27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (1101)

52. mál, afnám laga um húsaleigu í Reykjavík

Flm. (Jakob Möller):

Eins og kunnugt er, voru með húsaleigulögum 1917 settar allmiklar hömlur á umráðarjett húseigenda yfir eignum sínum. — Lög þessi voru frá byrjun illa þokkuð, og vinsældir þeirra hafa farið minkandi dag frá degi, eins og liggur í hlutarins eðli, vegna þess, hve nærri er gengið eignarrjettinum, en auk þess hafa menn vænst þess, að þau yrðu þá og þegar úr gildi numin, vegna þess, að upphaflega var talið, að hjer væri að eins um ófriðarráðstöfun að ræða, en þær vonir manna hafa þó ekki enn fengið að rætast. Í lögunum er svo ákveðið, að nema megi þau úr gildi með konunglegum úrskurði, þegar ekki þætti þörf á þeim lengur. Nú finst mönnum, að stjórnin ætti að fara að athuga, hvort ekki væri kominn tími til þess að nema þau úr gildi, og í þessari till. um afnám húsaleigulaganna er í rauninni ekki farið fram á annað. Á till. á þgskj. 102 voru „smíðis“-gallar, bæði hvað samningu og prentun snertir, og hefir hún því verið orðuð á ný, en er að efni til í aðalatriðunum sú sama eins og hún er orðuð á þgskj. 135. Jeg geri ráð fyrir, að brtt. á þgskj. 125 verði tekin aftur, vegna þess, að hún hefir verið tekin upp í aðaltill. eins og hún er nú. — Það er farið fram á, að numin verð úr gildi 2. og 3. gr. laga nr. 24, 12 sept. 1917, um húsaleigu í Reykjavík ásamt viðaukalögum nr. 45, 28. nóv 1919, sem sagt, öll ákvæði húsaleigu laganna, nema þau, sem snerta hámark húsaleigu, eða með öðrum orðum, öll þau ákvæði, sem hindra menn í því að ráðstafa eignum sínum eftir vild. — Tel jeg það óþarft að fjölyrða um þetta mál. Lögin hafa altaf verið illa þokkuð, og það er óhæfilegt að hafa slík lög, sem skerða rjett einstaklingsins þannig, nema brýnasta nauðsyn beri til. En það orkar að minsta kosti mjög tvímælis, hvort lög þessi sjeu nú orðið ekki fremur til ógagns en til gagns, vegna þess, að þeirra vegna sje minna bygt af íbúðarhúsum í bænum en ella myndi gert. En það er einmitt brýnasta nauðsynin, að sem mest sje bygt. Af húsnæðisleysinu, sem lög þessi geta auðvitað á engan hátt bætt úr, stafa ýms vandræði. Menn neyðast til að búa í íbúðum, sem eru óhæfar til íbúðar, en í skjóli húsaleigulaganna sitja margir, sem ella gætu bygt, kyrrir í leiguíbúðum sínum. Nú er þannig mál með vexti, að lög þessi voru gerð að tilhlutun bæjarstjórnar Reykjavíkur, og væri því eðlilegt, að leitað yrði álits hennar, áður en lögin yrðu numin úr gildi, enda er svo fyrir lagt í till., að það skuli gert. Þess er ekki heldur að vænta, að þingið vilji upp á eindæmi sitt taka neina fullnaðarákvörðun um slíkt mál, án þess að það sje borið undir bæjarstjórn. — Okkur þm. bæjarins hefir líka borist brjef frá borgarstjóra f. h. húsnæðisnefndar bæjarstjórnarinnar, þar sem þess er eindregið krafist, að álits hennar verði leitað um málið, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það brjef upp, og er það á þessa leið:

„Í tilefni af till. til þingsál. um afnám laga um húsaleigu í Reykjavík og brtt. við hana, sem fram hefir verið borin á Alþingi, hefir húsnæðisnefnd bæjarstjórnarinnar gert svo hljóðandi ályktun og falið mjer að tilkynna hana hv. þm. í þeim tilgangi, að þeir geri hana kunna Alþingi:

Húsnæðisnefndin er þeirrar skoðunar, að bæjarstjórn Reykjavíkur beri að hafa ákvörðunarrjett um, hve nær tími sje kominn til að afnema húsaleigulögin, eða hluta þeirra, og að bæjarfjelaginu sje stofnað í hættu, ef æðri stjórnarvöld, sem ekki hafa sömu skilyrði til að þekkja ástandið í bænum, hafa frumkvæði að því að afnema lögin.

Nefndin telur hins vegar rjett, að bæjarstjórnin taki húsnæðismálið til nýrrar yfirvegunar, og mun hún gera till. um það.

Virðist nefndinni hentugast, að öll ákvæði viðvíkjandi húsnæðismálinu verði sett með reglugerð, sem breyta megi, þegar ástæður breytast, en ekki með beinum lagaákvæðum, og telur því rjettast, að Alþingi setji nú þegar lög, eða heimili landsstjórninni að setja bráðabirgðalög, er heimili bæjarstjórn Reykjavíkur að setja reglugerð, sem stjórnarráðið staðfestir, um leigu á húsnæði til íbúðar, hámark húsaleigu og annað, til tryggingar því, að bæjarbúar geti notið þess húsnæðis, sem til er eða verður í bænum.

Jafnframt skorar húsnæðisnefndin á þingm. bæjarins að flytja svo látandi brtt. við till. til þingsál. um afnám laga um húsaleigu í Reykjavík:

Till. orðist svo:

Alþingi skorar á landsstjórnina að gefa út, ef bæjarstjórn Reykjavíkur óskar þess, bráðabirgðalög, sem heimili bæjarstjórninni að setja reglugerð, er stjórnarráðið samþykki, um leigu á húsnæði til íbúðar, hámark húsaleigu og annað, til tryggingar því, að bæjarbúar geti notið þess húsnæðis, sem til er eða verður í bænum.

Jafnframt verði þá úr gildi numin lög um húsaleigu í Reykjavík, nr. 24, 12. sept. 1917, og viðaukalög við nefnd lög, nr. 21, 14. okt. 1918.

Vænti jeg, að hv. þm. verði við þessari áskorun húsnæðisnefndar fyrir hönd bæjarstjórnarinnar.“

Jeg skal geta þess, að við þm. bæjarins höfum ekki getað sjeð ástæðu til þess að gera þá breytingu á þingsál.till., sem húsnæðisnefndin fer fram á. Tilgangur okkar með þeirri till. var að vísu sá, að koma hreyfingu á málið, að ýta við stjórninni í því skyni, að það yrði tekið til rækilegrar yfirvegunar, hvort ekki sje rjett að nema lögin úr gildi, meðfram vegna þess, að þau væru ef til vill farin að verka á móti tilgangi sínum. Við ætlumst auðvitað til þess, að tekið verði fult tillit til álits bæjarstjórnar og till. um þetta mál, og þó því að eins farið eftir þeim, að stjórnin telji þær till. á rökum bygðar.

Ef till. verður samþ., má líta svo á, að þingið hafi þar með vísað þessu máli algerlega frá sjer til aðgerða stjórnarinnar í samráði við bæjarstjórn Reykjavíkur. Og vænti jeg þess því, að enginn ágreiningur þurfi að verða um málið hjer, en að till. verði samþ.