08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg vil hefja mál mitt með því, að þakka hv. deild meðferðina á brtt. nefndarinnar við 2. umr. Hún var svo góð, og andinn í deildinni var svo samkvæmur anda og stefnu nefndarinnar, að slíkt hefir varla þekst áður.

Af brtt. nefndarinnar voru að eins feldar fjórar, af hátt á annað hundrað tillögum, og um sumar þeirra er mjer kunnugt, að þær voru feldar af misskilningi. Til merkis um það, hversu ágætlega fjell saman stefna nefndarinnar og stefna deildarinnar, vil jeg geta þess, að jeg veit ekki til, að af þeim verklegu framkvæmdum, sem nefndin lagði til, hafi nokkurri verið greitt eitt einasta mótatkvæði hjer í hv. deild, og má það heita óræk sönnun fyrir því, hversu vel þær tillögur hafi fallið hv. deild í geð.

Eins og hv. deildarmenn hafa sjeð, hefir tekjuhallinn í fjárlögunum, síðan þau komu frá stjórninni, aukist um tæpar 60.000 kr. Með öðrum orðum, nefndirnar, bæði fjárhagsnefnd og fjárveitinganefnd, sem hafa haft frv. til athugunar, skila því nærri því eins og stjórnin. Auðvitað vantar enn í fjárlögin tekjuhallann, sem verður af hinum væntanlegu launalögum sem samþykt verða á þessu þingi. En það var ekki heldur tekið tillit til þeirra í áætlun stjórnarinnar.

Því hefir verið haldið fram, bæði af hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) og öðrum, að þetta þing væri eitthvert mesta framkvæmdaþing, sem nokkru sinni hefði þekst. Jeg verð að játa, því miður að jeg held, að seinlega gangi að færa rök fyrir þessari staðhæfingu. Það hefði átt að verða framkvæmdasamasta þingið, sem háð hefir verið, því að það er komið í svo mikla skuld við allar framkvæmdir. Og þó að nú sje gert ráð fyrir, að eitthvað verði framkvæmt fyrir lánsfje, þá er það í raun og veru ekki nýtt lán, heldur tilfærsla af lánum, því að svo verður að líta á, að vegagerðir, brýr og símar sem orðið hafa að sitja á hakanum, hafi lánað landssjóði fjeð, og þá auðvitað með því skilyrði, að hann borgaði það síðar. Þetta má skilja bókstaflega um símann, því að af honum hefir á síðustu árum orðið tekjuafgangur, sem orðið hefir á rekstri hans og hefir ekki verið notaður í þágu hans, heldur gengið beint í landssjóðinn. Af þessum ástæðum verðum við að gera ráð fyrir, að á næstu þingum verðum við enn betur að bæta upp þann halla, sem framkvæmdirnar hafa orðið fyrir. Það er því fullkomin ástæða til að undirstrika það verkefni stjórnar og þings, að undirbúa skattamálin svo, að einhverju verði úr að spila fyrir ríkissjóð framvegis.

Þá skal jeg snúa mjer að störfum nefndarinnar. Hún hefir orðið að fara hratt yfir, en þó hefir hún athugað alt, sem þurfti. Þó er ýmislegt enn þá, sem ekki er komið nægilegt samræmi á, sjerstaklega milli launalaganna og þessa frv. En jeg vona, að úr þessu verði bætt, meðan málið er í hv. Ed.

Nefndin hefir nú komið með nokkrar brtt., og ef þær verða samþyktar, hafa þær í för með sjer rúm 70,000 kr. útgjöld. Þá hafa og komið fram frá hv. þm. talsverðar brtt., og sumar þeirra algerlega að óvörum. Ef þær yrðu samþ., yrði gjaldaukinn um 118 þús. kr., en lækkunin 22 þús. kr. Það lítur því svo út, sem hv. þm. hafi ekki ofboðið örlæti fjárveitinganefndar, úr því að þeir vilja heldur bæta við en klípa af útgjöldunum.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um einstakar brtt. nefndarinnar. Þær eru nú ekki margar, að eins fimm við minn kafla. Jeg get tekið till. um læknana, á þgskj. 728, allar í einu. Þessir læknar eru allir kennarar við háskólann, eða að nokkru leyti starfsmenn ríkisins. Sendu þeir í byrjun þings nefndinni beiðni um, að þeir fengju launabætur, í samræmi við launabætur hjeraðslækna yfirleitt. Nefndin fjelst á þetta, en gerir þó ekki ráð fyrir, að þeir fái dýrtíðaruppbót af þessum launum.

