06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Gísli. Sveinsson:

Jeg skal ekki blanda mjer í orðræður þeirra hv. frsm. (Þorst. J.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.) um ýms ákvæði í frv. þessu.

En jeg á hjer brtt., sem jeg vildi mæla lítið eitt með. Held jeg þó, að hún mæli með sjer sjálf. Það er að eins dálítil breyting við launaákvæði frv., sem háttv. nefnd hefir engar breytingar gert á.

Jeg er nú alls ekki ósammála hæstv. stjórn, að launaákvæðin sjeu yfirleitt hæfileg. Að eins þykir mjer of mikill munur gerður á flokkum eftir 9. gr. frv.

Þar er í fyrsta lagi það ákvæði, að forstöðumenn barnaskóla í kaupstöðum hafi 2000 kr. laun á ári, en kennarar við þá skóla 1500 kr. Í b. lið 9. gr. er svo ákveðið, að forstöðumenn barnaskóla utan kaupstaða skuli hafa 1500 kr. árslaun, en kennarar við þá skóla 1200 kr.

Hjer finst mjer ekki rjett að gera svo mikinn mun á forstöðumönnum skólanna eftir því, hvort þeir eru í kaupstöðum eða utan.

Kaupstaður er, eins og menn vita, ákveðið hugtak, sem táknar kauptún, sem hefir kaupstaðarrjettindi að lögum. En hins vegar er fjöldi annara kauptúna, sem hafa mannfjölda allmikinn og þá auðvitað barnafjölda líka.

Það verður því mjóst á mununum um ábyrgð forstöðumanna kaupstaðaskólanna og hinna. Það er því alls ekki rjett að gera þá svo miklu rjetthærri.

Þess ber líka að geta, að við skólana utan kaupstaða starfar oft að eins einn maður, í mesta lagi tveir.

Það gefur því að skilja, ef kennarinn er einn, að þá verður hann að vinna margfalt meira en tíðkast við kaupstaðaskólana, þar sem oft eru margir kennarar. Og sjerstaklega er það áberandi þegar þess er gætt, að forstöðumenn skólanna t. d. í kauptúnum eiga að hafa jöfn laun og einfaldir kennarar við kaupstaðaskólana.

Þeir hafa að eins kensluna á hendi, oft ekki nema í einum bekk, en enga ábyrgð ella. En hinir hafa ábyrgðina, og auk þess oft og einatt alla kensluna í öllum bekkjum.

Störfin verða því ekki lögð að líku.

Jeg hefi því leyft mjer að leggja það til, að laun forstöðumanna við skóla utan kaupstaða verði hækkuð upp í 1800 kr., og verða þau þá næstum mitt á milli launa forstöðumanna og kennara við kaupstaðaskólana.

Laun kennara við skóla utan kaupstaða vil jeg, í samræmi við það, færa úr 1200 kr. upp í 1400 kr.

Og jeg þykist mega vænta þess, að háttv. deild líti með sanngirni á þessar breytingar og kannist við, að þær sjeu rjettmætar.

Það, sem mest er deilt um hjer, að því er málið sjálft snertir, virðist vera það, hvar völdin eigi að vera til þess að ráða kennara og víkja þeim frá.

Nefndin leggur til, að þau völd sjeu aðallega í höndum stjórnarráðsins, og er það gagnstætt því, sem verið hefir.

Þetta getur verið álitamál. En því verður ekki neitað, að þar sem ríkissjóður á að bera byrðar af kenslunni, þá sje æskilegast, og enda bein afleiðing, að stjórnarráðið hafi hönd í bagga með.

En hins vegar getur það verið varhugavert að draga þetta vald algerlega úr höndum fræðslu- og skólanefnda.

Mjer þykir því helst til vægilega að orði komist í 2. brtt. nefndarinnar, þar sem sagt er, að stjórnarráðið veiti stöðuna, eftir að það hefir leitað meðmæla skóla- eða fræðslunefndar.

Hitt hefði verið betra, að stjórnarráðið, þótt það að forminu til hafi veitingavaldið, væri skyldugt til að fara eftir till. þeirra.

En þetta mætti laga með lítils háttar orðabreytingu, og þar sem jeg tel víst, að háttv. nefnd meini þetta, þá vona jeg, að hún geri þá lagfæringu fyrir 3. umr., ef till. hennar komast svo langt.

Jeg fellst líka á það, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að ef ríkar ástæður eru til að víkja kennara frá um stundarsakir, þá megi gera það án íhlutunar stjórnarráðsins. Það þarf ekki að vera nein mótsögn í því, að skóla- eða fræðslunefndir hafi vald til þess, þegar það er að eins um stundarsakir. En auðvitað verður að leita fullnaðarsamþykkis stjórnarráðsins, ef víkja á manninum frá fyrir fult og alt.

Vona jeg svo, að háttv. nefnd verði fús til að athuga þetta fyrir 3. umr. málsins, ef til þess kemur.