08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Jeg skal vera stuttorður um þann kafla fjárlaganna, sem jeg á að skýra fyrir háttv. þingdm., og að eins skýra frá með fáum orðum, hvað nefndin hugsaði sjer með till. sínum.

Kem jeg þá fyrst að brtt. nefndarinnar við 14. gr. A. b. 2., til bráðabirgðauppbótar á brauðum. Þarf jeg ekki annað en benda á brtt. nefndarinnar, því að háttv. deild sjer og veit, hvernig í henni liggur.

Nefndin leggur til, að liðurinn í 14. gr. B. IV. b. 2. falli niður, og stendur svo á því, að við atkvgr. um fjárlögin var feldur liðurinn um tvo aukakennara við mentaskólann, af því að ætlast var til, að þeir yrðu fastir kennarar og laun þeirra ákveðin í launalögunum, eins og hinna föstu kennaranna. Eins ætlast nefndin til að fari um þennan kennara, að hann verð, skipaður fastur kennari við kennaraskólann. Ætlast nefndin svo til, að þessi yfirlýsing hennar og atkvæðagreiðsla deildarinnar, sem nefndin gerir ráð fyrir að falli sjer í vil sje fullkomin heimild fyrir stjórnina til þess að gera þessa breytingu, eins og hún taldi sjer heimilt að breyta til með kennara mentaskólans, án þess að sjerstök lög væru um það gerð. Þá kem jeg að verslunarskólunum báðum. Jeg gat þess við 2. umr., að geymt hefði verið að gera út um það mál í nefndinni, því að til orða kom að koma upp ríkisskóla handa verslunarmönnum, þar sem allar verslunarstefnur gætu fengið aðgang í. Það má rjettast telja, að í landinu sje kaupmannaskóli, sem geri báðum stefnunum jafnt undir höfði, samvinnustefnunni og kaupmenskustefnunni, skóli, er mentaði sem best kaupsýslumenn landsins, því að á miklu veltur með fjármagn og framfarir þjóðarinnar, að verslunarmenn sjeu sem best undir starf sitt búnir og færir um að rækja það vel: en til þess þarf góða mentun og víðtæka.

Nú er að vísu komið fram frumvarp um stofnun verslunarskóla Íslands; en þótt það sje fram komið, þá verður sá skóli fráleitt stofnaður í ár, og vart að ári, og því hefir nefndin borið fram bráðabirgðatill. sínar um kenslu í verslunarfræðum. Leggur hún til, að veittar sjeu 9000 kr. á ári til starfrækslu verslunarskóla kaupmannafjelagsins í Reykjavík og 7000 kr. á ári til sambands samvinnufjelaganna, til að halda uppi skóla fyrir verslunarmenn. Nefndin leggur til, að fyrri skólanum sje veittur 2000 kr. hærri styrkur en hinum, af því að hann er eldri og gera má ráð fyrir að hann verði fjölsóttari í bráð. Styrkurinn handa hinum skólanum má kallast allríflegur, þar sem er að ræða um stofnun, sem nýtekin er til starfa. Vildi nefndin með því sýna, að hún ætlaði sjer að gera sem minst upp á milli þessara tveggja stefna, sem á bak við skólana standa.

Nefndinni þótti þörf á að bæta við till. sína á þgskj. 728, um samvinnuskólann þessum orðum: ,,þegar hann er tekinn til starfa“, og er þessi viðaukatill. á þgskj. 736.

Við landsbókasafnið vill nefndin að komi á eftir „ljósa“: „ræstingar“. Þessi tillaga er þannig til komin, að núverandi dyravörður hefir orðið að borga ræsting safnsins af launum sínum, og er hún dýr nú á dögum. Aðrir, sem líkt stendur á um, svo sem dyravörðurinn í stjórnarráðshúsinu og dyravörður háskólans, fá kostnað þennan endurgoldinn, og þykir nefndinni rjett, að eins sje farið með dyravörð bókasafnsins,

