24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (1069)

42. mál, skipaferðir milli Íslands og Gautaborgar

Flm. (Bjarni Jónsson):

Mig undraði nokkuð það, sem hv. þm. Ak. (M. K.) nú sagði, að Svíar væru verstu keppinautar vorir. (M. K.: Á vissu sviði). Norðmenn eru miklu verri keppinautar, einmitt á þessu sviði. Tilgangurinn með till. minni var að kippa milliliðunum í burtu, en ekki sá, að setja nýjan í staðinn.

Það er kunnugt, að einn sænskur síldarkaupmaður á Siglufirði hefir haldið verðinu niðri í Svíþjóð, með því að selja fyrir lægra verð í Svíþjóð en Íslendingar gátu selt fyrir, og það þá með það fyrir augum, að fá síldina, sem lá í Kaupmannahöfn, fyrir lægra verð. Hefði nú íslenska síldin legið við hliðina á síld stórkaupmanna í Svíþjóð, hefðum við þó getað náð því verði, sem þeir seldu hana fyrir í smásölu, og útilokað þá frá að ráða verðinu á vorri síld.

Hv. þm. (M. K.) sagði, að sænski markaðurinn væri ekki eini markaðurinn. Jeg hefi aldrei sagt það, en hygg samt ekki rjett að vanrækja þann markað. Vjer Íslendingar framleiðum meira en ein þjóð getur keypt, að minsta kosti þjóð, sem ekki er stærri en Svíar. En geymslustaður í Gautaborg og bættar samgöngur við þann stað mundu þó ekki kosta meira en svo, að það margborgaði sig, ef það greiddi fyrir sölunni á síld okkar á sænska markaðinum, enda þótt vjer sendum hana ekki alla þangað.

Hv. þm. (M. K.) talaði um nýjan milligöngumann. En jeg vil þá spyrja, hvort enginn milligöngumaður sje í Kaupmannahöfn.

Enda þarf það ekki endilega að vera fjelagið sjálft, sem annast söluna í Svíþjóð, heldur mætti það gjarnan vera íslenskur maður, fyrir hönd útgerðarmannanna hjer.

Að mjer verður svo tíðrætt um síldina í sambandi við þetta, kemur af því, að jeg hygg, að það standi ýmsum fjárhagslega á miklu, hvort síld sú, er nú liggur utanlands óseld, seljist þolanlegu verði. Mjer er þetta mál í sjálfu sjer óskylt, en samt hefi jeg skrifað bæði til Svíþjóðar og Þýskalands út af þessu og farið þess á leit, hvort ekki mundi hægt að selja síldina með vöruskiftum.

Jeg hygg, að hjá Þjóðverjum muni í boði landvarnarskip, er vjer gætum fengið góðu verði í skiftum fyrir síldina. — Einnig hefi jeg átt brjefaviðskifti við kaupmann einn í Pommern, er vill koma á slíkum vöruskiftum, og láta t. d. salt til skifta, því þótt verslun Þjóðverja sje ekki komin í samt lag enn þá, þá geta Þjóðverjar þó látið svo mikið af vörum af hendi, er við höfum not af, að síldinni ætti að vera bjargað. Jeg sagði þetta til að sýna háttv. þm., að þetta væri ekkert bráðaþot hjá mjer, heldur hefi jeg óbeðinn reynt að ráða bót á þessu.

Jeg vænti þess, að þessu máli verði vísað til fjárveitinganefndar.