13.02.1920
Neðri deild: 3. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Stjórnarfrv. eru nú lögð fram í báðum deildum á sama tíma, en jeg get ekki verið á tveimur stöðum í einu. Jeg vildi því mælast til þess við hæstv. forseta, að hann tæki fyrst fyrir þau mál, sem falla undir atvinnumálaráðherrann.

En úr því að búið er að taka þetta mál fyrir, þá get jeg farið um það nokkrum orðum. Jeg veit ekki betur en að allir hv. þm. sjeu kosnir upp á það, að samþykkja stjórnarskrána óbreytta, og má búast við, að hún sje öllum þorra landsmanna kunn. Jeg þarf því ekki að fara frekara út í breytingar þær, er þetta frv. gerir á gildandi stjórnskipunarlögum.

Jeg veit ekki, hvort menn hafa hugsað sjer að skipa sjerstaka nefnd í þetta mál, en mjer þætti það viðkunnanlegra. Jeg býst að vísu ekki við, að nefndin breyti í neinu efni eða innihaldi stjórnarskrárinnar, en þær athugasemdir, sem hún kynni að gera, gætu komið að haldi, ef stjórnarskránni yrði síðar breytt.