Þá kem jeg að 5. lið á þgskj. 728. Er hún þess efnis, að veittar skuli 1000 kr. til þess að ryðja akfæran veg frá Kópaskersvogi inn að Jökulsárbrú. Þessi fjárveiting er raun og veru endurveiting, og var það af misgáningi, að hún kom ekki fram við 2. umr. Erindi þetta var sem sje á sama skjali og annað erindi, en það varaðist nefndin ekki.

Í fjárlögunum 1914–15 var ákveðið að veita til vegar þessa 1000 kr. hvort árið, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar frá. Sýslan taldi sig þá eiga von á, að flutningabraut væri lögð á landsins kostnað á þessu svæði, og vildi ekki leggja neitt á móti. En úr því að sýslan tók þannig í málið, þá fjell fjárveitingin niður. Nú hefir sýslan sjeð sig um hönd og er nú fús á að leggja sinn skerf á móti, og hefir þegar lagt í einhvern kostnað. Hún fer því fram á að fá endurveitt það, sem áður var veitt, svo að vegurinn verði gerður akfær. Nefndin taldi þetta sanngjarnt, en þetta varð að vera sjerstakur liður, en ekki undir akfærum sýsluvegum. Þar eru heimtuð skilyrði, sem þarna er ekki hægt að fara fram á, og þess vegna verður fjárveitingin að vera miðuð við þetta sjerstaka tilfelli, vera staðbundin.

Það er óþarfi að fara fleiri orðum um brtt. nefndarinnar, en vegna þess, að ekki hefir unnist tími til að semja nefndarálit, þá verð jeg að bæta nokkru við, sem ekki stendur í sambandi við neina breytingartillögu.

Nefndinni barst brjef frá 3 útgerðarmönnum, sem síldveiði stunda við Ingólfsfjörð. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp kafla, til þess að skýra það, sem jeg ætla að segja, fyrir nefndarinnar hönd.

Brjefkaflinn hljóðar svo.

„ Á Ingólfsfirði hefir síldveiði verið rekin í ár frá 3 stöðvum, með 11 skipum innlendum, og samtals verið við þann atvinnurekstur um 400 manns. Þar eru nú útmældar lóðir undir 20–30 stöðvar, og eru þær flestar í landareign ríkissjóðs, og sem gefa honum mikil lóðargjöld. Heimsófriðurinn hefir valdið því, að fáar stöðvar eru enn reistar. En það má ganga að því vísu, að þegar á næsta ári verði reistar margar nýjar stöðvar á hinum útmældu lóðum, ekki síst ef vissa væri fyrir símasambandi þangað innan næsta úthalds.

Norðmenn t. d. eiga útmæld þarna á Ingólfsfirði 8 stöðvarstæði, og hefði minsta kosti einni þeirra reist stöð þar og rekið veiði í ár, ef sími hefði verið kominn þangað. Hefir ríkissjóður tapað miklu fje við það, í tunnutolli og útflutningstolli, því báðir þessir útvegsmenn stunduðu veiði þar norður frá í ár og fluttu aflann út, án þess að hann kæmi á land.

Eftir því sem veiði hefir hepnast frá þessum stað síðustu 2 árin, þá lítur ekki út fyrir annað en að Ingólfsfjörður verði framvegis með stærstu og veiðisælustu síldarstöðvum landsins. Reykjarfjörður liggur líka vafalaust vel við síldveiðum, en þó ekki sem Ingólfsfjörður, enda er ekki aðsókn að honum nálægt eins mikil og þar er nú að eins ein síldarstöð.

Að öðru leyti má taka eftirgreind atriði fram, sem mælandi með því, að línan verði strax ákveðin alla leið til Ingólfsfjarðar. Á Reykjarfirði er að vísu gamall verslunarstaður, en verslun er þar fremur lítil, og að eins helmingur við það, sem er á Norðurfirði. Og þar sem útlit er fyrir, að þegar næsta ár verði mörg hundruð manns á Ingólfsfirði við þessa atvinnu, þá hlýtur það að auka samgöngur og verslun að miklum mun þar norður frá. Frá sjálfs hjeraðsins sjónarmiði er íbúatölu á svæðinu Reykjarfjörður–Ófeigsfjörður þannig háttað, að ¾ allra íbúanna ættu hægra með að ná símasambandi, ef línan lægi til Ingólfsfjarðar, um Árnes.

Vegna þess, hve stutt innsigling er á Ingólfsfjörð og Norðurfjörð frá síldarmiðunum, myndu mörg skip leita þangað, til að ná símasambandi, þó þau ekki hefðu annað erindi, og myndi það drjúgum hjálpa til að auka tekjur þessarar símalínu.

