08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Björn Kristjánsson:

Jeg á 3 brtt. Fyrsta brtt. er á þgskj. 692, við 1200 kr. styrkveitingu hvort ár til Frímanns Arngrímssonar. Í till. stendur að styrkurinn sje veittur til að safna steinum og jarðtegundum og rannsaka, að hverju sje nýtt“. Jeg hefi skilið þetta svo að hann ætti bæði að safna og rannsaka. En þetta álít jeg manninum ofvaxið. Þess vegna hefi jeg lagt til að setningunni sje breytt þannig: „eftir því sem hann getur“. Þetta er ekki af því að jeg álíti manninn ófæran til rannsóknanna heldur vegna hins, að hann vantar öll tök til þess. Auðvitað mundi hann geta rannsakað það t. d. hvort hjer sje leir sem væri hæfur í múrstein, eða hvort hjer væri kalk. En jeg hygg, að hann gæti ekki rannsakað fleira. Till. mín miðar alls ekki að því, að gera manninum skapraun, heldur þvert á móti að því, að greiða fyrir honum.

Þá er önnur brtt., á þgskj. 693, um aukið tillag til efnafræðisstofnunarinnar. Fjárveitinganefnd hefir tekið till. þessari vel og telur sjálfsagt, að deildin samþ. hana. En jeg skal taka það fram, að það þarf að gera meira fyrir þessa stofnun, ef hún á að koma að verulegu gagni. Jeg býst við að allir viðurkenni að efnarannsóknarstofnun sje nauðsynleg öllum atvinnuvegum, landbúnaði, sjávarútvegi, verslun o. fl. Landinu er nauðsynlegt að eignast fullkomna efnarannsóknarstofu. En það er þessi ekki. Henni er tildrað upp af vanefnum og er þess vegna mjög ófullkomin. Hana vantar t. d. reykháfa og skápa, til þess að taka á móti sýrulofti, eða með öðrum orðum: Það er ókleift að fást við efni, sem reykur er af, nema með því móti að leggja líf sitt í hættu. Rannsóknarstofan þyrfti að vera í tveim deildum, önnur til þess að rannsaka í lífræn og hin ólífræn efni. Og þá þyrfti tvo menn við hana, og laun þeirra þyrftu að vera svo góð, að almennilegir menn fengjust til að taka að sjer þetta starf. 2400 kr. er alt of lítið. Allir þekkja Gísla Guðmundsson og vita hver dugnaðarmaður hann er. Jeg hefi lagt það til, að þóknun hans væri hækkuð úr 300 kr. upp í 500 kr. í athugasemdinni, og svo hefi jeg bætt við 1200 kr. til aðstoðarmanns. Starf hans verður ekki vandasamara en svo, að hver vandaður og greindur maður getur leyst það af hendi. En aðstoðarmaður er nauðsynlegur, til þess að slíta ekki kröftum efnafræðingsins um of til verka, er enga efnafræðilega þekkingu þarf til, enda hefir nefndin fallist á þessa till. En það hefði þurft meira fje á þessu þingi til þess að gera stofnunina vel nothæfa. Skáparnir eru smíðaðir af mönnum, sem ekki kunnu það og þar að auki vantar rellu til þess að draga sýruloftið út úr skápunum í reykháfinn. Læknaskólanemendur verða t. d. að standa þarna í þykkum sýrureyk allan námstímann. Úr þessu hefði þurft að bæta nú þegar.

Þriðja brtt. mín er á þgskj. 647, og er geymd frá 2. umr., til þess að nefndin hefði tækifæri til að gera till. um hana. En hún kom ekki til tals í ræðu háttv. frsm., sennilega af því, að nefndin hefir haft málið til meðferðar í öðru formi, sem hún vildi ekki fallast á. Jeg þorði ekki að hafa till. víðtækari fyrst í stað, til þess að vera nokkurn veginn viss um, að við gætum fengið nauðsynleg verkfæri. En nefndin virðist vera í vafa um, hvort hjer eigi að skapa námuverkfræðingsembætti. Og þetta liggur í því, að nefndinni hefir ekki verið kunnugt um, hvaða verkefni hjer liggja fyrir. En verkefnin eru þau, að setja hann yfir Helgafellsnámuna, sem hefir verið í óreiðu í 10 ár. Náman var leigð Frökkum fyrir 10 árum, en eftirtekjan hefir verið lítil. Nú er þessi tími útrunnin þetta ár eða næsta og liggur þá næst, að verkfræðingurinn verði settur yfir námuna, og hún rekin á kostnað landsins. Náma þessi er mjög dýrmæt eign, og má líkja henni við demantsnámu, og má ekki leigja hana hinum og þessum, án þess að gerð sje full grein fyrir því hversu arðurinn af námunni sje mikill. Jeg lít svo á, að það sje mjög nauðsynlegt fyrir landið, að verkfærin verði keypt.

Þetta vildi jeg henda háttv. deild á, og skal svo ekki eyða tímanum frekar.