17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Kristinn Daníelsson:

Jeg ætla að eins að vekja athygli á, að 1. brtt. er ekki rjett skotið inn í frv. Háttv. deildarmenn geta sjeð, ef þeir líta á 4. gr. frv., að setningin sem á að falla burtu, á ekki að byrja á orðunum: „og skal skólanefnd“, heldur á orðunum: „auglýsa stöðuna“.

Annars vil jeg taka undir með háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að jeg geng að því vísu, að háttv. deild sje ekki á móti brtt. Það gæti oft orðið bagalegt að þurfa að tvíauglýsa stöðuna, og valdið miklum töfum. Það er sömuleiðis rjett hjá háttv. frsm. (E. P.), að öll nefndin er með síðari brtt.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir lagst á móti henni af því, að ríkissjóður eigi að borga dýrtíðaruppbót af þeim launum, sem hann ekki geldur sjálfur. Sje jeg ekki neitt óeðlilegt við það, enda man jeg ekki betur en að ríkissjóður hafi gert slíkt áður. En jeg verð að leggja áherslu á að byrðar sveitar- og sýslusjóða eru orðnar afarmiklar, og altaf er verið að auka þær.

Jeg skal ekki fara út í neinn samanburð á því, hvernig ríkissjóður og sveitarsjóðir fara að afla sjer fjár til almenningsþarfa, en jeg hygg, að þó að landssjóður eigi örðugt með að afla sjer fjár, eigi samt sýslu- og sveitarsjóðir langtum erfiðara með það. Þó að þetta frv. nái fram að ganga, munu þeir sjóðir samt hafa nóg á sinni könnu. Þótt jeg vorkenni landssjóði eftir megni, verð jeg samt að játa, að hann hefir meiri og fleiri ráð en sveitar- og sýslusjóðir.

Jeg þykist vita, að þessi till. muni mæta mótspyrnu í háttv. Nd., en jeg býst ekki við, að hún leggi svo mikið kapp á þetta mál, að hún fari að fella till. háttv. Ed. En þótt svo færi, finst mjer það ekki næg ástæða til þess, að þessi háttv. deild eigi megi halda fram skoðun sinni með fullri einurð.

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg er samþykkur háttv. frsm. (E. P.) um, að síðari brtt. eigi að samþykkja eigi síður en þá fyrri.