18.02.1920
Neðri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1127)

15. mál, biskupskosning

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg gat því miður ekki komið fyr á fund, og hefi þess vegna ekki heyrt ástæður flm. fyrir frv.

Mjer kemur það að vísu ekki á óvart, að frv. sem þetta er fram komið. Um þetta hefir verið talað áður, og jeg tel það ekki nema eðlilegt, að prestar og aðrir kirkjunnar menn hafi einhver áhrif á biskupsval. Bein biskupskosning hefir aldrei átt sjer stað í hinni evangel. þjóðkirkju; ekki heldur hjer á landi síðan siðabót. Þar sem talað er um, að biskupar hafi verið kosnir hjer á landi á síðari hluta 16. aldar og á fyrri hluta 17. aldar, þá var kosning þeirra síst biskupskosning í þeim skilningi, að hún væri lögð undir atkvæði allra presta í hvoru biskupsdæmi, heldur var hún aðallega fólgin í því, að lærðir menn og leikir á Alþingi eða prestar á synodus komu sjer saman um tilnefning, er stjórnin að vísu tók tillit til, en ekki þóttist bundin við.

Þar sem biskupskosning hefir á síðustu tímum verið leidd í lög innan evangeliskra þjóðkirkna — í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi — er þá ekki heldur um beina kosningu að ræða, heldur er þar að eins kirkjunni sjálfri, þ. e. prestum, próföstum og guðfræðisprófessorum gefinn kostur á að hafa áhrif á biskupsskipun, með því að tilnefna þá þrjá, er þeir álíta hæfasta. En stjórnin er ekki bundin við að taka þann, er flest hefir atkvæði, og getur jafnvel gengið fram hjá öllum þremur.

Jeg teldi rjett, að eitthvað líkt þessu, sem á sjer stað um þetta efni í umgetnum löndum, væri leitt í lög hjá oss.