21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (1040)

25. mál, útrýming fjárkláða

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það mun vera kunnugt þeim mönnum, sem setið hafa á síðustu þingum, að komið hafa tilmæli ár eftir ár, sjerstaklega úr mínu kjördæmi, bæði þingmálafundargerðir og annarskonar ávörp, um það, að reyna að komast fyrir rætur þessa illa sjúkdóms, sem spillir svo mjög fje og þeim afurðum, sem bændur eiga að fá af þessum fjárstofni sínum, bæði til sölu og eigin notkunar, og þar sem svo er nú, að þetta er sá atvinnuvegur, sem öll fjárframleiðsla bænda hvílir á, má sjálfsagt vænta þess, að hv. þm snúist vel við slíkri málaleitun.

Jeg vil að eins nefna það, að þessi tilraun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, mistókst, og að hún mistókst af því, að ekki var hlýtt þeirri reglu, að líta í einhverja góða dýralækningabók, eða leita ráða hjá dýralækni.

Það, sem mönnum yfirsást, var að þetta eina það drepur ekki eggin, og þegar tímar líða, kemur nýr maur úr hverju eggi, og þegar ekki er baðað á milli þess, að sá nýi maur skríður úr egginu, og þess, að hann verpir nýjum eggjum, þá verður baðið ónýtt, eins og gefur að skilja.

Þess vegna verður það nauðsynlegt, eins og líka er sett hjer í frv., að hafa böðin tvö, með stuttu millibili, og þá er ekki að eins von, heldur líka vissa fyrir, að fjárkláðanum verði útrýmt, ef öll forstaða málsins er með fullri skynsemi.

Jeg þykist nú vita, að landbúnaðurinn eigi svo marga og mikla formælendur, að þessu frv. þurfi ekki að biðja vægðar, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar og hún af gnægð síns vísdóms færi það í þann búning, sem henni þykir best henta, og láti það ganga fram nú á þinginu.