09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt., sem fer í líka átt og sú, sem ekki náði fram að ganga við síðustu umr., sem sje að nokkuð sjeu hækkuð laun kennara og forstöðumanna skóla utan kaupstaða. Þessi till. er á þgskj 710, og sem framhald á þgskj. 746. Jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn fallist á, að í stað 1500 kr. komi 1600 kr.; það munar að eins einu hundraði, og jeg býst við, að mörgum þyki jafnvel of vægt farið í sakirnar. Þegar þess er líka gætt, að einfaldir kennarar í kaupstöðum hafa 1500 kr., þá virðist ekki nema sanngjarnt, að forstöðumenn skóla utan kaupstaða hafi 100 kr. meira í kaup fyrir þá ábyrgð, er á þeim hvílir fram yfir hina. Starf þessara manna er líka oft meira, vandasamara og erfiðara heldur en starf kaupstaðakennara, eins og jeg hefi áður sýnt fram á.

Svo er hin brtt., á þgskj. 746, þar sem farið er fram á, að 12. gr. frv. verði breytt. Fyrsti liðurinn á þgskj. er settur til skýringar, svo að ekki geti orkað tvímælis, að þjónustualdur þeirra skuli vera reiknaður frá þeim tíma, er þeir urðu fastir kennarar, en ekki frá þeim tíma er þeir voru ráðnir við skólann, eftir að lögin koma í gildi. Annar liðurinn er efnisbreyting, um að launahækkunin fari ekki fram 4. hvert ár, heldur 3. hvert ár, og er það í samræmi við launahækkun annara starfsmanna, samkvæmt launafrv. embættismanna. Þriðji liðurinn er í beinu sambandi við brtt. mína á þgskj. 710, er jeg fyr talaði um. Þar er gert ráð fyrir, að launin hækki 3. hvert ár, ekki um 100 kr., heldur um 150 kr., og að hámarkið verði ekki 500 kr., heldur 750 kr. Þessi hækkun á ekki að koma frá hjeraðinu, heldur frá ríkissjóði, eftir því sem frv. sjálft gerir ráð fyrir. Býst jeg við, að ef það er talið rjettmætt, að ríkissjóður greiði eitthvað að mun til uppihalds fræðslu barna, þá verði þetta talið rjettlátt, hvað sem svo dýrtíðaruppbót stjórnarinnar líður.

Annar hluti brtt. er orðabreyting, að niður falli „til stjórnarráðsins“. Þessu mun sem sje vera ofaukið. þar sem áður hefir verið ákveðið, að kennarar skuli ekki skipaðir af stjórnarráðinu.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) á brtt. á þgskj. 750 og fer þar fram á að losa landssjóð við gjöld, sem hann yrði annars að greiða samkvæmt frv. Hann vill að kotnaðurinn greiðist úr bæjar- eða sveitarsjóðum. Til andsvara má geta þess, að um svo mikla hækkun er að ræða, að sveitarsjóðum yrði algerlega ókleift að klífa þann kostnað, eins takmarkaðar og tekjulindir þeirra eru. Það verður því ekki hjá því komist, og er enda í alla staði sanngjarnt, að landssjóður taki hlutdeild í þeim kostnaði. Ef alt þetta ætti að dembast á sveitarsjóðina, þá væri það í mörgum tilfellum það sama og að leggja alla kenslu niður, ekki síst þegar þetta á að koma til framkvæmda þegar í stað.

Það er viðurkend skylda þjóðfjelagsins að annast fræðslumál, þó einstaklingar og sveitarfjelög beri þar bróðurpartinn. Það getur því engri átt náð, þegar farið er fram á að hækka laun kennara, að ljetta því öllu af ríkissjóði. Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessu enda býst jeg ekki við, að hv. deild geti fallist á till. hv. þm. (M. G.).