðum mönnum læknisleyfi. En er þá nokkru meiri ástæða til þess um kennara? Benda má líka á það að alstaðar þar sem fræðslumál eru í besta lagi, svo sem í Danmörku og Þýskalandi, er kennarapróf sett sem skilyrði fyrir barna- og unglingakennarastarfi, og sama hefi jeg heyrt að eigi sjer stað í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna.

En ef á annað borð á að fara að sleppa lausum taumunum í þessum efnum, þá er eins gott að hallast undir eins að þeirri till. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að leggja niður kennaraskólann. En við, sem einhverja nasasjón höfum af barnafræðslu, skiljum það, að þó sumir sjeu fæddir kennarar af guðs náð, þá er allur þorri kennara það ekki, og þess vegna eru þeir óhæfir, ef þeir hafa ekki lesið eitthvað sjerstaklega til að búa sig undir þetta starf, svo sem uppeldisfræði.

Þá talaði háttv. þm. (P. O.) um það, að sjer þætti hart, að kennari sem t. d. hefði veikst eitt ár, fengi ekki að halda áfram starfi sínu. En slíkt kæmi ekki til. Slíkt yrðu auðvitað talin lögmæt forföll. — Ef maðurinn væri veikur heilt ár í einu fimta hvert ár, og væri mjög lengi búinn að vera kennari er hætt við, að hann væri orðinn svo bilaður, að hann megnaði ekki að hafa á hendi kenslu. Frá minni hálfu stendur ákvæði þetta að eins til þess, að reyna að skjóta loku fyrir það, að kennari hverfi að og frá starfi sínu á víxl, eftir því, sem honum býðst önnur atvinna, sem hann kýs heldur í svipinn.

Þá er veitingavaldið. Háttv. þm. (P. O.) taldi óhæfilegt að fela það fræðslumálastjórninni. Mín ætlun er nú sú, að landsstjórnin færi í þessum efnum eftir till. fræðslumálastjóra, sem er flestum þessum málum kunnugastur og á að bera betra skyn á þau en alment gerist. Það er óþarfi að tala um skriffinsku í sambandi við þessar veitingar öðrum fremur, því engin sjerstök byrði ætti stjórninni að verða að þeim. Háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði að vísu, að þess væru engin dæmi, að fræðslunefndir hefðu valið kennara svo illa, að ástæða væri þess vegna til að taka af þeim veitingarvaldið, og í sama strenginn tók háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Þeir sögðu líka, að áhugi nefndanna á málum þessum mundi minka, ef þetta yrði frá þeim tekið. Jeg vil því í þessu sambandi, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr skýrslu frá fræðslumálastjóranum, þar sem hann skýrir frá sinni reynslu í þessu:

„En sumstaðar hefir kosning í fræðslunefnd tekst svo hrapallega, að ástæða er til að ætla, að það hafi verið gert af ásettu ráði, til að hindra það, að nokkur hlutur yrði gerður fræðslulögunum til framkvæmda“. (Alþt. 1918 A, bls. 42).

Þetta segir nú sá maðurinn, sem kunnugastur ætti að vera málum þessum. Og þó ummæli þessi standi auðvitað á hans eigin ábyrgð, en frekari skýringar fylgi ekki, þá býst jeg við, að fáir rengi þau. (P. O.: Jeg rengi þau). Jeg held líka, að þessi marglofaði mikli áhugi skólanefnda sje víða af skornum skamti. Það væri því ekki eins mikill skaði skeður í því, þótt eitthvað minkaði „áhugi“ nefndanna, hjá því, ef áhugi kennaranna sjálfra minkaði við það, að hafa þessar nefndir einvaldar yfir höfði sjer. Því þó margir menn í þessum nefndum sjeu gáfu- og sómamenn, þá er þekking þeirra á fræðslu- og skólamálum að ýmsu leyti ónóg, eins og líka er við að búast, þar sem margir þeirra hafa sjálfir aldrei komið í neinn skóla. Það er þess vegna tæpast hægt að gera kröfu til þess, að þeir sjái einir fyrir þessu mesta vandamáli þjóðfjelagsins. Því með rjettu verður því ekki mótmælt, að best sje, að veitingavaldið, á hvaða starfi sem er, sje hjá þeim, sem mesta hafa þekkinguna á því starfi.

