10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Rannsókn kjörbréfa

Sveinn Björnsson:

Mjer þykir rjettara að nota tækifærið, það málfrelsi, sem jeg hefi hjer enn þá, til þess að hreyfa nokkrum mótbárum fyrir hönd kjósenda minna.

Mjer finst ástæðulítið, eða að minsta kosti hart að gengið, að láta stærsta kjördæmi landsins, bæ með 16,000 íbúum, vera fulltrúalausan um lengri tíma en nauðsynlegt er. Og frá mínu sjónarmiði sje jeg ekki heldur, að svo þurfi að vera, sje ekki, að nokkur ástæða sje til að draga þetta mál á langinn, ekki nokkur ástæða til að láta ekki úrskurðinn koma strax.

Öllum er kunnugt um ágalla þá, er taldir eru að vera á kosningunum, og eru þau atriði öll svo einföld, að eigi virðist þurfa langan tíma til þess að mynda sjer skoðun.

Hv. frsm. 1. kjördeildar (E. E.) sagði, að þingið legði út á hálar brautir, ef það hrapaði að úrskurði þessa máls. Jeg vil snúa því við. Það væru hálar brautir, ef frestað væri að ástæðulausu að gilda eða ógilda þessa kosningu. Það væru hálar brautir að gera sjer svo að segja leik að því, að svifta stærsta kjördæmi landsins báðum þingmönnum sínum um óákveðinn tíma. Jeg vona, að þingið fari ekki þá leiðina.

Jeg skal viðurkenna það, að margt mælir með því, að ógilda alla kosninguna, ef kosning hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) er að engu höfð, og væri þá Reykjavík algerlega þingmannslaus. En yfirleitt er málið svo einfalt, liggur svo beint við, að engum þeim manni, sem þjóðin trúir fyrir velferðarmálum sínum, ætti að vera vorkunn að greiða atkv. um það þegar í stað.

Um þá ástæðu, sem hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) bar fram frestun í vil, hefi jeg fátt eitt að segja. Jeg veit ekki betur en að yfirkjörstjórn hjer og víðar hafi skilið svo lög, að slíkir seðlar, sem hjer um ræðir, væru ógildir. Þingið þarf því engan tíma til að átta sig á því máli. Þó einhverjum hugkvæmist að vera á annari skoðun um þetta efni, þá sje jeg ekki ástæðu til að misbjóða þess vegna stærsta kjördæmi landsins. En það er gert með þessari till., og verð jeg því að mótmæla því, að hún nái fram að ganga.