27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (1103)

52. mál, afnám laga um húsaleigu í Reykjavík

Sveinn Björnsson:

Eins og kunnugt er, voru lög þessi upphaflega sett að tilhlutun bæjarstjórnar. Hún sá fram á óvenjuleg vandræði vegna ófriðarins, og fór því fram á, að hjer yrðu sett lög um þetta efni, eins og með öðrum þjóðum. Jeg var þess hvetjandi þá, og er þeirrar skoðunar, að lögin hafi gert mikið gagn. Þau eru sett vegna neyðarástands út af ófriðnum, en þegar nú ófriðnum er lokið, og smátt og smátt nálgast venjulegar kringumstæður í lífi manna, þá á að nema úr gildi, eins fljótt og hægt er, öll þau ákvæði, sem lagt hafa höft á menn. Eitt af þessum lögum eru húsaleigulögin í Reykjavík. Þau voru sett að tilhlutun bæjarstjórnar, og kemur því ekki til greina að afnema þau nema í samráði við bæjarstjórnina. Jeg hefi sjálfur komið með brtt. í þessa átt við till. á þgskj. 102, en þar sem hún hefir verið orðuð á ný í brtt. á þgskj. 135, og mín brtt. tekin þar upp, get jeg fallið frá brtt. á þgskj. 125 og tek hana aftur.

Eins og hv. samþm. minn (Jak. M.) tók fram, hefir þetta mál verið til umr. hjá sjerstakri nefnd í bæjarstjórn, og hún sent okkur flutnm. erindi það, sem hann las upp. Það, sem vakir fyrir okkur, er að hreyfing komist á málið. Það stendur í lögum þessum, að það megi afnema þau með konunglegri tilskipun; er það óvenjulegt ákvæði í lögum. Það má því búast við því, að stjórnin fari gætilega að því að afnema lögin. Er því full ástæða til, að þingið láti uppi álit sitt í þessu efni. En þótt till. sje samþ., geri jeg ráð fyrir, að stjórnin afnemi ekki þessi ákvæði laganna nema bæjarsjórnin telji það heppilegt. Eftir brjefi því, sem komið hefir frá borgarstjóra, virðist einmitt húsnæðisnefnd bæjarstjórnarinnar tími til kominn að afnema húsaleigulögin, en leggur til, að sett verði önnur lög, sem heimila bæjarstjórninni að setja reglugerð um leigu á húsnæði til íbúðar, hámark húsaleigu o. fl.

Nú er ekki tími til að samþ. slík lög, en jeg vænti þess, að stjórnin taki fult tillit til brjefsins, sem fram hefir komið. Með því fororði mæli jeg með því, að till. verði samþ.