25.02.1920
Efri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1088)

18. mál, erfingjarenta

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður um frv. þetta. Það er bæði stutt og auðskilið, og nefndin er sammála flm. (B. K.) um, að þetta er gott og nytsamt mál, og gæti orðið lyftistöng fyrir fólk að ráða sig í ársvinnumensku. Erfðagjaldið er lítið, ekki nema um 10 þús. kr. En ef það skyldi hækka, eins og útlit er fyrir, kom nefndin með þá breytingu á 1. gr. frv., að hlutafje það, sem varið er á þennan hátt, fari ekki fram úr 20 þús. kr.

Þó að upphæðin færi ekki fram úr 1000 kr., gætu verðlaunin orðið æði mikil hvatning fyrir fólk að vera lengur í sama stað, í stað þessara miklu hlaupa úr einum staðnum í annan. Það yrði miklu happadrýgra fyrir fólkið sjálft að vera lengur í sama stað, og eins væri það betra fyrir þá, sem njóta verka þess.

Þá er breyting við 3. gr., sem byggist á því, að nefndinni fanst ekki rjett að takmarka veruna að eins við eitt heimili, og vildi ekki ganga svo langt, að hjúin hefðu verið í 5 ár í sama staðnum, en fanst hæfilegt að takmarka það við tvö. Aðrar breytingar eru flestar orðabreytingar. Stærsta breytingin, sem nefndin gerði, var að færa aldurstakmarkið úr 16 upp í 20 ár. Sektarákvæðinu breytti nefndin að því leyti, að hún setti ákveðið lágmark. 7. gr. hefir nefndin skift í tvær greinar.

Jeg vona, að frv. þetta finni náð fyrir augum háttv. deildar og að það nái fram að ganga.