Þá kem jeg að leikfjelaginu. Nefndinni þótti viðurhlutamikið, að veita því allan þann styrk, sem það fór fram á og þarfnast eða 30–40000 kr. á ári. Meiri hluti nefndarinnar gat eigi lagt með, að svo yrði gert; en hins vegar þóttist hann ekki geta neitað því um styrk til að koma upp geymsluhúsi fyrir áhöld sín. Leikfjelagið á allmikið af leiktjöldum, búningum og fleira, sem vel þarf að geyma, en vantar geymslustað fyrir það. Fjelagið hefir von um að það fái að byggja útbyggingu úr húsi því, sem það hefir nú bækistöð sína í. Vill nefndin veita fjelaginu 10,000 kr. styrk til að koma upp húsi þessu. Þá var og nefndin á því, að sett væri sem skilyrði fyrir 2000 kr. til fjelagsins, að Reykjavíkurbær legði fram að sínu leyti 1000 kr., í stað 500 kr., sem áður voru heimtaðar.

11. liður í brtt. nefndarinnar, um styrkinn til dr. Helga Jónssonar, að hann sje færður úr 3000 kr. á ári upp í 4000 kr. Ef maður þessi væri embættismaður ríkisins og fengi dýrtíðaruppbót sem aðrir embættismenn, 60% af fyrsta þús., 30% af öðru, og 10% af hinu þriðja, þá svaraði það einmitt til þessa. Nefndinni fanst rjett að leggja þetta til, því að hún vildi ekki fallast á, að þeir, sem taldir eru í 15. gr., fengju dýrtíðaruppbót. Jeg skal ekki fjölyrða um þetta, því að hjer á bróðir minn hlut að máli, en ekki skammast jeg mín þó fyrir að greiða atkvæði með þessu. Helgi hefir frá barnæsku lagt rækt við þann arf, sem við bræður fengum í föðurgarði, að leggja meiri rækt við hugsjónir en fjárgróða. Hann hefir lagt ríkan hug á vísindastörf og gefið sig við þeim, eftir því sem hagur hans hefir leyft, og jafnvel um fram það. Hann er nú kominn yfir fimtugt, og hefir lengi verið fremur heilsuveill, en orðið að leggja mikið á sig við tímakenslu, til þess að hafa ofan af fyrir sjer. Nú langar hann til að fá nokkurt næði til þess að vinna úr vísindasöfnum þeim, er hann á. Nú veit jeg ekki, hvort hv. þdm. þykir þetta tilvinnandi, þótt jeg þykist þess viss, að það mundi borga sig margfaldlega fyrir landið, og öll er nefndin fús á að veita viðbót þessa.

Þá sný jeg mjer að Sigurði Guðmundssyni frá Hofdölum í Skagafirði. Hann hefir stundað nám í listaskólanum í Kaupmannahöfn, eins og Guðjón Samúelsson; en þeir, sem nám stunda við þann skóla, geta ekki fengið styrk, eins og t. d. stúdentar á Garði. Hann hefir nú tekið fyrri hluta prófið við skólann með hárri fyrstu einkunn, og langar til að gerast fullnuma í grein sinni, ef fje skortir eigi; en af eigin ramleik getur hann ekki klofið námskostnaðinn, því að hann er fátækur.

Nefndin hafði, er hún samdi nefndarálit sitt og brtt., ekki tekið umsókn Sigurðar til meðferðar, en lagt hana með umsóknum stúdenta um utanfararstyrk. En er hún fór að athuga málið, sá hún, að nokkuð öðruvísi stóð á með hann en stúdenta, meðal annars af því, að hann hefir ekki tekið stúdentspróf, heldur hvarf hann frá námi í mentaskólanum áður en hann tæki það, bæði sökum þess, að hann varð þar sjúkur um stund, og svo af því, að hann hneigðist þá þegar að því námi, er hann stundar nú, en til að komast að því þarf ekki stúdentspróf. Sigurður er sagður listfengur maður, svo sem var frændi hans Sigurður Guðmundsson málari. Ýmsir mentaðir og greinagóðir menn hafa talað við mig um pilt þennan, einkum yngri menn, sem þekkja hann frá skólaárum hans, og láta þeir allir vel af honum. Seinna ár yfirstandandi fjárhagstímabils var honum í fjárlögunum veittur 800 kr. styrkur, eftir að styrktími Guðjóns Samúelssonar var útrunninn. Það virðist því svo, sem sú regla hafi verið tekin að veita einum manni í senn styrk til húsabygginganáms. Nú hefir nefndin fallist á að leggja til, að honum sje veittur 1500 kr. styrkur á ári. Hann fór ekki fram á meira, og þótti nefndinni svo hóflega af stað farið, að eigi væri ástæða til að klípa af því.

