20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (1043)

26. mál, laun embættismanna

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður um frv. þetta. Sú er í stuttu máli saga málsins, að læknafundurinn í fyrra lagði það til, að læknirinn í Hróarstunguhjeraði væri í hæsta launaflokki. En launanefndin gerði ýmsar breytingar á till. læknafundarins, og ein meðal þeirra var sú, að nefndum lækni var skipað í 2. launaflokk. Deildin feldi allar breytingar launanefndar viðvíkjandi flokkun læknishjeraðanna, nema þessa eina; það varð ofan á, að lækninum í Hróarstunguhjeraði var skipað í 2. launafl. Jeg hygg, að þetta hafi verið samþ. af misskilningi, og jeg hafði hugsað mjer að fá hann leiðrjettan. Þessi leiðrjettin er eigi síst nauðsynleg, ef frv. það verður samþ., sem hjer var á ferðinni í gær, um skiftingu Hróarstunguhjeraðs í tvö læknishjeruð. Ef það verður samþykt, verða aukatekjur læknanna í Hróarstunguhjeraði og Bakkahjeraði svo litlar, að sjálfsagt er að skipa honum í hæsta launaflokk, því að grundvöllur sá, sem sjerstaklega var bygt á í fyrra, voru aukatekjurnar.

Jeg vona því, að hv. deild leyfi frv. að ganga til 2. umr. og sigla í kjölfar frv. um skiftingu Hróarstunguhjeraðs.