Og auðvitað á fræðslumálastjórinn að vera mjög vel að sjer í öllum uppeldismálum, og sama á að verða um kennara, svo að þegar launakjör þeirra eru orðin sæmileg, á að vera unt að fá sæmilega menn í þá stjett, ef ljós þeirra er ekki sett undir mæliker misjafnra fræðslunefnda.

Reyndar stendur alt þetta mál í nánu sambandi við það, hvort menn hallast heldur að því, að dreifa valdinu í fræðslumálum á hendur alls fjöldans, eða sameina það sem mest hjá einstökum mönnum. En það fyrra tel jeg fyrir mitt leyti varhugavert að minsta kosti. Jeg er ekki fjarri því, að alræðisvald mundi heppilegast í þessu tilfelli, að mestu leyti, ef góður maður veldist til að fara með það.

Enn fremur þótti háttv. þm. Borgf. (P. O.) hart að ákveða 6 mánaða farskólakenslu. En fræðslumálastjóri hefir talið óheppilegt, að kennarar hefðu skemri starfstíma en þetta, og bent á, að ef lítið væri að gera handa kennara í einni sveit, gætu tvær slegið sjer saman. Á þennan skilning hefir nefndin fallist.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) fann einnig að því ákvæði 1. gr., að ekki mætti veita próflausum manni kennaraembætti, þó hann hefði verið settur til þess að gegna því, jafnvel í fimm ár. En jeg held, að þetta geti tæpast komið fyrir, að maður verði settur svo lengi. En ef svo væri, og hann reyndist vel, ætti eftir mínum skilningi að mega veita honum starfið. Háttv. þm. (P. O.) taldi það eiga að vera nægilegt að hafa góð meðmæli. En jeg býst þó við, að hann viti það vel, hvernig flest þessi meðmæli eru til orðin. Þau eru gefin í greiðaskyni, og þarf að nota þau með mikilli dómgreind.

Þá hefir háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) lagt ekki litla áherslu á það, sem hann kallar stórvægilegasta atriðið í þessu öllu, sem sje eftirlitskensluna. Það mun vera rjett, að kensla þessi sje nokkuð að aukast. En vafasamt hygg jeg, að hún sje annari kenslu betri, eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hafa viljað halda fram. Hún hefir undir mörgum kringumstæðum reynst kákkensla, eins og við var að búast. Það er sem sje ekki hægt að ætlast til þess, að kennari, sem að eins kemur á bæ og bæ við og við, geti haft þau uppalandi áhrif, sem dagleg umgengni hefir í för með sjer hjá góðum kennara. En það er einmitt sá þáttur kenslunnar, sem mestu varðar. Börn geta ekki verið lærðir menn. Það er ekki lærdómurinn, sem er aðalatriðið, og einhver góður maður hefir sagt, að mentun væri það, sem eftir væri, þegar menn hefðu gleymt öllum lærdómi. En þetta sjest mönnum yfir hjer, enda hefir áhuga manna á kenslumálum og skólahaldi stórhrakað á síðustu árum, og fræðslunefndir víða gert sitt til þess, að haldaskólunum niðri. Veldur þessu að vísu stríðið og erfiðleikar, sem af því hafa stafað.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) virðist gengið hjer inn á nýja braut, með því að taka framfærsluskyldu barna af sveitarfjelögunum og skella henni yfir á ríkissjóð. En jeg sje nú ekki, að sveitunum beri meiri skylda til að menta börnin en ríkinu í heild. Það ætti að koma nokkurn veginn í sama stað niður — meðan þess er ekki krafist, að forráðamenn barnanna sjái sjálfir fyrir kenslu þeirra barna, er þeir sjá um, og kosti hana einir.

Jeg álít þvert á móti, að það sje skylda þjóðfjelagsins að sjá sem mest fyrir barna- og unglingafræðslu. Ef það rækir þá skyldu vel, þá elur það upp handa sjálfu sjer góða borgara.