06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg þarf litlu að bæta við það, sem jeg hefi áður sagt um þetta, en vildi að eins svara með fáum orðum háttv. þm. Borgf. (P. O.), af því mjer fanst kenna nokkurs misskilnings í ræðu hans. Hann tók það rjettilega fram, að kennarar þyrftu góða undirstöðumentun. Jeg er þar á sama máli. En mjer fanst hann skilja dálítið annað við orðið undirstöðumentun en jeg. Það er alveg rjett, að prestar veittu áður fræðslu, og mjer dettur ekki í hug að neita, að það var oft gert með góðum árangri. En hv. þm. verður að gá að því, að þótt prestar hafi eitt sinn þótt góðir barnafræðarar, þá er ekki þar með sagt, að þeir sjeu þeir heppilegustu menn, sem hægt er að fá til þess nú. Því á síðustu tímum hefir myndast alveg ný fræðigrein í kenslumálum, sú fræðigrein, sem kölluð er uppeldisfræði. Þessi fræðigrein hlýtur að koma til greina við kenslu barna í hverri fræðigrein sem er. Hún er undirstaðan undir allri barnafræðslu. Og maður, sem á að kenna, en kann ekkert að fara eftir grundvallaratriðum uppeldisfræðinnar við kensluna, er ófær kennari. Þetta á við hvaða námsgrein sem er, jafnt við söng og teikningu eins og t. d. uppfræðslu í kristnum fræðum eða reikningi.

Jeg held fast við það, sem jeg hefi áður sagt um fræðslunefndirnar, að þær eru ekki allar starfi sínu vaxnar, þó að margar sjeu góðar. En um fræðslumálastjórann vil jeg ekki tala á sama grundvelli og hv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um hann, álít ástæðulaust að draga þann ágæta mann inn í umræðurnar á þann hátt, sem þm. vildi.

Ef maður athugar aðstöðu heimilanna til skólanna og kenslunnar nú og fyrrum, þá er hún gerbreytt orðin. Áður voru sveitaheimilin venjulega fjölmenn; þar var einatt gnægð manna til allra starfa, og vanst því miklu meiri tími til barnafræðslu þá en nú. Auðvitað var sú fræðsla víðast mjög einhæf og ófullkomin. Nú eru heimilin fámenn að vinnandi fólki; þess vegna hefir fólkið meira en nóg að gera og er altaf önnum kafið við heimilisstörfin. Hitt er rangt, að jeg hafi nokkurn tíma skoðað það skólanna hlutverk að draga alla fræðsluna frá heimilunum. Jeg álít þvert á móti, að skólarnir eigi að vinna saman með heimilunum að uppeldi barnanna og fræðslu. Enda mun líka mjög oft vera raunin sú að heimilin láti börnunum meiri fræðslu í tje, ef þau ganga í skóla, en ef þau eiga að eins að nema heima. Að minsta kosti verður þetta, ef góð er samvinna milli skólanna og heimilanna.

Jeg tók það fram gegn þeirri ástæðu, að alþýðumentun í landinu hefði hrakað nú síðustu árin, að það væri af völdum styrjaldarinnar og dýrtíðar, sem sorfið hefir að mönnum undanfarið, svo menn hafa miklu síður haft tækifæri til að leita sjer mentunar. En þessu gekk hv. þm. Borgf. (P. O.) alveg fram hjá.

Sama fjarstæðan er það líka, að jeg hafi sagt, að allir sem í kennaraskólann gengju, yrðu kennarar af guðs náð. Auðvitað eru menn þaðan misjafnlega upplagðir til kenslu, og hefir mjer aldrei dottið í hug að halda öðru fram.

Þá bar hv. þm. Borgf. (P. O.) mjer það á brýn, að jeg legði svo mikið upp úr prófunum. Jeg hefi aldrei talið það neitt aðalskilyrði, þótt fara verði eftir prófunum, svo maður hafi eitthvað við að miða. Prófin eru meðmæli, en auðvitað misjafnlega áreiðanleg, eins og önnur meðmæli.

Jeg get verið samþykkur brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). En alt þetta mál er svo vandasamt og merkilegt, að full ástæða hefði verið til að rannsaka það miklu nánar en tök hafa orðið á nú hjer í þinginu.