24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1066)

42. mál, skipaferðir milli Íslands og Gautaborgar

Flm. (Bjarni Jónsson):

Mönnum er kunnugt um það, að til Svíþjóðar selst hjeðan kjöt, ull og síld. Jeg hafði ástæðu til þess áður á árum að skifta mjer af kjötsölu, og fór þangað með Jóni á Gautlöndum, og hygg, að við höfum komið einhverju til leiðar í þeirri ferð þó lítið verði nú um sölu þangað, þá er það af því, að það legst óþarflega mikill kostnaður á flutninginn, einkum frá Kaupmannahöfn og þangað, Kostnaðurinn eykst að vísu ekki svo mjög við flutning vörunnar frá Kaupmannahöfn til Málmhauga, heldur þaðan með járnbrautunum og skurðaflutningnum til Stokkhólms.

Um ullina er hjer raunar ekki eins mikið að ræða eins og síldina og kjötið. Og þar að auki er eins að geta, að ef vörurnar liggja í Kaupmannahöfn, og ekki seldar öðruvísi en til stórsala í Svíþjóð, þá getur svo farið, að fyrir þær fáist enn þá minna en ef menn ættu þar geymslustað og hefðu mann til að selja þar fyrir sig. Og það segja mjer kunnugir menn, að hefði geymslustaður verið í Stokkhólmi, þá hefði fengist hjá smásölunum miklu hærra verð en boðist hefir, svo að menn hefðu mátt vel við una. Þar sem nú má ganga út frá því, að geymslan hefði ekki þurft að verða neinum mun dýrari, hefði verið heimild til þess, fyrir landið, þá er auðsætt, að þetta verður beinn gróði, bæði á kjöti og síld, sem seld væri. Og til að fá því framgengt ætti að vera vel til vinnandi fyrir landið að styrkja slíkar beinar skipagöngur. Þess má geta, að nærri í hvert skifti, sem skip færi með kjöt eða síld, mundi fást fullfermi hina leiðina, og borgar það sig vel; jeg nefni viðinn sjerstaklega, vegna þess, að þaðan mun mest keypt af honum, þó að margt megi þar kaupa af öðrum vörum. Geta má þess og í sambandi við hitt málið, sem á undan var, að fengi Ísland sína sjerstöku mynt, þá myndi verða keypt miklu meira frá Svíþjóð. En þessi mikli gengismunur á sænskum og dönskum krónum gerir Íslendingum mjög erfitt að skifta mikið þar. Ef þessi styrkur er veittur, þá mundi sænska stjórnin ekki verða eftirbátur í að veita styrk líka; það hefi jeg eftir brjefum og viðtali, sjerstaklega eftir brjefum frá sænskum þingmönnum. Þeir hafa mikinn hug á því að auka sambandið hjer við land. Enn fremur er oft talað um, að Svíar fari hingað skemtiferðir, til að sjá land þetta og kynnast þjóð vorri, og má telja það nýja kröfu til að koma á þessum beinu ferðum.

Menn munu nú kann ske segja það, að það sjeu ekki miklir örðugleikar á að komast hingað til lands, en það er nú samt svo, að menn verða leiðir á að þurfa að halda uppi fyrirspurnum og brjefaskriftum um, hve nær þetta og þetta skip eigi að fara, og svo þegar þeir eru búnir að fá vissu sína, þá er oft búið að selja alla farmiða.

Jeg man t. d. eftir því, þegar Ragnar Lundborg kom hingað, að hann hafði fengið loforð fyrir að komast hingað með ákveðinni ferð, en svo var hann svikinn og hafði af því mikinn baga. — Jeg skil svo þessa heimild, að stjórnin ætti, undir öllum kringumstæðum, að veita þetta fje, ef annað, jafnmikið, fengist frá sænskri hlið. Jeg er ekki í vafa um, að þetta mun verða kallað fjáraustur, eins og mönnum hættir við að kalla allar veitingar úr landssjóði, en þetta eru peningar, sem vel er varið, og jeg vil benda mönnum á, að ef þetta gæti útvegað mönnum betra verð á kjöti og öðrum vörum í Svíþjóð, þá er vel til vinnandi.

Jeg vona, að hv. deild taki þessu máli vel og sjái, að hjer er von um hagnað, bæði fyrir landbúnað og sjávarútveg.