26.02.1920
Efri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (1015)

7. mál, einkaleyfi

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Frv. þetta var borið fram af stjórninni á síðasta þingi hjer í deildinni og var samþ. hjer; kom svo til Nd. og komst þar í nefnd.

Jeg get vel skilið, að nefndin hjer í deildinni hafi kynokað sjer við að gera þær breytingar á frv., sem þurfti, því annaðhvort var að gera, að breyta því svo mikið, eins og hjer er farið fram á, eða láta málið niður falla.

Af því mál þetta kemst sjáanlega ekki fram á þessu þingi, gef jeg að þessu sinni látið mjer nægja að fara að eins út í nokkur meginatriði breytinganna, sem óhjákvæmilegar eru ef frv. á fram að ganga. Jeg get hugsað mjer, að menn kunni ef til vill, margir hverjir, að álíta verkefni einkaleyfislaga víðtækara en það er í raun og veru, svo sem að með þeim eigi að fást ábyrgð fyrir því, að viðkomandi uppfundning sje hvergi til í heiminum yfirleitt áður. En þetta er misskilningur. Það er frá laganna sjónarmiði nóg, ef uppfundningin er ekki áður til í landinu sjálfu, hjá innlendum mönnum, eða hefir ekki verið skrásett þar af útlendum mönnum.

Jeg vil síðan, eftir þessar almennu athugasemdir, leyfa mjer að fara stuttlega yfir helstu brtt., sem fram eru bornar. Sú fyrsta er að eins orðabreyting, og sama er í rauninni að segja um þá aðra og þriðju. Í síðara lið 3. brtt. er þó um það að ræða að bæta dálitlu aftan við greinina, sem í sjálfu sjer er þó ekkert aðalatriði, en lítur betur út út á við og er í samræmi við dönsku lögin um þetta efni.

Fjórða till. er aftur á móti höfuðbreyting. Hjer er það sem sje nauðsynlegt, vegna ýmsra aðstæðna og staðhátta, að hafa einkaleyfistímann að minsta kosti ekki skemri en annarsstaðar, ef nokkur viss von á að verða um arð af uppfundningunni.

Um leiðirnar til þess að verðlauna uppfundningar þessar er aftur á móti það að segja, að þær geta verið tvær, önnur að ríkið veiti verðlaun fyrir uppgötvanir, sem mun fátítt, og hin að láta kaupandann borga verðlaunin í ofurlítið hærra söluverði, er uppfundningin er komin á markaðinn. Þessi leið er nú víðast farin, og svo er hjer. En einmitt til þess, að slík aðferð geti borið sæmilegan árangur fyrir þann, sem uppfundninguna hefir gert, og hann haft af henni einhvern gróða, þarf einkaleyfistími hans að vera trygður svo langur, sem jeg benti áður á. Má í minsta lagi gera ráð fyrir 15 árum, en þau hefðu þó heldur átt að vera hjer 20.

7. gr. er líka höfuðbreyting. Við færðum nefnilega gjaldið niður þannig, að það er 20 kr. fimm fyrstu árin, næstu 5 árin 30 kr. og síðustu 5 árin 100 kr. Þetta er reyndar ekki alveg í samræmi við það, sem er í öðrum löndum, en ástæðan fyrir því er sú, að einkaleyfið verður ekki notað eins mikið hjer og annarsstaðar. Gjaldið samkvæmt stjórnarfrv. mundi verða með stimpilgjaldi 1100 kr. fyrir 15 ár. Í Noregi mun það vera 510 kr. fyrir jafnlangan tíma, og í Danmörku ekki fullar 700 kr. Það er því augljóst, að gjaldið er of hátt, þegar miðað er við markaðsstærðina í hverju af þessum löndum. Hin brtt., við 7. gr., er eins og til samræmis. Þriðja höfuðbreytingin er við 9. gr., að stjórnarráðið skipi 3 manna nefnd, einkaleyfisnefnd, er sitji 5 ár í senn.

Erlendis er vanalegt að hafa 5 manna nefnd, en hjer mun nóg að hafa að eins þriggja. Einnig er það gert til þess að vekja sem best traust á nefndinni úti í frá, að í nefndinni á að eiga sæti einn lögfræðingur, er hafi skilyrði til að vera hæstarjettarmálaflutningsmaður. Framhaldið er framhald af dönsku lögunum. Allar þær breytingar, er hjer koma, eru bein afleiðing af höfuðbreytingunni, og yfir það hleyp jeg. Síðan er ekkert nýtt frá nefndinni, nema í 20. gr., þar sem hún hefir fært niður sektarákvæðin, því að brotin skaða ekki eins kærandann hjer og í öðrum löndum, vegna þess, að uppgötvunin selst hjer miklu minna en annarsstaðar tíðkast. Annars þarf ekki að skýra þetta betur, það sjest alt af greinargerðinni. Stjórnin tók fram í ástæðum sínum í fyrra, að það gæti verið, að íslenskir dómstólar væru ekki færir til að dæma einkaleyfismál. Dómstólarnir ættu að vera færir um að dæma þau. Dómararnir eru ekki t. d útgerðarmenn, iðnaðarmenn eða bændur, og þó dæma þeir í þeirra manna málum. Dómsmál landsins hafa nú breyst mikið, þar sem hæstirjettur er kominn. Dómarar dæma eðlilega eftir þeim skjölum, er í það og það skiftið eru lögð fram, í slíkum málum eins og öðrum.

Jeg ætla ekki að tala lengur, það er að eins til að draga tímann. En jeg mun svara, ef einhver hv. þm. skyldi æskja frekari upplýsinga. Frv. ætti að verða í samræmi við dönsku lögin. Jeg vona, að hæstv. forseti vilji bera frv. undir atkv., og hv. deild taki breytingunum vel.