Næst kem jeg að brtt., sem minst var á við 2. umr., um Óslandshlíðaráveituna; er það ekki annað en að 4000 er breytt í 5000, eins og upprunalega átti að vera. Þá kemur nýr liður um að veita Jóni Guðmundssyni ostagerðarmanni 2000 kr. til Noregsferðar. Hygg jeg, að hv. 1. þm. Árn.(S. S.), sem er frömuður lista og ostagerða, muni taka tillögu þessari fegins hendi, því að sjálfur bar hann fram samskonar tillögu til 2. umr., en þá fjell hún. Nú hefir nefndin tekið upp tillögu þessa með nokkru lægri upphæð; hún leit svo á, að þótt maður þessi hefði lært að búa til eina tegund osta, gráðaosta, þá væri þarflegt, að hann lærði og að gera aðra osta. Maður þessi mun ekki vera svo efnaður, að hann treysti sjer til að fara utan fyrir eigið fje; vill nefndin því styrkja hann til fararinnar, en ætlast svo til þess, að hann kenni öðrum ostagerð, er heim kemur, án þess að gera sjer það að gróðavegi.

15. liðurinn er um uppbót á lögákveðinni taxta dýralækna, 1200 kr. Það er ákveðið með lögum um kaup þeirra á ferðum, og hefir það ekki verið hækkað, þótt alt annað hafi hækkað í verði, en peningar lækkað að sama skapi og peningagjald. Uppbót þessi á að vera fyrir 1918, og verður nefndin að telja sanngjarnt, að þeir fái hana á sama hátt og aðrir starfsmenn ríkisins hafa fengið dýrtíðaruppbætur.

Nefndin leggur til, að styrkurinn til manns til leiðbeiningar um húsagerð til sveita skuli hækkaður úr 2500 kr. upp í 3000 kr. á ári. Þetta er ekki mikil hækkun handa manni þessum, sem verið hefir nokkur ár í þjónustu landsins fyrir lágt kaup, og sjálfsagt setið af sjer ýms gróðavænleg fyrirtæki fyrir það, því hann er dugnaðarmaður. Upphaflega lærði hann trjesmíði, en fór síðan utan og gekk um tveggja ára skeið í skóla í Osló til að fullkomna sig í teikningu og húsagerð og fleira, er heyrir iðn hans til. Síðan hefir hann lagt fyrir sig holsteinagerð: hafa þeir steinar reynst vel til bygginga og húsin rakaminni en hús steypt á þann veg, er tíðkast hefir. Í öðru lagi leggur nefndin til, að maður þessi fái 600 kr. til skrifstofuhalds; er það nauðsynlegt, því að hann þarf að hafa herbergi til að geta tekið móti mönnum til viðtals og til að geyma í teikningar sínar og áhöld. Vona jeg, að enginn hafi á móti þessu, því að hjer er alt skorið við neglur; en maðurinn ætti hins vegar að njóta þess, að hann vill vera í þjónustu landsins, þótt hann eigi annars arðvænlegra kost; er það af því að hann hefir hinn mesta áhuga á að koma byggingarmálum okkar í betra horf og bæta húsagerð í sveitum, og af því, að hann vill endurgjalda landinu með starfi sínu ofurlítinn styrk, sem honum var veittur, þegar hann var að námi.

