17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Eggert Pálsson):

Frv. þetta miðar til þess að bæta að nokkru leyti kjör barnakennara, og því mun enginn mótmæla, að þeirra umbóta sje þörf.

Því er ekki að neita, að margur hefir lifað við erfið kjör á síðustu árum, en jeg held þó, að flestir muni fallast á, að kjör barnakennara hafi þó verið bágbornari en kjör flestra annara stjetta. Hins vegar játa þó allir, að stjettin sje þörf og megi als ekki missast. En ef menn viðurkenna þetta hvorttveggja, er ekki annað fyrir en að reyna að bæta kjör stjettarinnar svo, að þau verði viðunandi. Kjör stjettarinnar eru nú svo bágborin, að engin von er um, að nýtir menn veljist þangað í framtíðinni, ef þessu sama vindur fram. En það væri hinn mesti skaði fyrir þjóðfjelagið ef barnauppeldi og kensla á næstu árum á að vera í höndum ónytjunga, sem als enga aðra úrkosti eiga sjer.

Það er að vísu ekki fyrst nú á þessu þingi, að menn hafa fundið til þessa. Umbóta tillögur í sömu átt sem þetta frv. innibindur hafa komið fram á þinginu fyr en nú. En þær hafa ekki fengið nægilegan byr, enda hefir tæplega verið hægt að ætlast til þess meðan ekkert var gert til að bæta kjör annara stjetta, sem þingið átti að sjá farborða. En nú er svo komið, að gera má ráð fyrir, að aðrar stjettir í þjónustu hins opinbera hljóti allríflegar launabætur, og væri þá fjarstæða að hugsa sjer, að barnakennarar yrðu einir hafðir út undan.

Frv. er upphaflega komið frá stjórninni, og hefir ekki annað heyrst en að barnakennarastjettin muni sætta sig við það yfirleitt. Samvinnunefnd beggja deilda í launamálinu gerði á frv. talsverðar breytingar, og voru sumar þeirra samþ. í háttv. Nd., en aðrar ekki. Það er óþarft að ræða um þær breytingarnar, sem þegar hafa verið teknar til greina af háttv. Nd. Jeg mun því aðallega minnast á þær brtt. samvinnunefndarinnar, sem ekki hafa hlotið samþykki hv. Nd., og eru þó talsvert mikils verðar. Og voru þær brtt. aðallega tvær.

Önnur þessara brtt. fal í sjer afnám þess ákvæðis, að fræðslunefndin auglýsi kennarastöður, en það skyldi vera hlutskifti stjórnarráðsins. Það sýnist ekki vera nema sjálfsagt, að svo sje, fyrst stjórnin á að veita stöðurnar. Sá, sem veitingarvaldið hefir, á auðvitað að auglýsa hinar lausu stöður, enda er það í öllum öðrum tilfellum reglan. Það vakir og fyrir nefndinni, að losa með því skóla og fræðslunefndir við þetta ómak og umstang, að þurfa að útvega kennarana. Það liggur í augum uppi, að fræðslu- og skólanefndum mundi jafnan um kent, ef mistækist að útvega kennara, eða ef kennararnir reyndust gallagripir. Nefndirnar yrðu því gerðar að nokkurskonar bitbeini, þegar annaðhvort mishepnaðist kennaraval eða þá vantaði. En það gæti orðið til þess, að góðir og hæfir menn fengjust ekki til að vera í þeim. Brtt samvinnunefndar í þessu efni miðaði því að því, að losa nefndirnar við aðfinslur og óþarft stapp.

Þótt hins vegar hv. Nd. hafi ekki viljað fallast á þessa brtt. samvinnunefndar, þá virtist samt meiri hluti efri deildar nefndarinnar þessi brtt. ekki svo þýðingarmikil, að vert væri að taka hana upp að þessu sinni.

Aftur var fult samkomulag um að fylgja fast fram hinni brtt., um að öll dýrtíðaruppbótin skuli greidd úr ríkissjóði, en ekki að einum þriðja úr ríkissjóði og 2/3 úr bæjarsjóði, eða að helmingi úr hvorum, ríkissjóði og sveitarsjóði.

Nefndin lítur svo á, að það sje varhugaverð stefna, sem töluvert hefir orðið vart við í seinni tíð, að hlaða útgjöldum hispurslaust á bæjar- og sveitarfjelögin án tillits til þess, hvort þau eru fær um að rísa undir þeim. Þessa stefnu mætti til sanns vegar færa, ef sveitar- og bæjarfjelögum væri gefin heimild til að leggja gjöldin á eftir því sem best þætti henta eða þeim lagðir upp í hendur nýjir tekjustofnar, jafnframt því sem þeim eru bundnir baggarnir. En það fer fjarri því, að svo sje gert. Á undanfarandi þingum hafa þvert á móti verið teknar af þeim tekjur, sem þau hafa stuðst við um margar aldir; má þar nefna fasteigna- og lausafjártíundina, sem nú hefði munað töluvert um, vegna þess, hve verðlagsskráin hefir hækkað. Eina úrræði sveitar- og bæjarfjelaga til að standast útgjöldin er að hækka þetta illa þokkaða aukaútsvar. Enginn af tollunum til landssjóðs er jafnörðug byrði hverjum alþýðumanni eins og aukaútsvarsgjaldið. Landssjóður, sem hefir um svo margar leiðir að velja, á því auðveldara með að afla sjer tekna en sveitarsjóðirnir. Og verður það því þjóðinni síst tilfinnanlegra, þótt dýrtíðaruppbótin sje greidd úr landssjóði, og menn greiði þá tilltölulega hærri skatta í hann, heldur en úr sveitarsjóði, og útsvörin, sem eru verst kynt allra skatta, verði þar af leiðandi hækkuð. Nefndin leggur því áherslu á, að þessi brtt. hennar verði samþykt.

Nefndin hefir og komið fram með aðra brtt., en hyggur, að hún muni ekki orka tvímælis. Hún fer fram á að fella burtu eina málsgrein, sem hún taldi óþarfa og jafnvel til ills eins. Það yrði að líkindum þýðingarlítið að margauglýsa sömu stöðuna, sem ekki gengi út. Og síst getur það talist að fara vel með tímann, að auglýsa og auglýsa hvað eftir annað, þangað til orðið er um seinan að grípa til annara ráða til að afla hjeruðunum kennara. Fræðslumálastjóri er í þessu efni á sömu skoðun og nefndin.

Jeg skal svo ekki viðhafa fleiri orð, en vænti þess, að brtt. nefndarinnar fái góðan byr í deildinni og frv. í heild sinni.