Það virðist nú ekki þörf á að taka meira fram til að sýna fram á, að sjálfsagt sje þegar til ákvörðunar um lagningu símalínunnar norðureftir verður að ræða, að ákveða hana strax alla leið til Ingólfsfjarðar. Bæði kallar þörfin ekki síður þangað, og spottinn frá Reykjarfirði myndi vafalaust, þegar í stað reynast þýðingarmikill liður línunnar, ekki eingöngu fyrir hjeraðsheildina og útvegsmenn þar nyrðra, heldur og einnig fyrir tekjur landssímans og ríkissjóðs.

Vjer vonumst því fastlega til, að hv. fjárveitinganefnd, við nánari athugun, sannfærist um rjettmæti þeirrar kröfu, að strax og ákvörðun verður tekin um þetta mál á Alþingi, að línan þó verði ákveðin alla leið til Ingólfsfjarðar.“

Út af þessu vill nefndin láta þess getið, að þó að hún nú ekki hafi lagt til, að veitt yrði fje til símalínu þessarar, svo mikið, að nægði til að koma henni alla leið norður á Ingólfsfjörð, þá telur hún erindi þessara manna bygt á góðum rökum. Vill hún því geta þess, að hún, svo framarlega sem landssímastjóri og landsstjórn álíta framkvæmanlegt og hagkvæmara að byggja línuna til Ingólfsfjarðar, samtímis Reykjarfjarðarlínunni sjer ekkert á móti því. þar sem lína þessi hlyti, hvort sem er, að koma næsta ár á eftir. En það vill hún taka fram, að hún ætlast til, að framlag til þessa línustúfs verði hlutfallslega ríflegra annarsstaðar frá en gert er ráð fyrir um Reykjarfjarðarálmuna. (H. K.: Af hvaða ástæðum?) Þessi lína kemur almenningi að notum jafnóðum, en hin liggur um óbygðir, enda er þarna svo mikið um að gera, að ekki munar miklu, þó að framlagið verði hærra.

Þá er best að láta nú þegar uppi hug nefndarinnar um till. þær, sem ýmsir hv. deildarmenn hafa borið fram.

Fyrst er brtt. á þgskj. 711, frá hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), og er hún uppvakningur frá 2. umr., þótt í öðrum búningi sje. Jeg býst ekki við, að till. verði tekið betur nú en áður. Nefndin var skift um hana þá, en nú býst jeg við, að hún verði öll á einn máli um að kveða hana niður. Till. fer fram á það, að risnufje og íbúðar sendiherrans falli niður. Hvort flm. ætlast til, að sendiherrann sofi hjá kunningjum sínum til skiftis, og sje þess á milli á götunni, veit jeg ekki, en helst virðist eiga að skilja till. á þá leið. Jeg vona, að hv. þm. (E. Árna.) taki till. aftur og losi okkur við að fella hana hjer.

Þá er till. frá hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), um styrk til tveggja hreppa til læknisvitjunar. Jeg skal geta þess, að nefndin er þessu meðmælt, en annars býst jeg við, að hv. þm. (M. G.) tali fyrir henni og beri fram sínar ástæður, og sje jeg því ekki þörf á að fara frekar út í það hjer.

Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 695, frá þeim hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og 2. þm. Rang. (E. J.). um styrk til Ólafs Ísleifssonar. Nefndin ákvað að láta þessa till. afskiftalausa, og hafa nefndarmenn því óbundnar hendur. En jeg get mjer þess til, að fleiri atkv. mundu fást með till., ef upphæðin væri ekki eins há og hún er.

Það er fram komin viðaukatill. frá háttv. þm. Barð. (H. K.), og er hún ein af þeim, sem komu nefndinni mjög á óvart. Hv. þm. hefir kastað fram till. um atriði, sem ekki hefir legið fyrir, sem ekkert erindi hefir borist um, og hv. flm. hefir ekki minst á fyr. Það liggja engar upplýsingar fyrir, engin áætlun hefir verið gerð, og er undarlegt að hv. flm. ætli mönnum samt að vera með till. Það getur nefndin ekki; hún verður að mæla á móti henni. Það getur verið, að hv. flm. gefi einhverjar skýringar nú við þessa umr., og verður þá deildin að skera úr því, hvort hún álítur þær fullnægjandi og málið á rökum bygt.