Þá er að minnast á styrkinn til flugfjelagsins. Það hefir jafnan verið kostur á Alþingi, að það hefir verið fljótt til að styrkja nýjar samgöngubætur. Þess má minnast, að þingið veitti D. Thomsen styrk fyrir allmörgum árum, til að kaupa vjelvagn: og þótt þau kaup mishepnuðust og vagninn reyndist ekki vel, þá var það lofsvert af þinginu að hlaupa þar undir bagga: og síðan hefir það sýnt sig, að hin mesta samgöngubót er að vjelvögnum, þótt þinginu sýnist líklega annað eða öðruvísi verður það ekki skilið, er það vill leggja allþungan skatt á vagna þessa.

Nú er hjer enn á ferð nýtt samgöngufæri. Að vísu er ekki hægt að segja með vissu, að hve miklu gagni það muni koma, en slíkar eru þó horfur með það, að þingið styðji fyrirtækið að einhverju leyti. Þeir, sem gengist hafa fyrir stofnun flugfjelagsins og framkvæmdum þess, hafa lagt mikið erfiði á sig: þeir hafa þegar lagt fram 28,000 kr., en það nægir ekki til að koma fyrirtækinu í fast horf. Þeir skulda nú fyrir skála yfir vjelina og flutningsgjald hennar frá Skotlandi hátt á fimta þúsund krónur. Vjelin var flutt hingað til lands á skipi landssjóðs, og er ætlast til, að af þeim 15.000 kr., sem nefndin ætlast til að veittar sjeu, gangi 5,000 kr. til að borga með flutningsgjaldið. Jeg skal engu um það spá, hvað nytsamar flugvjelar muni reynast hjer á landi, en get þess þó, að vjel slík sem sú er hjer er nú, geti flutt póstflutning. 2–300 pund á skömmum tíma landshornanna á milli. Eitt dæmi af mörgum um það, hvert gagn flugvjel getur unnið, má nefna. Það getur komið fyrir, að maður sýkist langt frá lækni. og þurfi skjótrar læknishjálpar. og að líf liggi við, fái hann hana ekki. Sje nú sími í nánd, má kalla lækni, og má þá fljúga með hann, með öll nauðsynleg áhöld um langan veg á örstuttum tíma, sjúklingnum til bjargar. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta, þótt margt fleira mætti tína til. Jeg vil að eins minna á, að vel sæmir þinginu að styðja þá menn, er hjer brjóta þann ís, sem stjórninni lá nærri að verða fyrst til að brjóta.

Næst kem jeg að till. nefndarinnar um, að tveim fátækum og öldruðum konum sje veittur ofurlítill styrkur, sem þeim getur orðið að nokkru liði, þótt lítill sje. Önnur þeirra, Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum, er alkunn fyrir gáfur og hjálpsemi við nauðstadda, og mun af flestum talin makleg þessa litla styrks. Hin konan, Anna Thorlacius í Stykkishólmi, sem nokkrir hv. þdm. slátruðu við 2. umr. fjárlaganna, af umhyggjusemi fyrir landssjóði, er sæmdarkona, fróð um forna siði og þjóðvenjur, og hefir ritað nokkuð um það efni. Nú hefir nefndin fært styrkinn niður um 200 kr. frá því sem áður var, í því trausti, að þessi lækkun hræri svo hjörtu þeirra, sem áður voru móti styrkveitingunni, til þess að greiða nú atkvæði með henni, þótt þessi niðurfærsla sje að sjálfsögðu miklu tilfinnanlegri fyrir hana og muni hana meiru en landssjóð.

Þá er 19. liður. Það er styrkur til ekkju Lárusar prests Halldórssonar. Það gleymdist við síðustu umr. að lagfæra hann og setja liðinn í sama horf og liðinn um styrk til Hlífar Bogadóttur, ekkju Pjeturs Þorsteinssonar.

Er eins statt með báðar þessar konur, að menn þeirra hafa verið brjóstveikir, og því ekki getað sjeð fyrir fjölskyldu sinni eftir sinn dag. Þótti nefndinni því rjett að bæta við konu þessa 150 kr. með hverju barni hennar; að eins hefir gleymst að geta þess, sem er undirskilið, að þetta á að eins við um börn þau, sem eru í ómegð.

