17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg er samþykkur háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) um, að 1. brtt. sje ekki rjett skotið inn í frv. Skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp, hvernig setningin verður:

„Nú sækir enginn, sem fullnægir skilyrðinu í 1. gr. í staflið b, um auglýsta kennarastöðu, áður en umsóknar frestur er út runninn, skal nefndin gera ráðstöfun ....“.

Til þess að setningin væri rjett yrði hún að vera svona: „skal nefndin þá gera ráðstöfun“ o. s. frv.

Jeg skal ekki fara út í langar hrókaræður um hag landssjóðs og sveitarsjóða, en minna á það, hve tilhneigingin er rík til þess að velta gjöldum af sveitarsjóðunum yfir á landssjóð, og þegar um slíkt er að ræða, gleyma allir erfiðleikum landssjóðs, enda munu sveitarsjóðir eiga fleiri málssvara hjer, sem ef til vill er mannlegt.