06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

0866Sveinn Ólafsson:

Mjer er ant um þetta mál, og geðjast ekki að þeim breytingum, sem hjer er lagt til að gera á skipun fræðslumálanna. Með breytingunum er að mínu áliti spilt því starfi, sem fræðslunefndir hafa haft með höndum, því að ef nú verður tekin upp sú tilhögun, að leggja þetta eftirlitsstarf að nokkru undir stjórnina, þá hverfur áhuginn hjá fræðslunefndunum fyrir því, að leysa það vel af hendi, og áhyggjunum verður varpað á herðar stjórninni, sem skilyrði brestur til að taka að sjer verk fræðslunefnda. Jeg álít þetta atriðið í brtt. samvinnunefndar launamála miklu meira vert en breytinguna á launakjörum kennara, og unnið fyrir gýg, ef fræðslunefndirnar eiga framvegis að vera ábyrgðarlaus skuggi fræðslumálastjórnar við fræðslustarfið.

Mig furðar mikillega á stóryrðum þeim, sem fallið hafa hjer um þetta mál. Þannig komst hv. frsm. (Þorst. J.) svo að orði, að fræðslunefndir hafi blátt áfram dregið úr fræðslustarfinu og hamlað því.

Slík fullyrðing er tæpast sæmandi. Sjeu þess einhver dæmi, að fræðslunefndir hafi svo freklega vanrækt skyldu sína, þá eru það undantekningar, sem óviðurkvæmilegt er að tala um eins og reglu. Það er jafnfráleitt eins og að segja eiturbyrlun almenna hjer á landi, af því að við þekkjum eitt dæmi þess, að andlega vanheil, ólánssöm kona bruggaði bróður sínum banaráð með eitri hjer í bæ fyrir fáum árum.

Það má svo heita, að í þessu frv. sje alveg gengið fram hjá því, að bæta kjör farskólakennaranna. Það er eins og menn hafi hálfgerða ótrú á þeim. Allir einblína á föstu kennarana og skólana, og fyrir þá er þessi nýja skipun gerð, en sveitunum, með sínum sjerstöku kensluháttum, enginn gaumur gefinn, og þó vita allir, að strjálbygðin þar aftrar skólahaldi í vanalegum skilningi, og þar getur víða hvar engin önnnr aðferð en farskólakenslan komið til greina, eða þá eftirlit með heimilafræðslu, þar sem skólaskyldan og fræðslufálmið nýja hefir ekki enn lagt í rústir heimilafræðsluna fornu. Kjör farkennara og eftirlitskennara hafa með frv. þessu að litlu leyti bætt verið, en ef til vill hvílir nú ungmennafræðslan einna þyngst á þeim, og ekki er þeirra starf óverulegasti þátturinn í fræðslustarfinu.

Hv. frsm. (Þorst. J.) ljet svo um mælt, að skólarnir ættu að vera meðhjálp heimilanna við uppeldið. Þetta er laukrjett. En það segir jafnframt, að heimilin eiga að annast verkið — en ekki að varpa því frá sjer — og njóta til þess styrks skólanna. Einmitt fyrir þessa skuld verður að hlúa að heimilafræðslunni, uppeldisstarfinu þar, og þeim, sem hjálpar heimilunum til að rækja þetta starf beinlínis, eins og eftirlitskennarar gera.

Mjer var ánægja að heyra, hvernig hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók í þetta mál, því hann var mjer sammála í því atriðinu, sem jeg tel mestu varða, um stjórn og meðferð fræðslunefnda og skólanefnda til sveita um fræðslustarfið. Þess vegna ætla jeg að gera ráð fyrir, að brtt. við 3. og 4. gr. verði feldar.