Í b.-lið þessarar brtt. er farið fram á, að frú Ingeborg Sigurjónsson, ekkja Jóhanns Sigurjónssonar, fái að halda þessum 1000 kr., sem hann hefir haft. Þótti nefndinni rjett að sýna þann metnað, að konu þessari væri sjeð borgið af landinu engu síður þótt hún sje af annari þjóð. Annars þarf jeg ekki að tala fyrir þessum lið, þar sem jeg tel víst, að hann sæti engum mótmælum.

Þá er 20. liður, þar sem landsstjórninni er veitt heimild til að kaupa Ólafsdal í Dalasýslu fyrir sanngjarnt verð.

Hefir mörgum leikið hugur á því, að ekkja Torfa heitins í Ólafsdal þyrfti ekki að selja eignir sínar sjer í óhag, og mannvirki hverjum óvöldum manni, sem hafa vildi.

Það er líka til sjóður sem ætlaður er til að koma upp skóla fyrir konur í Breiðafirði. Leikur mönnum hugur á að skóli þessi, sem stofna á fyrir sjóð þennan, sem frú Benediktsson stofnaði, verði settur í Ólafsdal. Þess er líka að geta, að þangað er nú ekki eins illfært og áður var, þar sem nú er komin höfn í Salthólmavík. og er ekki nema spotti þaðan og inn fjörðinn til Ólafsvíkur, og því ekki dýr flutningur þaðan.

Þá leið má líka ganga á 2–3 tímum, ef svo færi, að rok kæmi á af norðan eða austan, svo að menn yrðu að hætta flutningi í miðju kafi.

Það er því mikill munur á þessu og því, sem var í tíð Torfa heitins, þegar hann varð að sækja alt út í Stykkishólm. Og að verða að enda þá löngu ferð með því að bera af skipi sínu einhversstaðar utan heimilis, það gat orðið dýr flutningur.

En nú er miklu hægra um vik í þessu efni og er staðurinn því nú betur fallinn til þess að hafa þar skóla þennan. Þar er líka tún bæði gott og stórt, og hægt að hafa þar búsýslu þá, sem þarf til þess, að konur fái fræðslu í öllu því, sem að henni lýtur, auk hinnar bóklegu fræðslu.

Þetta mælir því mjög með till. þessari, þó hitt ætti að vera nóg, minningin um Torfa heitinn, og það, að mannvirki hans færu ekki forgörðum, heldur yrðu til almenningsnota.

Jeg býst því ekki við, að till. þessari verði mótmælt. En hins vegar er ekki bundið við, að stjórnin kaupi eign þessa við neinu geipiverði, þótt hún hafi heimild þessa.

Þá var ein till., sem nefndin gleymdi þegar hún samdi þessar brtt. Það var till. um að veita ferðastyrk tveimur skjalavörðum. Eins og kunnugt er, var Jóni Jónssyni sagnfræðingi veittur slíkur styrkur til að rannsaka handrit og heimildir erlendis. Hefir honum nú af þeim sökum tekist að ljúka við verslunarsögu sína, sem er merkilegt rit.

Nú er líkt ástatt um þessa tvo menn, sem báðir eru vísindamenn. Þeir þurfa einnig utanfararstyrk til að rannsaka handrit erlendis.

Hinum fyrri, Jóni Þorkelssyni, er það mjög nauðsynlegt að rannsaka erlend söfn til þess að geta lokið við framhaldsútgáfu fornbrjefasafnsins. Þótt hann hafi rannsakað mikið og skrifað mikið hjá sjer á Hafnarárum sínum, þá má þó nærri geta, að eftir svo mörg ár kunni margt að hafa bæst við, sem rannsaka þarf. Hann telur sjer þessa ferð því nauðsynlega til að geta haldið áfram útgáfu þessari.

Hefir nefndin því talið hæfilegt að veita honum til þess 5000 kr., eins og Jón Jónsson sagnfræðingur hafði.

Um Hannes Þorsteinsson er það sama að segja og þarf jeg ekki að fjölyrða um menn þessa meira, þar sem þeir eru báðir svo þektir, að vitanlegt er, að þeir biðja ekki um slíkan styrk án þess að full nauðsyn beri til.