Þá er næst till. frá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), á þgskj. 723, og fer hún fram á það, að styrkur til minningarsjóðs Maríu Össurardóttur falli niður. Nefndin hefir tekið þennan styrk upp og fengið hv. deild til að samþykkja hann, og væri því einkennilegt, ef hún mælti nú með því, að styrkurinn fjelli niður. Hún hefir ekki viljað beita því valdi, sem þingsköpin heimila henni, til að hindra þessa till., af því að hún gerir ekki ráð fyrir, að deildin fari að snúast um sjálfa sig. Jeg býst við, að deildin ráði niðurlögum þessarar till. með miklum atkvæðamun. Annars getur verið vafamál, hvort hún getur komið til atkv., og sker hæstv. forseti úr því. En skilningur háttv. flm. á hugarfari og stefnufestu manna virðist alleinkennilegur, og lítill virðingarauki deildinni. (Sv. Ó.: Það lá ekki fyrir að taka styrkinn niður.) Nei, en það lá fyrir að taka hann upp, og það var gert.

Þá er brtt. á þgskj. 721, frá hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), um lítilfjörlega breytingu á launum póstafgreiðslumanna. Þetta mun gert til þess, að hægt verði að setja á stofn póstafgreiðslu í Borgarfirði eystra. Þó að nefndin sje því meðmælt, að póstafgreiðsla komist þarna á, þá álítur hún ekki ástæðu til að breyta upphæðum í frv. af þeirri ástæðu, vegna þess, að enn er alt óákveðið um launamálið, en þetta stendur í nánu sambandi við það, og verður þessum liðum sennilega, hvort sem er, síðar nokkuð breytt. Jeg vænti því þess, að hv. flm. taki till. aftur, en hann hefir fullan stuðning nefndarinnar í málinu sjálfu, þó að hún taki ekki upp fjárveitinguna á þessu stigi.

Þá er brtt. á þgskj. 703, frá háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.), og er hún í 2 liðum. Um þessa brtt. get jeg sagt það, að nefndin er meðmælt fyrri liðnum, en getur ekki fallist á þau síðari. Hún telur ekki óeðlilegt að hækka það tillag, sem till. fer fram á, en hins vegar vill hún ekki bæta fyrir það sem liðið er.

Þá kem jeg að brtt. við samgöngumálakaflann, og þarf jeg ekki að fjölyrða um hana. Nefndin hjelt sjer nokkuð við álit og till. samgöngumálanefndar, og verður því á móti till. á þgskj. 685, frá háttv. þm. Borgf. (P. O.), þar sem hin nefndin var á því máli að fella þann styrk burt. Um brtt. á þgskj. 684, frá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og fleiri háttv. þm., er það að segja, að afstaða nefndarinnar er óbreytt, og þykir mjer ólíklegt, að brtt. komi til atkv. Um tillöguna um Breiðafjarðarbátinn getur nefndin lítið látið uppi að sinni. Hún hefir ekki sjeð ástæðurnar, en býst við, að háttv. flm. hafi ráðfært sig við samgöngumálanefnd, og kemur það þá fram í umr., en nefndin, sem slík. lætur sig ekki skifta það atriði, enda er þetta ekki fjárveitingaatriði.

Þá er brtt. á þgskj. 724, frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Þar er ekki farið fram á fjárveitingu, heldur að eins flutning á milli ára. Það er ætlast til, að meira verði veitt fyrra árið en áður, án þess að hækka upphæðina á fjárhagstímabilinu. Nefndin er ekki á móti því, að fleiri vitar verði bygðir fyrra árið, svo framarlega sem það er framkvæmanlegt. Það má einu skifta, þó að 5 vitar sjeu bygðir fyrra árið og 2–3 það síðara, en það getur verið, að ekki sje hægt að koma því við. Það er líka leyfilegt fyrir stjórnina að færa þetta til, eftir hentugleika, án till., og verður þá þessi brtt. óþörf. En, sem sagt, brtt. gerir enga skekkju og liggur því nefndinni í ljettu rúmi. Nefndin sá ekki till. fyr en í morgun, og hefir því ekki haft tíma til að tala við vitamálastjóra, en það getur verið, að hv. flm. (Sv. Ó.) hafi gert það, og ef brtt. er með samþykki vitamálastjóra, þá er ekkert á móti því, að hún verði samþykt.

Þá er brtt. á þgskj. 720. frá háttv. 1. þm. Eyf. (St. St), um uppbót á launum símastöðvarstjórans á Siglufirði. Nefndin, eða meiri hluti hennar, er þessu meðmæltur, og sama má segja um landssímastjórann. Jeg held, að jeg þurfi ekki að fara um þetta fleiri orðum, og tekur þá væntanlega við háttv. samverkamaður minn (B. J.).