08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Björn R. Stefánsson:

Jeg á hjer tvær brtt., og er sú fyrri á þgskj. 731. Þar er farið fram á 300 kr. styrk hvert árið til Breiðdalshrepps í Suður-Múlasýslu, til að vitja læknis. Mjer hefði ekki dottið í hug að fara fram á þetta, nema af því að farið er að styrkja hreppa, sem eiga miklu hægari aðstöðu en þessi hreppur. Þeir þm., sem flutt hafa frv. um fjölgun læknahjeraða, hafa stutt þau með þeim upplýsingum, að læknisvitjun til þeirra staða, þar sem þeir vilja fá nýjan lækni, kosti 90–120 kr. Læknisvitjun úr Breiðdal til Djúpavogs kostar nú varla minna en 90 krónur. Sjóleiðin á mótorbát, sem títt er nú orðið að fá til að flytja lækninn yfir Berufjörð, fram og til baka, kostar 30 kr. hvora leið, og 2 landferðir, fram og til baka, ekki minna en 30 kr. Þessi skýring vona jeg að nægi til þess, að menn sjái, að hjer er ekki síður rjettmæt krafa á ferðinni en aðrar samskonar, sem fram hafa komið í háttv. deild og samþ. hafa verið, þar sem erfiðleikinn og kostnaðurinn er hjer eins mikill og hjá þeim, sem fengið hafa alveg sjerstakan lækni.

Síðari brtt. er á þgskj. 732, um eftirgjöf á láni til Búðahrepps. Áður munu hafa verið gefnar eftir, að mig minnir, 1500 kr. af þessu láni, sem upphaflega var 6 þús. kr., og nú ekki eftir nema 700, og hafa hreppsbúar farið fram á að fá þetta eftir gefið. Erindið lá fyrir fjárveitinganefnd, en jeg man ekki eftir, að hún hafi nokkuð minst á málið.

Út af þessari umsókn vil jeg enn fremur leyfa mjer að minna á það, að í nál. samgöngumálanefndar 1917 er það viðurkent, að enginn hreppur á landinu hafi orðið eins hart úti með fjárframlög til símalagningar eins og þessi hreppur, sem hjer á hlut að máli.

Loks skal minna á það, að þegar þessi símalína var lögð, var hún að eins hliðarálma, en er nú orðin partur af aðallínunni kringum landið.

Svo skal jeg drepa á fáeinar brtt. við 13. gr. Nefndin hefir ekki haft tíma til að halda fundi um þær. Og hvað snertir brtt. á þgskj. 685, þá hefir hún enga afstöðu tekið til Hvítárbátsins. En um brtt. á þgskj. 684 ætti að mega segja það, að líka gæti komið til tals að veita vissa upphæð til Faxaflóaferðanna, án þess að binda hana við nokkurt víst nafn, en meiri hluti nefndarinnar mun vera sama sinnis nú og áður, og vera því móti brtt. Þess er líka að gæta, að hverjum, sem tekst þessar ferðir á hendur, mundi koma ver að vita ekki í tíma, hvort hann eigi að fá styrkinn eða ekki, því hann gæti ekki farið að búa sig undir ferðirnar fyr en það væri afgert mál.

Um brtt. á þgskj. 717 verð jeg að segja það, að jeg tel varla gerlegt að mæla með henni, fyr en upplýst er um það, hvort Breiðafjarðarbáturinn gengur að því, að fara tvær ferðir á ári vestur á Ísafjörð. Fyrir því hefir maður enga vissu, og því varasamt að setja skilyrði, sem gæti orðið til þess, að styrkurinn yrði ekki þeginn, svo Breiðfirðingar yrðu bátlausir.