Þá eru ekki fleiri till, frá nefndinni.

Skal jeg þá fylgja dæmi fyrirrennara míns og drepa á það, hverjar till. einstakra þm. nefndin vill styðja og hverjar ekki.

Nefndin vill ekki styðja till. á þgskj. 690, um raforkuveitu á Hólum.

Þykir nefndinni vanta skýringu á því, hve vel það fyrirtæki mundi borga sig, hverju nú er kostað til hita og ljósa þar og svo samanburð á því og stofnkostnaði og rekstrar raforkuveitunnar.

Þetta þarf alt að vera nákvæmlega reiknað og áætlað fyrirfram; þá fyrst verður sjeð, hve vel það mundi borga sig, en fyr er ekki hægt að veita fje til.

En þetta er enginn dómur frá nefndinni, að raforkuveita sje þarna ógerleg. Nefndin vonar einmitt hið gagnstæða, þótt hún geti ekki verið þessu fylgjandi meðan allan undirbúning málsins vantar.

Þá er brtt. á þgskj. 691, og er hún eins og hin frá þm. kjördæmisins. En nefndin getur ekki verið með henni heldur, þar sem hún átti erfitt með frá upphafi að verða sammála um skóla þessa. Og niðurstaðan varð loks sú, að of mikið var tekið til nafngreindra skóla frá hinum, sem ekki eru nefndir í frv.

Nefndin getur því ómögulega fallist á að taka nú enn 500 kr. frá þessum ónafngreindu skólum. Hitt hefði ef til vill verið lítill vegur, að hækka styrkinn við alla þessa skóla, og þá hina ónafngreindu líka.

En með þessari till. getur nefndin ekki verið.

Þá er brtt. á þgskj. 722, við 15. gr. 16. styrkveiting til fjelagsins „Íslendingar“.

Allir nefndarmenn, að einum undanskildum, eru þeirri till. mótfallnir.

Þykir mönnum óþarfi að veita fje til þess að efla samband milli Íslendinga innbyrðis, telja það munu koma af sjálfu sjer.

Annars er það ekki ljóst, til hvers verja skal þessu fje. En sje það satt, sem jeg hefi heyrt, að senda eigi einn mann, sem jeg hefi heyrt tilnefndan til þess að halda fyrirlestra þar og fleira þesskonar, þá tel jeg víst, að þetta hefði orðið auðsóttara ef sá maður hefði komið fram með nafni, ef það er sá sem jeg hefi heyrt til nefndan.

Mætti þá ef til vill fara þá leið seinna, of þessi till. verður feld.

Annars vill nefndin ekki fylgja þessari till.

Þá er till. á þgskj. 712. um að lækka listamannastyrkinn um 6000 kr. Nefndarmenn eru allir á móti þeirri till. Nefndin gerði sjer mikið far um að finna þá lægstu upphæð, sem hægt var, án þess að beinlínis væri níðst á bestu kröftum landsins í þessum sökum.

Á nál. fjárveitinganefndar má sjá, að þetta er sú minsta upphæð, sem veita má, og verður nefndin því að vera á móti þessari lækkun.

Jeg gat þess líka við 2. umr., að ef styrkur þessi væri veittur eftir till. nefndarinnar, þá væru ýmislegar áætlunarupphæðir í honum fólgnar, sem ekki mundu gjaldast upp á hverju ári.

Af liðnum mundi því geta sparast nokkuð við og við. En hins vegar þótti það sjálfsagt, að stjórnin hefði heimild til að verja ekki minna fje en þessu til að fylla brýnustu þarfir þessara manna.

Það má líka undarlegt heita að ráðast á þá liði, sem nýbúið er að samþykkja, og það mótmælalaust þá.

Nefndin vonar því, að þessum lið verði ekki haggað.

Þá er brtt. á þgskj. 696. við 15. gr. 19, b., og er hún nú rjett orðuð, þar sem lagt er til, að styrkurinn til mín til að þýða Goethes Faust falli niður. Sennilega á að veita þá upphæð ,,Gvendi Faust“ í staðinn.

