19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1034)

21. mál, skipun læknishéraða o. fl. Bakkahérað

Pjetur Jónsson:

Það er ekki hægt að neita því um þau læknafrv., sem hafa verið lögð fyrir þingið, að það mælir oftast mikið með þeim, af því að svo ei háttað á voru landi, að víða er erfitt að ná til lækna, og einmitt í þessu hjeraði, sem hjer er um að ræða, getur það stundum borið við, að ómögulegt sje að hafa not af lækni, hversu brýn sem þörfin er.

En það var eitt orð hjá 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), sem gerir það, að jeg stend upp. — Hann sagði, að þjóðin væri með því að fjölga læknum. Já, jeg hefi nú ekki orðið var við það, að þjóðin vildi fjölga embættismönnum eða leggja í aukinn kostnað við það. Það ganga þvert á móti sífeldar prjedikanir á móti fjölgun embætta En hitt er satt, að það er eins um lækninn eins og prestinn. Enginn vill missa prestinn sinn, og allir vilja fjölgun lækna í kringum sig, ef þetta kostar þá ekkert sjerstaklega. En þegar verið er að ræða um það, að láta læknana hafa eitthvað af laununum frá mönnunum sjálfum, eða með öðrum orðum láta borgun fyrir aukaverk hækka að krónutali lítils háttar í áttina til móts við alt annað, svo að landssjóður þurfi minna að hækka laun þeirra, þá virðist viljinn dofnaður; þá verður helst að hallast að þeirri skoðun, að þjóðin vilji ekki hafa lækna. Sama er með það, ef menn ættu að borga prestunum sjálfir. Þá held jeg, að menn vildu helst hafa þá fáa, og þættust komast af með það. — Það er víst svo, að alþýðan vill gjarnan hafa embættismennina, ef hún að eins ekki þarf að borga þeim úr eigin vasa.

En hvað þau vandræði snertir, að geta látið menn undantekningarlaust eiga kost á læknishjálp, hvar sem er, með framkvæmanlegum tilkostnaði, þá álít jeg, að hv. þing verði að athuga það mál í heild, og þetta frv. í sambandi við það.