En þar sem mjer er nú málið skylt, mun jeg lítið um það segja, en frá nefndinni var jeg beðinn að skila því, að allir sjeu þessari till. mótfallnir, nema þessi eini, sem ekkert leggur til málanna.

Það blæs því byrlega fyrir háttv. flm. (S. S.), þar sem einn þm. er forfallaður frá því að verða á móti þessari till. hans.

Þá hefir annar háttv. þm. (Sv. O.) komið fram með samhljóða till.; að eins er hún skýrar orðuð hjá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). En mjer til mikillar sorgar verð jeg að flytja honum sömu skilaboðin frá nefndinni.

Þá er till. á þgskj. 718, frá háttv. þm. Barð. (H. K.), sem fer fram á það, að hækka styrkinn til íslensku orðabókarinnar upp í 8400 kr.

Eins og menn muna, lagði fjárveitinganefndin til, að hann yrði hækkaður úr 6000 kr. upp í 9000 kr., en háttv. deild vildi ekki samþykkja þá till.

En sjái hún sjer nú fært að samþ. þessa till., sem er lítið eitt lægri en till. nefndarinnar, þá mun því auðvitað verða tekið þakksamlega.

En fyrir mitt leyti skal jeg lýsa því yfir, að jeg ætla mjer ekki lengur að berjast fyrir þessari orðabók. Jeg hefi aldrei brugðið neinum um illar hvatir í sambandi við styrkinn til hennar, en aftur á móti hefir mjer verið brugðið um það, að jeg hafi viljað gera hann að bitlingi, þar sem jeg hefi þó viljað það eitt, að þetta yrði vísindalegt verk. Þessi ummæli um mig lýsi jeg því hrein og bein ósannindi.

Mönnum vex mjög í augum fje þetta. Og það er rjett, að mikið fje fer til bókarinnar. Að henni verða að starfa einir þrír menn í 20–25 ár, ef hún á að vera vel úr garði ger.

Til þess þarf sjálfsagt annað eins fje og til tveggja eða þriggja brúa, sem lagðar eru til að reka yfir þær sauðfje.

En væri það nú svo háskalegt? Þessi orðabók á líka að vera brú á milli fortíðar og framtíðar, auðvitað ekki til sauðfjárrekstrar, heldur til þess að halda við móðurmálinu, sem er hinn einasti vegur til þess, að þjóðin geti haldið sæti sínu meðal annara þjóða heimsins.

Annars skal jeg leggja niður að brjótast fyrir máli þessu, þar sem jeg er ekki svo miklu ver að mjer í íslensku en aðrir, að jeg sjálfur þurfi frekar öllum öðrum á bók þessari að halda.

Þá er brtt. á þgskj. 715, frá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), sem nefndin getur ekki fallist á. Það er alls ekki of mikið, sem samþykt var við 2. umr., að veita 5000 kr. til útgáfu þessarar orðabókar. En ef svo væri, að styrkurinn væri veittur ríflega, þá mundi það verða til þess, að bókin yrði því ódýrari, og mundi það ekki neitt illa farið.

En eins og jeg tók fram síðast, þá er nafn höfundarins, Geirs Zoëga rektors, nóg meðmæli með því, að bókin verði vönduð í alla staði. Og engum mun detta annað í hug en taka þau orð hans trúanleg, að þessi útgáfa verði bæði endurbætt og aukin. Þessi styrkur er því alls ekki of hár.

Þá er brtt. á þgskj. 692, um að gera orðabreytingu við 15. gr. 30.

Sú breyting getur ekki komið að neinu haldi, nema ef vera skyldi til þess, að gera manni þessum skapraun, og getur það ekki talist rjettmætt á neinn hátt.

Þá er brtt. á þgskj. 688, um að hækka styrkinn til Páls Þorkelssonar til málsháttasafnsins.

Um hana hefir nefndin óbundin atkv. og hefir því ekki falið mjer að segja neitt um hana.

Sama er að segja um brtt. frá háttv. þm. Barð. (H. K.), um að hækka styrk til annars manns, sem jeg ætla að sje Sighvatur Borgfirðingur. Nefndin hefir ekki heldur falið mjer að segja neitt um hana.

Um styrkinn til Hallgríms Hallgrímssonar til að semja sögu Íslands frá 1800 til 1918 hefi jeg ekki heldur umboð til að segja neitt frá nefndinni. Um hann hefir hún líka óbundin atkv. Sama er að segja um brtt. á þgskj. 713, við 15. gr. Nefndin hefir ekki gert neinar sjerstakar till. um það, hvort hækka eigi utanfararstyrk þessa manns eða ekki.

Þá er till. á þgskj. 694, um útgáfu dýralækningabókar. Er sá styrkur nú nær sanni, þar sem hann er áætlaður 75 kr. fyrir hverja prentaða örk. Till. meiri hl. nefndarinnar styrkja þessa till.

En fyrir henni þarf jeg ekki að tala, þar sem flm. hennar (S. S.) mun sjálfsagt fylgja henni úr garði með langri og snjallri ræðu.

Þá er brtt. á þskj. 693, frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), um að hækka styrkinn til efnarannsóknarstofunnar upp í 4000 hvort ár.

Nefndin telur sjálfsagt að samþ. þessa till., því að ef efnarannsóknarstofunni verður haldið áfram, verður auðvitað að borga forstöðumanni hennar svo vel, að lífvænleg sje staðan. Er því rjett að ákveða laun hans nú þegar, svo að ekki verði allir móthverfir því, að búa sig undir það starf. Er því nauðsynlegt að samþ. alla liðina á till. þessari, þar sem þeir eru í innbyrðis samræmi og allir nauðsynlegir.

Þá er hjer till. frá háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.), um verðlaun fyrir óunnið verk til Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, Hámundarstöðum. Nefndin er á móti þessari till., og vill láta hjer taka upp sið hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og vísa málinu til Búnaðarfjelagsins. Hún telur það rjettlátt. Maðurinn getur sent ritgerð sína Búnaðarfjelaginu, og fær sennilega ritlaun hjá því, þar sem það gefur út tímarit á landssjóðs kostnað.

Enn fremur er nefndin á móti till. á þgskj. 726, um fjárveitingu til fyrverandi vitavarðar, Jóns Helgasonar á Reykjanesi. Jeg ætla, að honum hafi áður verið veittur einhver styrkur, en nefndin álítur ekki ástæðu til að halda honum við.

Svo eru hjer nokkrar brtt., svo nýlega framkomnar, að nefndin hafði ekki tíma til að athuga þær. En jeg vil drepa á fáeinar þeirra.

Fyrst er hjer till. á þgskj. 734. um að ryðja akfæran veg frá Kópavogsskeri að Jökulsárbrú í Axarfirði og leggja til þess 1000 kr. úr landssjóði, gegn jafnmiklu gjaldi annarsstaðar frá. Þessi till. er samhljóða till. frá nefndinni, og tekur því annaðhvort tillögumaður eða nefndin sína aftur.

Á þgskj. 740 er till. um að veita styrk til að senda fulltrúa fyrir íslenska blaðamenn á blaðamannafund fyrir Norðurlönd, og er jeg, sem þm., með þeirri till., af því, sem jeg hefi oft áður tekið hjer fram, að fullveldi þessa lands er nú viðurkent, og því alveg sjálfsagt að birta það og auglýsa í þessu sem öðru fyrir öðrum þjóðum. Þótt nú sje skift um og Ísland fullveðja, mega menn ekki halda, að útlendar þjóðir horfi altaf á Ísland. Nei, við þurfum að auglýsa þetta og við höfum veitt læknum styrk til þess, lögfræðingum og guðfræðingum líka. Sendiherra eigum við að senda. En jeg vil líka að blaðamenn fái þennan litla styrk, svo þeir viti, útlendu blaðamennirnir, að blaðamenn sjeu líka til á Íslandi, og geti tekið tillit til þessa. Jeg reikna þetta alls ekki sem óþarfa kostnað, heldur sem auglýsingagjald, sem margfaldlega borgar sig.